Þórarinn Sveinn Arnarson fæddist í Reykjavík 2. desember 1972. Hann lést 23. maí 2018. Hann var sonur hjónanna Guðrúnar Þórarinsdóttur kennara, f. 5.4. 1950, og Arnar Þorbergssonar endurskoðanda, f. 6.6. 1954.

Systkini Þórarins eru Örvar læknir, f. 14.2. 1976, kvæntur Ingibjörgu Magnúsdóttur. Þau eiga þrjú börn, og Stefanía Ósk viðskiptafræðingur, f. 6.1. 1986, í sambúð með Orra S. Guðjónssyni. Þau eiga tvo syni.

Þórarinn kvæntist hinn 21. ágúst 1999 Mörtu Guðrúnu Daníelsdóttur umhverfisverkfræðingi, f. 2.5. 1972. Marta er dóttir hjónanna Kristrúnar Guðbjargar Guðmundsdóttur, f. 15.5. 1953, og Daníels Gunnarssonar, f. 24.9. 1952. Systkini Mörtu eru Guðmundur Björgvin, f. 15.10. 1974, og Halldóra Rut, f. 2.2. 1979.

Synir Þórarins og Mörtu eru Baldur Örn, f. 7.3. 2000, Bjarki Daníel, f. 14.5. 2002, Kristinn Rúnar, f. 1.9. 2005, og Guðmundur Brynjar, f. 1.9. 2005.

Þórarinn ólst upp á Kársnesi í Kópavogi og gekk í Kársnes- og Þinghólsskóla. Sem barn og unglingur dvaldi hann ófá sumur á Skeggjastöðum hjá Guðrúnu ömmu sinni og Þorbergi afa. Þórarinn var afburðanámsmaður. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Kópavogi 1992 sem dúx skólans og B.Sc.-gráðu í efnafræði frá Háskóla Íslands 1995 með hæstu einkunn sem gefin hafði verið frá upphafi í greininni. Hann lauk M.Sc.-prófi í hafefnafræði frá University of Washington 1999 og Ph.D.-gráðu í hafefnafræði frá sama skóla 2004. Hann flutti aftur til Íslands með fjölskyldu sinni 2005 og starfaði fyrst um sinn sem sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun. Hann starfaði hjá Orkustofnun síðastliðin tíu ár sem verkefnastjóri olíuleitar auk eldsneytismála og orkuskipta.

Þórarinn stundaði tónlistarnám um árabil og lauk 8. stigi í þverflautuleik frá Tónlistarskóla Kópavogs. Auk þess hafði hann unun af bóklestri, útivist og ferðalögum og átti það sérstaklega við um ferðalög innanlands með fjölskyldu sinni og heimilisvininum Koli.

Þórarinn sat um tíma í stjórn foreldrafélags Grunnskóla Seltjarnarness. Hann var virkur í íþrótta- og tónlistarstarfi barna sinna á Seltjarnarnesi og fór ófáar ferðir með sonum sínum á íþróttamót og í lúðrasveitabúðir, bæði innanlands og utan. Undanfarna vetur var hann virkur félagi í Lúðrasveit verkalýðsins ásamt eldri sonum sínum.

Útför Þórarins fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 1. júní 2018, og hefst athöfnin kl. 13.

Hlýtt bros

blik í auga

glaður hugur

einkenndi þig.

Þú varst:

Einlægur, sannur

dýrmætur fjölskyldu

vinum, samtíð.

Fráfall þitt

svo óvænt

var sárt

nístandi sárt.

Minning þín

er björt.

Hún vermir

dapran huga.

(Ægir Fr. Sigurgeirsson)

Mamma og pabbi.

Það er þyngra en tárum taki að setjast niður og skrifa minningar um Þórarin stóra bróður minn. Hann var einstaklega hlýr og hugulsamur bróðir. Sama hvað á bjátaði gat ég leitað til hans og hann hafði alltaf tíma til að hlusta á mig og bjóða huggun eða gefa góð ráð eftir því hvernig stóð á. Hann var ekki bara traustur á erfiðum stundum í lífinu, hann gat líka verið glettinn og lagði stundum mikið á sig til að skemmta litlu systur sinni.

Mér er alltaf minnisstæður rúnturinn sem við áttum um Kópavoginn hér um árið. Ég hef sennilega verið tólf ára og þótti forréttindi að fá að rúnta með honum. Þegar við ókum inn á hringtorg sagði Þórarinn skyndilega: „Tveir, tíu eða tuttugu?“ Ég botnaði ekkert í spurningunni fyrr en hann sagði mér að velja eina af þessum tölum. Að sjálfsögðu valdi ég tuttugu, af því að það var hæsta talan og því augljóslega besti valkosturinn. Ég áttaði mig hinsvegar á því þegar við vorum búin að fara tvo hringi um hringtorgið að sennilega voru það mistök að velja töluna tuttugu og það varð alveg skýrt á áttunda hring að talan tíu hefði verið skárri kostur en tuttugu! Okkur var báðum orðið óglatt áður en yfir lauk og ég kútveltist um af hlátri. Þórarinn hélt út þó að hann væri orðinn ringlaður og kláraði með herkjum. Hann þurfti svo að leggja bílnum til að jafna sig áður en við héldum heim, því hann gat varla keyrt beint eftir þetta.

Þórarinn var mikil fyrirmynd í mínu lífi og leit ég ekki bara upp til hans sem bróður heldur einnig sem uppalanda. Við Orri gátum alltaf leitað til hans og Mörtu þegar kom að foreldrahlutverkinu og vorum við dugleg að hlusta og feta í þeirra fótspor, enda þau búin að ala upp fjóra yndislega drengi sem eru okkur svo kærir. Ef Þórarinn var ekki að spila með strákunum sínum tónlist með lúðrasveitinni naut fjölskyldan þess að verja frítíma sínum saman. Fyrir okkur var hann hinn fullkomni pabbi.

Það er átakanlega erfitt að kveðja Þórarin, stóra bróður minn, sem alltaf var glaður og kátur og bauð upp á knús hvenær sem ég þurfti á að halda. Ég reiknaði alltaf með því að við myndum fylgjast að og verða samferða í gegnum lífið og deila frekari uppeldisráðum, hlátrasköllum og gleði. Ég kem alltaf til með að líta upp til þín, elsku bróðir.

Stefanía Ósk Arnardóttir.

Þórarinn stóri bróðir var fjórum árum eldri en ég. Við vorum um flest töluvert ólíkir. Hann rólegur og sjálfum sér nógur en ég meira fyrir hasar og læti. Bernskuárin bjuggum við að hluta í Fellabæ og fengum oft að leika lausum hala. Þá lá leiðin niður að bökkum Lagarfljóts og reyndum við að giska á hversu djúpt það væri. Um helgar fórum við reglulega í heimsókn til afa og ömmu á Skeggjastöðum.

Sveitalífið féll Þórarni vel og ósjaldan varð hann eftir hjá afa og ömmu, þar sem hann naut þess að lesa bækur og hjálpa afa við verkin. Þær voru líka ófáar heimsóknirnar til ömmu Stefaníu á Eiðum. Þórarinn bróðir var mikill veiðimaður og fórum við gjarnan niður að Eiðavatni eða Húsatjörn þar sem hann kenndi mér að nota veiðistöngina, hnýta fiskihnút og rota fisk.

Þegar Þórarinn var 12 ára fluttum við á Kársnesið í Kópavogi. Það kom fljótlega í ljós að Þórarinn var afbragðs námsmaður. Hann stóð sig vel í skólanum og varði löngum stundum við nám og lestur. Hann lærði á þverflautu og kláraði öll stigin í tónlistarskólanum. Ég man glöggt eftir því að hafa leikið mér í legó í herberginu mínu og hlustað á flautuleikinn sem barst inn til mín. Það vandist furðu vel og féll vel í minn hversdagsleik.

Því miður voru samskipti okkar Þórarins stopul á fullorðinsárum vegna náms og fjarlægðar. Ég hafði hlakkað til að endurskapa tengsl við Þórarin þegar ég flytti aftur heim til Íslands en því miður höfðu örlögin annað í huga. Hvíl í friði, elsku bróðir.

Örvar Arnarson.

Þórarinn Sveinn tengdasonur okkar var um margt einstakur maður. Þegar hann kynntist Mörtu Guðrúnu dóttur okkar fyrir rúmlega tuttugu árum fylgdi honum strax umvefjandi hlýja og var hann ávallt boðinn og búinn að rétta hjálparhönd og leggja okkur lið. Hann var sannur og einlægur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur og einstaklega barngóður. Þessi viðhorf hafa synirnir tileinkað sér í svo ríkum mæli.

Þau ár sem Þórarinn og Marta bjuggu í Seattle og stunduðu framhaldsnám urðu þau þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast fjóra drengi. Drengirnir uxu úr grasi og nutu ástríkis samhentra foreldra sem vöktu hamingjusöm yfir velferð þeirra. Við heimsóttum þau oft á þessum árum og dvöldum hjá þeim til að fylgjast með vexti og þroska afa- og ömmustrákanna. Á námsárunum kom fjölskyldan heim til Íslands um jól og dvaldi hjá okkur.

Eftir að fjölskyldan flutti heim að námi loknu var Þórarinn óþreytandi að styðja við synina og miðla þeim af sínum lífsviðhorfum. Hann studdi þá hvort heldur sem var í almennu námi, tónlistarnámi, íþróttum og því mikilvægasta, að hjálpa þeim að verða góðir menn. Allt þetta gat hann svo vel með sinni endalausu þolinmæði og hlýju. Þórarinn var þátttakandi í nánast öllu sem drengirnir tóku sér fyrir hendur og mátti verða þeim til aukins þroska. Marta og Þórarinn forgangsröðuðu ævinlega sínum tíma með tilliti til þarfa drengjanna. Þórarinn fylgdi þeim á íþróttamót og í lúðrasveitabúðir bæði innan lands og erlendis. Á þeim ferðum nutu önnur börn einnig liðsinnis hans og hjálpsemi.

Þórarinn, Marta og drengirnir ferðuðust mikið um landið okkar og þá sem fyrr var sífellt verið að sá fræjum. Fræjum virðingar fyrir náttúrunni allri, landinu, verndun þess, fegurð og mikilleika. Bækur voru jafnan uppi við á þessum ferðum og fróðleiksmolum dreift. Ýmist leigðu þau bústaði eða ferðuðust með tjaldvagninn og fundu fallega og áhugaverða staði. Lagt var upp í gönguferðir, veiðiferðir og berjaferðir að hausti. Veðrið var afstætt hugtak. Fjölskyldan okkar er afar þakklát fyrir stundirnar sem við áttum með þeim á ferðalögum. Þessi ævintýri eru ómetanleg nú í safni minninganna.

Nú kveðjum við okkar ástríka tengdason hinstu kveðju. Eftir alltof stutta ævi skilur Þórarinn eftir sjóð minninga sem mun lifa með okkur og ylja um ókomin ár. Það segir mikið um mannkosti hans að við minnumst þess ekki að hafa nokkru sinni heyrt hann hallmæla nokkrum manni.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Hvíl í friði, elsku vinur. Við munum standa vörð um það sem þér var kærast.

Kristrún og Daníel.

Þórarinn mágur minn var mikill fjölskyldumaður. Drengirnir hans fjórir eru fæddir á fimm árum og því oft líf og fjör á heimili þeirra Mörtu systur minnar. Þrátt fyrir það virtist alltaf vera tími til að sinna hverjum og einum þeirra enda forgangsröðunin í lífi þeirra hjóna skýr og hagur drengjanna og hamingja ávallt höfð að leiðarljósi. Þórarinn fylgdi drengjunum sínum ófáar ferðir í lúðrasveitabúðir og á íþróttamót, hvatti þá, umvafði og styrkti á sinn hlýja og yfirvegaða hátt.

Samgangur fjölskyldna okkar var mikill og minningarnar margar. Þegar við borðuðum saman var oftast grillað og þeir svilar stóðu saman úti við grillið og gættu að kjötinu og spjölluðu, Þórarinn iðulega kominn í stuttbuxur og bol þegar fyrstu geislar vorsólarinnar létu sjá sig. Það var afar notalegt að koma á heimili Þórarins og Mörtu á sunnudagsmorgnum í vöfflukaffi og kakó. Þá var það Þórarinn sem stóð við vöfflujárnið og bakaði stóran stafla enda dugði ekkert minna fyrir strákaskarann okkar. Hann sýndi drengjunum mínum einstaka hlýju og velvild og vildi allt fyrir þá gera.

Þórarinn hafði mikinn áhuga á ljósmyndun og átti góða myndavél sem hann hafði ævinlega meðferðis í ferðalög og á viðburði. Drengirnir mínir fengu oft albúm með fallegum myndum og góðum minningum í jólagjöf og var þessi gjöf í miklu uppáhaldi. Á einni þessara mynda, sem tekin er á Rauðasandi í yndislegri fjölskylduferð, er Þórarinn með Atla minn í fanginu og þeir félagar baðaðir sól og sumaryl. Þannig mun ég minnast mágs míns og vinar. Elsku hjartans Marta, Baldur, Bjarki, Mummi og Kristinn, megi allar góðir vættir yfir ykkur vaka og veita styrk. Minning um góðan dreng lifir.

Halldóra (Dóra).

Ég var svo lánsöm að kynnast Þórarni þegar hann bættist við í tengdabarnahópinn í Stuðlaselsfjölskylduna og varð svili minn. Það voru einstaklega góð kynni og vinátta sem hélst fram á síðasta dag þrátt fyrir breyttar aðstæður á síðustu árum.

Fljótlega eftir að þau Marta byrjuðu að vera saman fluttu þau til Seattle og hófu þar nám. Úr fjarska fylgdumst við spennt með hvernig litla fjölskyldan stækkaði og frændunum fjölgaði. Þegar þau fluttu heim að námi loknu og festu rætur á Nesinu var fjársjóðurinn orðinn fjórir yndislegir drengir. Það var því í nógu að snúast á stóru heimili og aðdáunarvert að fylgjast með hversu samtaka og samrýnd Marta og Þórarinn voru með drengina í öllum sínum verkefnum.

Þórarinn var einstaklega greiðvikinn og bóngóður. Hann var alltaf boðinn og búinn að bjóða fram aðstoð sína þar sem hann taldi þörf á kröftum sínum. Þar skipti engu máli hvort það var pössun á litlum frænda eða að ganga frá eftir fermingarveislu. Fallega brosið hans og þægileg nærvera gerði það að verkum að ekki var annað hægt en að líða vel í kringum þennan ljúfling.

Hann var frábær pabbi og iðinn við að fylgja sonum sínum eftir í íþróttum og tónlistinni, og oftar en ekki í hlutverki fararstjóra. Þau voru því ófá íþróttamótin og handboltaleikirnir sem við hittumst á, enda frændurnir á svipuðum aldri. Það var alltaf jafn notalegt að hitta hann þótt við værum ekki alltaf sammála um hvort ÍR eða Grótta væri betra liðið hverju sinni.

Í síðustu viku dró skyndilega dökkt ský fyrir sólu hjá fjölskyldunni á Nesinu og lífið tók kúvendingu. Þórarinn yfirgaf þessa jarðvist og sofnaði svefninum langa.

Það er enginn tilbúinn að kveðja mann í blóma lífsins sem á stóra fjölskyldu og með mörg krefjandi verkefni framundan. Við slíkar aðstæður vakna svo margar spurningar sem ekki fást svör við. Lífið verður óskiljanlegt.

Eftir sitja fjölskylda og vinir lömuð af sorg. Minningabrotin um allar góðu stundirnar með Þórarni hrannast upp. Minningar frá fallegum brúðkaupsdegi þeirra Mörtu, uppvexti strákanna, veislunum og heimsóknunum til Danmerkur, svo fátt eitt sé nefnt. Þrátt fyrir sorgina er hjartað fullt þakklætis fyrir að hafa fengið að vera samferðamaður Þórarins í öll þessi ár, og þá hlýju og velvild sem hann gaf mér og börnunum mínum.

Hver minning verður að dýrmætri perlu. Ein dýrmætasta perlan sem ég á er fallega brosið og hlýja faðmlagið sem ég fékk við komuna á pallinn í Stuðlaselinu nokkrum dögum fyrir andlát hans. Sú perla verður vel varðveitt.

Sorgin og söknuðurinn nístir hjörtu allra þeirra sem unnu Þórarni en mestur er þó missirinn fyrir eiginkonu og ungu synina fjóra. Engin orð geta lýst þeirri sorg sem þau þurfa að ganga í gegnum núna.

Elsku Marta, Baldur Örn, Bjarki Daníel, Kristinn Rúnar og Guðmundur Brynjar. Megi allar góðu minningarnar um yndislegan mann og einstakan föður veita styrk og huggun í ykkar miklu sorg.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

(Valdimar Briem)

Margrét Valgerður

Helgadóttir.

Í dag kveðjum við Þórarin, mág minn, sem kvaddi okkur óvænt og skyndilega.

Kynni mín af Þórarni hófust á árinu 1998 þegar við Örvar, bróðir hans, urðum kærustupar. Hann kom afskaplega vel fyrir, hæglátur og hlédrægur. Hann var gæddur mörgum hæfileikum frá náttúrunnar hendi. Hann var afburðagreindur og afbragðsgóður þverflautuleikari. Einnig var hann afar flinkur í höndunum og prjónaði listafallegar flíkur. Til að mynda prjónaði hann skírnarkjól handa drengjunum sínum sem var mikið listaverk.

Mér er minnisstæð heimsókn okkar Örvars til þeirra hjóna og Baldurs Arnar sonar þeirra í Seattle á haustmánuðum 2001. Þau hjónin tóku vel á móti okkur og við nutum samverunnar með þeim. Það kom mér skemmtilega á óvart hversu vel lesinn Þórarinn var um Seattle og nánasta umhverfi og var mikil skemmtun að hlusta á frásagnir hans af þessum slóðum. Þau hjónin höfðu ferðast talsvert um þetta svæði og þekktu það vel. Við Örvar nutum góðs af þar sem þau lánuðu okkur bílinn sinn, forláta „amerískan kagga“, sem þurfti sérstaka alúð til að komast í gang, en á honum keyrðum við um nágrenni Seattle og heimsóttum alla þá áhugaverðu staði sem þau hjón höfðu bent okkur á.

Þórarinn var góður drengur og mikill fjölskyldumaður. Hann bar hag fjölskyldu sinnar ávallt fyrir brjósti og setti framar sínum. Missir allra aðstandenda er óbærilegur en missir Mörtu og drengjanna hvað mestur, sem sjá nú á bak kærum eiginmanni og föður. Mínar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra. Minningin lifir um góðan dreng.

Ingibjörg Magnúsdóttir.

Þórarinn frændi var einstakur maður. Skarpgreindur, ljúfur, fylginn sér og vinnusamur – og er þá fátt eitt talið. Þegar ég hugsa til baka, þá situr eftir hvernig hann á sinn látlausa hátt sýndi samferðafólki sínu virðingu og skilning svo eftir var tekið. Frábæru drengirnir hans voru honum ávallt efst í huga og hann var óþreytandi að sinna þeim, hvort sem það var í námi, íþróttum eða lúðrasveit. Fjölskyldan var númer eitt. Þannig var Þórarinn bara gerður. Ég naut góðs af því þegar við ólumst upp í sveitinni hjá ömmu Stefaníu á Eiðum, hvar við dvöldum langdvölum á sumrin. Hann var stóri frændi, alltaf svo góður og pollrólegur, með brosið sitt fallega og krullótta hárið. Á meðan við hin vorum að ærslast og lenda í vandræðum var hann í rólegheitum að lesa bók. Hann hvíldi svo fallega í tíma og rúmi.

Við fráfall Þórarins er hugur minn hjá yndislegu fjölskyldunni hans, drengjunum fjórum, Baldri, Bjarka, Kristni og Guðmundi, og elsku Mörtu. Megi þau finna styrk til að takast á við þessa miklu raun. Foreldrum Þórarins, þeim Guðrúnu móðursystur minni og Erni, og systkinum hans, Örvari og Stefaníu, votta ég alla mína dýpstu samúð. Við fjölskyldan á Skólabraut sendum ást og styrk til ykkar allra.

Ég mun ávallt minnast Þórarins fallega frænda míns með væntumþykju og virðingu.

Anna Sigríður Arnardóttir.

Þórarinn Sveinn, elsta barn Gunnu systur, er látinn langt um aldur fram. Hugurinn leitar stöðugt aftur í tímann og minningabrotin streyma upp í hugann.

Sumarið 1977 var ég með Hauki syni mínum hjá mömmu á Eiðum. Gunna og Öddi bjuggu þar líka með strákana sína, Þórarin Svein og Örvar. Ég sé Þórarin fyrir mér í sólinni á hlaðinu, fjögurra ára með krullurnar sínar í brúnum flauelsbuxum með axlabönd og í skóm af bræðrum mínum Halla eða Magga. Hann var svo kátur með stóru fullorðinsskóna og gekk bísperrtur um hlaðið og sýndi okkur hvað hann var fínn.

Á hverjum morgni gekk Gunna með litla snáðanum í fjósið að sækja mjólk. Þórarinn var líka með mjólkurbrúsa og óumræðilega stoltur þegar hann kom færandi hendi með litla brúsann sinn fullan af mjólk. Samviskusemin og dugnaðurinn kom þarna strax í ljós.

Þórarinn átti mikið safn af vísindaskáldskap og fantasíubókum, sem var snyrtilega raðað í sérstaka bókahillu. Iðulega þegar við komum í Holtagerðið lá Þórarinn á maganum uppi í rúmi í herberginu sínu að lesa eða hann æfði sig á þverflautuna. En aldrei þurfti að hóa tvisvar til að fá hann til að taka þátt í leikjum fjölskyldunnar; hlýr og yndislegur stökk hann til, hvort sem það var til að skera út laufabrauð, skreyta piparkökur eða spila.

Við systkinin fórum oft í Bláfjöll með krakkana. Þórarinn naut sín í brekkunum og ég veit ekki hvernig hann lærði að skíða svona fallega. Ekkert okkar hafði tærnar þar sem hann hafði hælana í þessari íþrótt frekar en í svo mörgu öðru sem hann tók sér fyrir hendur.

Það kom mörgum okkar á óvart þegar Þórarinn dúxaði í menntaskóla og kom heim klyfjaður af verðlaunum, því aldrei sást hann læra. Námið lá áreynslulaust fyrir honum og hann var hógvær með eindæmum – brosti bara sínu hlýja einlæga brosi. Það kom líka kennurum hans á óvart þegar fréttist að hann lauk á sama tíma áttunda stigi á þverflautu án þess að það væri metið til stúdentsprófs!

Við systkinin og fjölskyldur komum vikulega saman í mat hjá mömmu á meðan hennar naut við, en þess utan stóð Gunna systir fyrir flestum samverustundum á Huldubrautinni. Þá var oft spilað. Einu sinni lék Þórarinn New York í „Actionary“ og gerði það með því að bíta í eitthvað stórt og kringlótt. Við stóðum öll á gati. Og ég játa fúslega að á þeim tíma vissi ég ekki einu sinni að New York væri kölluð „Big Apple“.

Þórarinn kynntist Mörtu í Háskóla Íslands og fóru þau saman til frekara náms í Seattle. Eftir að þau fluttu heim kom Þórarinn iðulega með fjölskylduna í eplaköku til mömmu á Sólvallagötu. Umhyggja hans fyrir mömmu og Jónsa bróður var alveg einstök.

Þórarinn var hógvær og hlý persóna og mikið ljúfmenni. Hann var fjölskyldumaður af alhug og hugsaði vel um drengina sína sem tóku ríkan þátt í tónlistarlífinu með föður sínum.

Elsku Marta, Baldur, Bjarki, Guðmundur, Kristinn, Gunna og Öddi, Örvar og Stefanía og fjölskyldur. Missir ykkar er mikill og orð mega sín lítils, en þið megið vita að hugur okkur allra er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum.

Björg Þórarinsdóttir.

Þórarinn Sveinn Arnarson er horfinn frá okkur svo ungur, glæstur og flestum drengjum betri. Sorgin er harmasár. Annað verður ekki útskýrt neinum orðum.

Lengst af undanfarin ár var Þórarinn verkefnastjóri kolvetnisleitar hjá Orkustofnun. Hann var nákvæmur vísindamaður sem hafði umsjón og eftirlit með margslungnu alþjóðlegu rannsóknarverkefni, einu því umfangsmesta nokkru sinni á landgrunninu norður af Íslandi. Í því starfi naut hann trausts og virðingar hérlendis sem erlendis. Hann er fyrrverandi samstarfsmönnum sínum, víða um lönd Evrópu og í Kína, harmdauði. Hugur alls þessa fólks er með fjölskyldu hans á þungri stundu. Það biður fyrir samúðarkveðjur. Ég starfaði náið með Þórarni að þessum landgrunnsverkefnum olíuleitar og öðrum rannsóknarverkefnum auðlinda, m.a. hveraörvera í þágu líftækni, innan Orkustofnunar, hvor á sínu fagsviði. Aldrei bar skugga á þá teymisvinnu.

Þótt olíuleit sé í biðstöðu, um stund, biðu ný og ögrandi verkefni Þórarins hjá Orkustofnun, utan hans vísindalega sérsviðs. Færni hans var ekki dregin í efa, t.d. á vettvangi orkuskipta í samgöngum bæði á íslenska og evrópska vísu. Þá var Þórarinn öflugur liðsmaður starfsmannafélagsins sem vert er að þakka. Hann var einnig félagi í Lúðrasveit verkalýðsins, en ég aðdáandi hennar, sem við oft ræddum á góðri stundu. Persónuleiki hans var hlaðinn gæsku og skyldurækni. Vanda sinn bar hann með sjálfum sér. Ég kveð einstakan ljúfling og félaga, en samúð mín er hjá Mörtu og drengjunum hans, foreldrum og fjölskyldu.

Skúli Thoroddsen.

Þau hörmulegu tíðindi bárust í síðustu viku að samstarfsmaður minn og vinur Þórarinn Sveinn Arnarson væri látinn. Þegar Þórarinn hóf störf hjá Orkustofnun fyrir rúmum áratug fékk hann það vandasama hlutverk að stýra verkefnum sem tengdust rannsóknum, leyfisumsóknum og fyrirhugaðri leit að olíu á Drekasvæðinu, en þessum verkefnum stýrði hann allan sinn starfstíma hjá stofnuninni. Ég hafði nokkru áður hafið störf á Orkustofnun og fljótlega fengum við það verkefni að vinna að gerð og uppsetningu á kortasjá á netinu til að birta meðal annars upplýsingar um öll helstu korta- og rannsóknagögn frá Drekasvæðinu. Þarna gerði ég mér fyrst grein fyrir hvaða hæfileikamann Þórarinn hafði að geyma. Hann var hámenntaður, skarpgreindur, fljótur að greina hlutina og allt sem tengdist tölvutækninni lék í höndunum á honum. Ritfærni, einstök enskukunnátta og yfirburðaþekking á tækni og rannsóknum gerðu það að verkum að margbrotið og á margan hátt ófyrirsjáanlegt verkefni leystist farsællega.

Þórarinn hafði alltaf mikið frumkvæði í alls konar málefnum og var maður athafna á stofnuninni. Hann var félagsmálamaður á vinnustað, tók að sér stjórn starfsmannafélagsins um tíma og var ötull við að sinna undirbúningi alls konar viðburða. Hann var fjölhæfur svo af bar, sem gerði það að verkum að sérhæfð og tæknilega flókin verkefni frá öðrum fagsviðum en hans eigin, enduðu oft á hans borði. Hann var jafnframt einstaklega hjálpsamur við samstarfsfólk sitt og aðstoðaði oft við almennari verkefni, eins og til dæmis þýðingar og vefmál. Alltaf voru verkefnin unnin af áhuga og metnaði og ekki fann maður að hann skorti tíma til að sinna slíku, þó það kæmi stundum í ljós eftirá að hann hafði vegna anna á vinnustaðnum tekið verkefnin með sér heim og unnið þau þar eitthvert kvöldið.

Þórarinn var einstakur á svo margan hátt. Hann var mjög vandaður maður, góðmennska og hlýja skein frá honum, hann talaði ávallt vel um alla í kringum sig og naut ómældrar virðingar samstarfsfólks síns og annarra sem unnu með honum. Þeir sem kynntust honum gerðu sér fljótt grein fyrir því að fjölskylda hans og hagur hennar var alltaf í fyrsta sæti. Engum duldist hvar hjarta hans sló. Við fylgdumst með því að hann átti mörg áhugamál, stundaði ýmsar íþróttir, hjólaði meðal annars utan af Seltjarnarnesi í vinnuna á Grensásveginum og lúðrasveitarstarf hans og tónlistarnám sonanna var honum mjög hugleikið. Það var alltaf gott og gefandi að tala við hann og lærdómsríkt að heyra hvernig hann sá lífið og samfélagið í kringum sig.

Andlát Þórarins er öllum sem stóðu honum nálægt og til hans þekktu hræðilegt áfall. Ég sendi Mörtu, sonum þeirra og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur.

Þorvaldur Bragason.

Þórarinn Sveinn systursonur minn hafði marga kosti til að bera. Hann var ljúfur drengur, með einstaklega hlýja nærveru, rólegur í framkomu og jafnan góður við samferðamenn sína. Hann hét í höfuðið á afa sínum Þórarni Sveinssyni og voru þeir um margt líkir.

Þórarinn var líka mikill ömmustrákur og eftir að hann kom heim frá námi í Bandaríkjunum voru ferðir hans og Mörtu með drengina tíðar til ömmu Stefaníu á Sólvallagötunni. Eins og nærri má geta kom hið rómaða eplapæ oft við sögu.

Frá unga aldri var fróðleiksfýsn Þórarins áberandi. Hann varð snemma læs og mikill lestrarhestur. Hann las allt milli himins og jarðar bæði sér til fróðleiks og skemmtunar. Ósjaldan var hann á kafi í bókum þegar ég heimsótti Gunnu systur. Og mér fannst gaman að fylgjast með því, hvernig hann kom sér upp allskonar stellingum og völdum stöðum á heimilinu sem honum þótti henta til lesturs. Þegar hann útskrifaðist sem stúdent vann hann til verðlauna fyrir góðan námsárangur í nánast öllum greinum. Ekki gat farið hjá því að hann færi alla leið á námsbrautinni, hann lauk doktorsnámi frá Washington-háskóla í Seattle og var lofaður fyrir hæfni sína sem vísindamaður.

Við systkinin áttum bróður, Sigurjón, sem lést í janúar í fyrra. Jónsi var einstæður alla ævi og um sumt sérstakur í háttum. Hann tók miklu ástfóstri við Þórarin og fjölskyldu hans. Þau endurguldu honum ríkulega með einstakri ástúð og natni og var hann heimagangur hjá þeim eftir að þau settust að hér á landi. Í samskiptum sínum við Jónsa sýndi Þórarinn vel úr hverju hann var gerður – af eðlislægri ljúfmennsku var hann alltaf tilbúinn að sinna þeim sem minna máttu sín í lífinu. Það var líka veröldin sem hann ólst upp við. Heimilið sem Gunna og Öddi bjuggu börnum sínum einkenndist af manngæsku, gleði og ástríki og var það löngum helsti samverustaður stórfjölskyldunnar.

Við lát Þórarins er sorg okkar og söknuður sem eftir stöndum mikill. Elsku Marta, Baldur Örn, Bjarki Daníel, Kristinn Rúnar og Guðmundur Brynjar, ykkar missir er stór og elsku Gunna systir, Öddi, Örvar, Stefanía og fjölskyldur, megi æðri máttarvöld styrkja ykkur öll á þessum erfiðu tímum.

Ólöf Þórarinsdóttir.

Mig langar að minnast hans Þórarins frænda míns. Við Þórarinn vorum jafngamlir og vorum sérstaklega nánir á okkar yngri árum þegar Þórarinn bjó fyrir austan. Fjölskylda hans flutti svo suður þegar við vorum enn ungir að árum, en það var alltaf gott að hitta Þórarin aftur, hvort sem var þegar þau komu í frí austur eða þegar mín fjölskylda var í heimsókn í höfuðborginni. Þórarinn var afburðanámsmaður, og þó svo að ég hafi sjálfur alltaf átt gott með að læra þá fannst mér hann standa mér framar og hafa meiri metnað til að standa sig vel í náminu. Við sóttum á sama tíma háskólanám heima á Íslandi hvor í sinni námsgreininni. Ég utan að landi, bjó þá á Nýja-Garði, og var alltaf boðið nokkuð reglulega í kvöldmat til fjölskyldu Þórarins auk þess sem ég rakst reglulega á hann á skólagöngunum. Það fór alltaf vel á með okkur og við gátum rætt um heima og geima. Báðir enduðum við síðar á að fara í framhaldsnám til Bandaríkjanna, hann til Seattle og ég til Colorado. Amstur lífsins tók svo við; vinna, fjölskylda og börn. Árin liðu en við hittumst reglulega í fjölskylduboðum og stundum á vinnutengdum atburðum eftir að hann hóf störf hjá Orkustofnun. Við bjuggum tiltölulega nálægt hvor öðrum og sá ég hann stundum á göngustígum í hverfinu okkar að viðra hundinn sem þau áttu. Hann Þórarinn var rólegur og vingjarnlegur maður sem auðvelt var að leita til. Ég vildi óska þess að ég hefði haft tækifæri til að eyða meiri tíma með honum. Ég votta fjölskyldu Þórarins mínar innilegustu samúðarkveðjur og hugur minn er hjá Mörtu og strákunum þeirra Þórarins. Hvíl í friði, minn kæri frændi.

Óli Grétar Blöndal Sveinsson.

Sumir sem eru manni samferða í lífinu skilja eftir sig stærri spor en aðrir. Þórarinn var einn af þessum mönnum og Marta er það svo sannarlega líka. Þvílík öndvegis hjón. Það fór svo sem ekki mikið fyrir Þórarni í eiginlegum skilningi. Hlýr, hæglátur, skilningsríkur, ósérhlífinn og hjálpsamur. Stutt í brosið og alltaf gott að hitta hann. Hann var drengur góður.

Þórarinn var alltaf tilbúinn í verkefnin sem aðrir gáfu sér ekki tíma fyrir eða höfðu ekki tök á að sinna. Og þegar við segjum Þórarinn þá á það við um Mörtu líka. Það væri erfitt að telja þær stjórnir sem þau hjónin hafa setið í; foreldrafélög, fjáröflunarnefndir og hvaðeina. Þau skiptu þessu bara á milli sín. Þá fannst ekki traustari og reyndari fararstjóri í þær óteljandi ferðir, þar sem Þórarinn hélt utan um börnin okkar dag og nótt, með nesti og plástra í bakpoka á daginn, og í svefnpoka á dýnu á nóttinni. Það eiga svo margir góðar minningar um Þórarin og hans er og verður sárt saknað.

En nú sameinumst við í sorginni og veitum elsku Mörtu, Baldri, Bjarka, Guðmundi og Kristni þann stuðning og styrk sem þau Þórarinn hafa veitt öðrum í gegnum árin með einum eða öðrum hætti. Það er það minnsta sem við getum gert. Þeirra missir er svo mikill og sár. Minningin um góðan mann, föður, vin og félaga mun hins vegar lifa að eilífu.

Edda, Eiríkur, Andrea, Ari Pétur og Sigrún María.

Í dag kveðjum við kæran vin, hann Þórarin okkar.

Við fjölskyldan í Heiðargerðinu áttum með honum margar ómetanlegar stundir, bæði innanlands og í Seattle, þar sem þau Marta voru við nám.

Þórarinn var einstaklega greiðvikinn, hlýr og hjálpsamur. Fjölskyldan var honum allt og það var fallegt að fylgjast með hversu stoltur og áhugasamur hann var um allt sem drengirnir hans fjórir tóku sér fyrir hendur.

Í sorginni hjálpar að ylja sér við hlýjar minningar um einstakan vin sem var okkur öllum svo kær. Elsku Þórarinn, megir þú hvíla í friði.

Er sárasta sorg okkur mætir

og söknuður huga vorn grætir

þá líður sem leiftur úr skýjum

ljósgeisli af minningum hlýjum.

(HJH)

Edda, Marta og Daníel.

Kveðja frá samstarfsfólki:

Vinur okkar og samstarfsmaður, Þórarinn Sveinn Arnarson, lést miðvikudaginn 23. maí. Þórarinn hóf störf hjá Orkustofnun 1. febrúar 2008 og hafði því starfað með okkur í tíu ár.

Þórarinn var okkur kær samstarfsmaður og góður vinur og var einstaklega vel liðinn hér á Orkustofnun sem og hjá kollegum okkar utan stofnunarinnar. Þórarinn var ákaflega duglegur og ósérhlífinn og setti sterkan svip á starf stofnunarinnar. Hans vinna síðustu mánuðina var á sviði orkuskipta sem hann hafði mikla ástríðu fyrir og skein það í gegnum allt sem hann gerði. Hann hafði einstaklega góða nærveru og glaðlegt viðmót og gaf sér alltaf tíma til að spjalla við og aðstoða samstarfsfólk sitt. Hann var mikill fjölskyldumaður og var tíðrætt um Mörtu og strákana og áhugamál sín, til dæmis lúðrasveitina sem hann og strákarnir hans deildu.

Við samstarfsfólk Þórarins og aðrir í Orkugarði, Grensásvegi 9, komum til með að sakna nærveru hans og atorku. Við vottum fjölskyldu Þórarins okkar dýpstu samúð með þakklæti í huga fyrir að hafa átt samleið með honum. Hugur okkar er hjá ykkur.

Fyrir hönd samstarfsfólks á Orkustofnun,

Anna Lilja Oddsdóttir og

María Guðmundsdóttir.

Svo er því farið:

Sá er eftir lifir

deyr þeim sem deyr

en hinn dáni lifir

í hjarta og minni

manna er hans sakna.

Þeir eru himnarnir

honum yfir.

(Hannes Pétursson)

Skáldið Hannes Pétursson vísar hér veg eftirlifendum sem takast á við mikinn harm og missi. Í mínum huga styðst ég við margar góðar minningar eftir aldarfjórðungs kynni við Þórarin Svein Arnarson. Fyrst var hann áhugasamur nemandi og síðar öflugur samstarfsmaður. Aldrei bar skugga á okkar samskipti.

Við unnum að rannsóknum á sviði efnafræði sjávar, við verkefni sem gátu verið krefjandi bæði á sjó og í landi. Á sinn hógværa og yfirvegaða hátt kynnti Þórarinn sér flókin viðfangsefni til hlítar og leysti þau. Minningin geymir góðar stundir þegar gruflað var í gögnum og þau brotin til mergar. En maðurinn mælir ekki allt og skilur ekki allt. Við leitum endalaust fyllingar í þær eyður. Tónlist sameinar menn og tónlist var Þórarni dýrmæt, síðustu ár lék hann t.d. með syni sínum í Lúðrasveit verkalýðsins. Í dag ómar í mínum huga sinfónía Mahlers, sú sem er kennd við upprisuna.

Þórarinn kom heim frá framhaldsnámi í Seattle, vel metinn af verkum sínum en ekki síður stoltur heimilisfaðir sem lét sér annt um Mörtu eiginkonu sína og fjóra syni þeirra. Þrátt fyrir velgengni hans í vísindunum fór aldrei milli mála að þau voru honum það mikilvægasta í lífinu.

Við Sigrún vottum Mörtu, sonum þeirra og aðstandendum Þórarins dýpstu samúð.

Vertu sæll vinur og ljósinu falinn.

Jón Ólafsson.

Í upphafi árs 2008 var undirbúningur að útboði leitar og vinnsluleyfa á Drekasvæðinu kominn vel á veg og ljóst að ráða þurfti öflugan starfsmann til þess að halda utan um útboðið og samskiptin við leyfishafa. Það var okkur því mikill léttir á Orkustofnun þegar við fundum Þórarin meðal umsækjenda um starfið. Hann var vel menntaður í hafsbotnsfræðum og með reynslu af hafrannsóknum. Hann nálgaðist viðfangsefnið með hógværð og alúð, sem var fallin til þess að skapa honum virðingu og vekja traust bæði innan stofnunarinnar og meðal þeirra vinnslufyrirtækja sem við áttum í samskiptum við. Hann átti mjög gott með að starfa með fólki og aðrir sérfræðingar í kringum hann tóku þátt í verkefninu þannig að það tókst að skapa heildstæðan grunn sem útboðsferlið hvíldi á.

Þórarinn var félagslyndur í bestu merkingu þess orðs. Hann var alltaf reiðubúinn að veita aðstoð þegar til hans var leitað og lét sér mjög umhugað um velferð samstarfsmanna sinna. Hann var áhugamaður um jafnréttismál og hélt utan um þá vinnu sem hafin er til þess að koma á jafnlaunavottun innan stofnunarinnar. Orkustofnun hefur eftirlit með eldsneytisnotkun landsmanna og orkuskiptum og hann tók að sér stjórnun þessa málaflokks á síðasta ári þar sem fyrirsjáanlegt var að verkefni á sviði olíuleitar myndu dragast saman. Hann varð sífellt sannfærðari um nauðsyn þess að draga þyrfti úr eldsneytisnotkun landsmanna og að stofnunin ætti að vera til fyrirmyndar í þeim málum. Fjölgun hleðslustöðva á bílastæðinu, deilibíll til afnota fyrir starfsmenn sem komu án bíls í vinnuna, rafmagnsreiðhjól fyrir minni skreppitúra og fjölsóttir kynningarfundir um orkuskipti komu til framkvæmda á nokkurra mánaða tímabili.

Þórarinn var ávallt glaður og jákvæður í viðmóti og gekk í þau verk sem honum voru falin af heilum hug. Við fundum líka sterkt hversu hugur hans var hjá fjölskyldunni og hvernig dagskráin hjá honum utan vinnutímans var full af viðburðum tengdum íþróttaiðkun og tónlistarnámi barnanna sem veittu honum mikla gleði og lífsfyllingu. En Þórarinn gekk ekki heill til skógar. Við samstarfsfélagar hans vissum að hann glímdi við psoriasis og fór reglulega í Bláa lónið til þess að fá einhverja bót. Við gerðum okkur hins vegar ekki grein fyrir því hversu þjáður hann var. Hann var í sterkri og erfiðri lyfjameðferð sem m.a. leiddi til veikingar ónæmiskerfisins. Ósérhlífni hans og skyldurækni héldu honum í starfi þegar hann með réttu hefði átt að vera kominn í sjúkraleyfi.

Við samstarfsfélagar hans á Orkustofnun sjáum nú á eftir góðum dreng og vinnufélaga sem yfirgaf þennan heim alltof fljótt. Ég er hins vegar viss um að viðkynning okkar við hann á liðnum árum, manngæska hans og umhyggja, geymist með sérhverju okkar sem lítill fjársjóður sem við getum tekið af þegar okkur finnst mótlætið yfirþyrmandi.

Hugur okkar og samúð er hjá Mörtu og sonunum sem sjá nú á bak elskandi föður og þurfa að takast á við breytta tilveru þar sem hann verður svo óralangt fjarri en þó alltaf nálægur.

Guðni A. Jóhannesson.

Hann birtist hæglátur eitt mánudagskvöld fyrir nokkrum árum með netta tösku undir hendi. Hann sagðist heita Þórarinn og óskaði eftir því að fá að leika á þverflautu með lúðrasveitinni. Í för með honum var elsti sonur hans, Baldur Örn, sem hélt á öllu stærra hljóðfæri og var í sömu erindagjörðum.

Við buðum þá feðga að sjálfsögðu velkomna og hófust þar með afburðagóð kynni okkar af Þórarni og fjölskyldu hans. Þórarinn var flinkur flautuleikari og því kærkomin viðbót í okkar raðir. Hann var hvers manns hugljúfi og eftir aðeins stutt stopp fannst mörgum eins og hann hefði verið í okkar röðum til fjölda ára. Þórarinn var bóngóður, hann var oft og iðulega með þeim fyrstu til að bjóða fram aðstoð í þeim verkum sem þurfti að vinna og duglegur að taka þátt í öllum þeim viðburðum sem fylgja erilsömu starfi lúðrasveitar.

Einhverju síðar kom svo Bjarki Daníel, næstelsti sonur Þórarins, einnig til liðs við okkur og auðvitað vonumst við eftir að fá yngri synina tvo í hópinn þegar þeir hafa aldur til, enda nú þegar orðnir slyngir hljóðfæraleikarar eins og Þórarinn og eldri bræðurnir báðir.

Það var sérstaklega eftir því tekið í okkar hópi hversu náið og gott samband var á milli Þórarins og sona hans. Hann var sannarlega vinur þeirra og vel sást hversu umhugað honum var um þroska þeirra og uppeldi.

Fréttin af andláti Þórarins kom okkur í opna skjöldu. Það er huggun að vita til þess að á erfiðum stundum getum við sem betur fer yljað okkur við minningar af ljúflingi góðum sem okkur þótti öllum svo ósköp vænt um.

Kæra Marta og synir, missir ykkar er mikill. Hugur okkar allra í LV er hjá ykkur og við biðjum þess að góður Guð megi veita ykkur styrk á þessum erfiðu tímum. Blessuð sé minning Þórarins Arnarsonar.

Fyrir hönd Lúðrasveitar verkalýðsins,

Rannveig Rós Ólafsdóttir.

Vertu dyggur, trúr og tryggur,

tungu geymdu þína,

við engan styggur né í orðum hryggur,

athuga ræðu mína.

(Hallgrímur Pétursson)

Þessi orð skáldsins lýsa vel okkar ljúfa og trausta vinnufélaga, sem nú er farinn frá okkur. Hann Þórarinn var sannarlega hvers manns hugljúfi, jákvæður og bóngóður, enda treyst fyrir margs konar verkefnum, jafnt faglegum fyrir stofnunina og fyrir starfsmannafélagið okkar. Eitt af verkefnunum var að innleiða jafnlaunastefnu á Orkustofnun og engum var betur treystandi fyrir því verkefni en honum; um það voru allir sammála. Hann smitaði okkur öll með áhuga sínum og bjartsýni á því að það tækist að koma á jafnlaunastefnu og jafnrétti hér á landinu bláa. Hann var mjög meðvitaður um að jafnrétti tekst ekki nema allir vinni heimavinnuna sína, og skemmtilegt var að ræða við hann um hve nauðsynlegt væri að hann og aðrir fjölskyldufeður, gættu þess að „strákarnir okkar“ væru aldir upp með jafnréttið að leiðarljósi.

Missir okkar vinnufélaga hans er mikill, en óumræðilegur er missir strákanna hans og fjölskyldu hans allrar, bið um styrk þeim til handa nú og um alla framtíð.

Þakka ljúflingnum Þórarni samveruna á Orkustofnun, skarð hans verður aldrei fyllt. Kveðja,

Hrafnhildur, Orkustofnun.

Fregnin um að vinur minn hann Þórarinn hefði kvatt þennan heim var lengi að rótast um í höfðinu á mér áður en ég skildi að hún væri staðreynd sem ekki yrði breytt. Auðvitað er maður aldrei búinn undir að fá slíkar harmafregnir en þegar svona traustur og góður vinur kveður svo skyndilega er sem veröldin stöðvist og ekkert verður samt aftur. Við höfðum þekkst í nærri 30 ár og þó að hin síðari ár hefðu færri tækifæri gefist til að rækta vinskapinn breytti það engu. Í hvert skipti sem við hittumst var eins og við hefðum sést síðast í gær, hann var þannig vinur, traustur, áreiðanlegur, skarpgreindur og alltaf gaman að hitta hann.

Á erfiðum stundum er gott að eiga nóg af minningum að rifja upp og allan þennan tíma sem við þekktumst hlóðst inn í minningabankann.

Þórarinn var yfirburða námsmaður, bæði skarpgreindur en líka ótrúlega samviskusamur og duglegur. Eiginlega litu bara allir frekar illa út í samanburðinum en það verður þó að segjast að það var alltaf gott að geta leitað til vinar síns þegar þýskustíllinn var of mikið torf eða stærðfræðin torskilin, aldrei kom maður að tómum kofunum. Eftir fyrsta árið í efnafræði í HÍ skildi leiðir í náminu en við vorum ennþá góðir vinir og ég á góðar minningar um fjölmargar útilegur sem voru farnar í góðum hópi enda Þórarinn mikill útivistarmaður og náttúruunnandi. Þó að framhaldsnámið hafi verið sótt á vesturströnd Bandaríkjanna breytti það engu um okkar vinskap. Hann undi sér vel í landi allsnægtanna en það var sumt sem þar skorti sárlega og í Íslandsheimsóknum var alveg fastur liður að fara í sund og fá sér pylsu með öllu. Einn daginn held ég að við höfum afrekað að heimsækja fjórar pylsusjoppur í jafnmörgum sveitarfélögum.

Mér er líka minnisstætt þegar ég heimsótti Þórarin og Mörtu í Seattle hvað þar var vel tekið á móti mér og gestinum sýnt allt það markverðasta bæði í borginni en ekki síst í gríðarfallegri náttúrunni þar í kring. Fórum til dæmis í magnaðan hjólatúr um vínekrur rétt utan við borgina, man að bakaleiðin sóttist heldur seint enda margt sem fyrir augu bar.

Þórarinn var mikill fjölskyldumaður og þegar þau fluttu heim voru börnin orðin fjögur talsins. Hann var stoltur af drengjunum sínum og ég fékk fréttir af þeim í hvert sinn sem við hittumst. Hin síðari ár var greinilegt að fjölskyldan og vinnan tóku mest af hans tíma eins og gengur og minna var aflögu fyrir vini og kunningja.

Með þessum fátæklegu orðum vil ég kveðja góðan vin og þakka honum samfylgdina. Einn daginn hittumst við svo aftur, tökum upp þráðinn og þá verður eins og við hefðum hist í gær.

Elsku Marta og synir, mínar innilegustu samúðarkveðjur, megi góður Guð styrkja ykkur í sorginni.

Ómar Gísli.


Farðu í friði, vinur minn kær,
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni
svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)
Hvíl í friði, ástin mín.
Þín
Marta.