Mikil tilhlökkun Gunnar Malmquist Gunnarsson með landsliðstreyju Arnórs Þórs, og Jóna Arnórsdóttir með treyjuna sem Aron Einar klæddist í sigrinum á Kosovo í fyrrahaust, þegar Ísland tryggði sér sæti á HM í Rússlandi.
Mikil tilhlökkun Gunnar Malmquist Gunnarsson með landsliðstreyju Arnórs Þórs, og Jóna Arnórsdóttir með treyjuna sem Aron Einar klæddist í sigrinum á Kosovo í fyrrahaust, þegar Ísland tryggði sér sæti á HM í Rússlandi. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is Hjónin Jóna Arnórsdóttir og Gunnar Malmquist Gunnarsson á Akureyri hafa í nógu að snúast um þessar mundir.

Skapti Hallgrímsson

skapti@mbl.is

Hjónin Jóna Arnórsdóttir og Gunnar Malmquist Gunnarsson á Akureyri hafa í nógu að snúast um þessar mundir. Yngri sonur þeirra, Aron Einar, er landsliðsfyrirliði í fótbolta og Arnór Þór, sá eldri, landsliðsmaður í handbolta. Þau fara að sjálfsögðu á HM í Rússlandi en skreppa fyrst um helgina til Þýskalands til að sjá síðasta leik vetrarins hjá Arnóri og fagna því að lið hans, Bergischer, vann sér sæti í efstu deild á ný.

„Við gerum að sjálfsögðu ekki upp á milli strákanna,“ segir Jóna og hlær þegar blaðamaður ræðir við þau um afreksmennina tvo.

Jóna og Kristbjörg, eiginkona Arons Einars, sjá alla þrjá leiki Íslands á HM eins og það var svo óvarlega orðað í samtali hennar og blaðamanns. „Fyrstu þrjá!“ segir gamli keppnismaðurinn Gunnar hvass... Hann sér fyrstu tvo leiki Íslands.

Hjónin, börn þeirra og barnabörn – alls 13 manns – fóru saman á EM í Frakklandi fyrir tveimur árum. Leigðu hús í Annecy, þar sem íslenska liðið hafði bækistöð, og keyrðu í leikina. „Það var rosalega gaman á EM. Allir voru svo glaðir og jákvæðir; stemningin var svo skemmtileg að ekki var annað hægt en hrífast með,“ segir Jóna.

„Það var heldur ekki ónýtt að fá hann í mat, þegar við grilluðum lambakjöt sem við komum með frá Íslandi,“ segir Gunnar, en þar sem Aron gat ekki tekið þátt í öllum æfingum vegna meiðsla, fékk hann að skjótast og hitta fjölskylduna.

Þau segjast farin að hlakka mikið til Rússlandsferðarinnar.

„Þessir strákar eru svo flottir að mér finnst eiginlega engu máli skipta hvernig fer, bara að vera með á HM og fá að upplifa þetta finnst mér stórkostlegt!“ segir Jóna. „Maður er búinn að fylgjast lengi með en mér hefði aldrei dottið í hug að Ísland gæti orðið með í þessu,“ segir hún.

„Þetta verður gaman, en fer mikið eftir fyrsta leiknum,“ segir Gunnar. „Innst inni hélt maður að Portúgal væri með það gott lið að við hefðum ekki roð við þeim í fyrsta leiknum í Frakklandi en annað koma á daginn. Argentínumenn eru með marga frábæra einstaklinga en liðið hefur samt oft verið í vandræðum með að stilla saman strengi.“

Jóna tekur undir að verkefnið í Rússlandi verði að sjálfsögðu erfitt fyrir Aron Einar og samherja hans, „en ég hef samt bullandi trú á þeim. Ég sagði við Aron að þeir yrðu bara að hafa trú á sjálfum sér því ég veit að þeir geta staðið sig vel á góðum degi; og trúin flytur fjöll.“

Hjónin eru gríðarlega stolt af báðum drengjunum sínum, eins og nærri má geta. „Það er ekki annað hægt,“ segir Gunnar og Jóna bætir við: „Þeir eru ofboðslega flottir og hafa staðið sig vel. Ég er ótrúlega ánægð með þá báða.“