Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason
Lagt er til að lögin um kjararáð falli úr gildi 1. júlí nk. og þar með verði ráðið lagt niður í frumvarpi sem meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur lagt fram á Alþingi. Þá er gert ráð fyrir að hafi ný ákvörðun ekki verið tekin fyrir 1.

Lagt er til að lögin um kjararáð falli úr gildi 1. júlí nk. og þar með verði ráðið lagt niður í frumvarpi sem meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur lagt fram á Alþingi.

Þá er gert ráð fyrir að hafi ný ákvörðun ekki verið tekin fyrir 1. maí 2019 skuli laun þeirra sem heyra undir ákvarðanir kjararáðs taka breytingum í samræmi við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna eins og

hún birtist í tölum Hagstofu Ísland fyrir næstliðið almanaksár.

„Skipunartími núverandi ráðsmanna kjararáðs rennur út 30. júní 2018. Í ljósi þess að nú er unnið að gerð frumvarps, þar sem stefnt er að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana þeirra sem nú heyra undir ákvörðunarvald kjararáðs, þykir ekki rétt að nýtt kjararáð verði skipað og er því nauðsynlegt að fella úr gildi lög um kjararáð,“ segir í greinargerð meirihlutans með frumvarpinu.

Skynsamlegt að taka af tvímæli

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir að ástæða þess að meirihlutinn leggur til að lögin verði felld úr gildi sé sú að skipunartíminn sé að renna út og í ljósi þess að unnið er að lagasetningu á grundvelli tillagna starfshóps forsætisráðherra, sem skilaði niðurstöðum sínum í febrúar sl. um að komið verði skikkanlegri skipan á ákvörðun launa þeirra hópa sem heyra undir kjararáð. Því finnst meirihluta þingnefndarinnar skynsamlegt að taka af öll tvímæli um breytingarnar að sögn hans.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar vildu ekki vera meðflutningsmenn að frumvarpinu og segir Óli Björn að það valdi vonbrigðum. Hann vonist til þess að frumvarpið komist á dagskrá þingsins og að þó stjórnarandstaðan hafi ekki viljað vera með muni hún a.mk. ekki standa í vegi fyrir því að málið fái efnislega umræðu á þinginu. Segist Óli Björn ekki trúa öðru en að frumvarpið verði afgreitt sem lög fyrir sumarhlé þingsins. ,,Ég bíð bara eftir að fá að mæla fyrir málinu,“ segir hann.

Megindrættir að framtíðarfyrirkomulagi launaákvarðana þeirra sem heyra í dag undir kjararáð koma fram í skýrslu starfshóps forsætisráðherra. Lagði hópurinn m.a. til að horfið yrði frá því að úrskurða í kjararáði, eða hjá sambærilegum úrskurðaraðila, um laun þjóðkjörinna fulltrúa, æðstu embættismanna, ráðherra og annarra sem undir ráðið heyra. Jafnframt að laun þingmanna verði ákvörðuð í lögum um þingfararkaup með fastri krónutölufjárhæð og laun ráðherra verði ákveðin með sama hætti í lögum um Stjórnarráð Íslands. omfr@mbl.is