Snákamaðurinn Unnar Karl með King Cobra-slöngu sem er ein sú eitraðasta í heimi. Unnar starfar sem sjálfboðaliði í London dýragarðinum.
Snákamaðurinn Unnar Karl með King Cobra-slöngu sem er ein sú eitraðasta í heimi. Unnar starfar sem sjálfboðaliði í London dýragarðinum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Unnar Karl Ævarsson úr Kópavogi nemur dýralíffræði í Bretlandi og starfar í London Zoo. Snákar og önnur skriðdýr eru í sérstöku uppáhaldi.

Katrín Lilja Kolbeinsdóttir

katrinlilja1988@gmail.com

Unnar Karl er fæddur og uppalinn í Kópavogi og lauk námi í bifvélavirkjun frá Borgarholtsskóla. Hann fann sig þó aldrei almennilega í bifvélavirkjun og eftir nokkur ár í starfi ákvað hann að söðla um og finna sér starf tengt umönnun dýra. „Þá var ég loksins farinn að finna mig aftur.“

Hann ákvað að breyta algerlega um stefnu og leggja land undir fót og leiddi ævintýraþráin hann á endanum til Bretlandseyja.

Aðspurður segir Unnar Karl Bretland hafa orðið fyrir valinu þar sem það hafi einfaldlega verið ódýrast að stunda BA-nám í dýralíffræði á Englandi. Beðinn að útskýra dýralíffræði nánar stendur ekki á svörum:

„Dýralíffræði, eða zoology eins og þetta heitir á ensku, er mjög skemmtilegt og gríðarlega áhugavert nám. Aðaláherslur eru þróunarkenningin, vistfræði og uppbygging lífvera, allt frá einföldum frumum og upp í mjög stór dýr og allt þar á milli. Okkur er sömuleiðis kennt hvernig skal framkvæma rannsókn frá byrjun til enda og hvernig á að skrifa almennilegar ritgerðir um slíkar rannsóknir.“

Unnar Karl segir það fjarri lagi að dýralíffræði hafi verið æskudraumur. „Satt best að segja vissi ég ekki af þessu námi fyrr en ég var um það bil tvítugur. Þá byrjaði ég að leita að námi sem tengdist dýrum.“

Dýraáhuginn hefur hins vegar alltaf verið fyrir hendi að hans sögn.

Froskur kveikti áhugann

„Ég var duglegur að heimsækja „skítalækinn“ í Kópavogi til að veiða og fylgjast með hornsílum. Sömuleiðis fór ég oft í fjöruna sem lækurinn leiðir út í til þess að finna krabbadýr og fleiri liðdýr. Hvert sem ég fór var ég alltaf að leita að dýrum og þá sérstaklega framandi dýrum.“

Unnar Karl sérhæfir sig í skriðdýrum og segir hann áhugann á þeim hafa orðið til þegar hann var smástrákur og sá frosk í fyrsta skipti á ævinni.

„Þegar ég fór með fjölskyldu minni til Portúgals þegar ég var lítill sá ég í fyrsta skipti frosk, sem stökk ofan í tjörn, og þá varð ekki aftur snúið. Ég varð heltekinn af skriðdýrum og eyddi þessum þremur vikum í Portúgal í að leita að froskum á daginn og eðlum á kvöldin. Sömuleiðis eyddi ég miklum tíma í gæludýraverslunum, að suða í foreldrum mínum að kaupa fyrir mig froska.“

Foreldrar Unnars Karls gáfust, að hans sögn, loks upp og allar götur síðan hefur hann átt framandi gæludýr, allt frá örsmáum eiturörvafroskum yfir í stóra baulfroska. Það reyndist þó þrautin þyngri fyrir íslenskan dreng að eiga slík gæludýr, þar sem þau eru ekki leyfð sem gæludýr hér á landi. „Þetta er úrelt lögbann sem gerir Ísland að einu þjóð Evrópu sem ekki leyfir skriðdýr sem gæludýr.“

Í Bretlandi starfar Unnar Karl í dýragarði í London sem nefnist einfaldlega London Zoo, en það ákvað hann fljótlega eftir að hann hóf námið í dýralíffræði. „Eftir að ég hóf námið byrjaði ég að senda tölvupósta til yfirmanna London Zoo og kanna hvort þá vantaði ekki sjálfboðaliða. Eftir nokkra mánuði var mér boðin sjálfboðavinna við að fræða gesti garðsins um dýrin þar. Seinna komst ég svo inn í skrið- og froskdýradeildina og þar er ég vikulega. Nú orðið er ég einnig reglulega í fiskadeildinni.“

Unnari Karli líkar vinnan ákaflega vel. „Besti dagur vikunnar er þegar ég er í skriðdýradeildinni. Við byrjum á að labba hring og kanna hvernig dýrin hafa það. Í kjölfarið eru þau búr þrifin sem þarfnast þess. Skriðdýrin eru á ákveðnu matarplani og fá að éta á sérstökum dögum, sumar tegundir þurfa mat nokkrum sinnum á dag en önnur dýr, eins og snákar og krókódílar, éta einu sinni til tvisvar í mánuði. Í lok dagsins er svo ákveðnu auðgunarplani fylgt. Þá eru skilningarvit dýranna örvuð, sem er mjög gott bæði fyrir andlega heilsu þeirra sem og líkamlega. Dæmi um þetta er Komodo-drekinn, við felum örlítið af mat fyrir hann og hann þarf að reiða sig á lyktarskynið til að finna hann.“

Áhugi Unnars Karls á framandi gæludýrum hefur síður en svo minnkað, en á heimili hans má finna nokkurn fjölda snáka. Aðspurður segir Unnar Karl það ekki vera vandamál og snákar séu mjög skemmtileg gæludýr.

Snákar mjög forvitnir

„Þetta eru gríðarlega vanmetin dýr og hafa slæmt orðspor. Flestir halda að þeir séu slímugir og allir virðast þekkja einhvern sem átti snák sem var að teygja úr sér til þess að „mæla“ og búa sig undir að éta eiganda sinn. Enginn snákur ber sig saman við bráð áður en hún er étin, enda væri það mjög ópraktískt fyrir snákinn.“

Unnar Karl segir snáka vera mjög forvitin dýr. Flesta snáka sem fólk heldur sem gæludýr er hægt að taka út úr búrinu og handleika.

„Mér finnst mjög gaman að rétta fólki snákana mína, þá sér það að það er engin hætta og vill oft fá að kynnast þeim betur. Ég er með þrjá snáka eins og er og sá fjórði er á leiðinni. Hann er aftur á móti eitraður svo það verður ekki hægt að handleika hann.“

Unnar Karl segir snákana vera með kalt blóð. Í búrunum þeirra þarf því ávallt að vera hitagjafi svo þeir geti hækkað blóðhita sinn ef þeir vilja. „Svo éta þeir affrystar mýs sem ég geymi í frysti.“ En skyldi ekki vera dýrt að halda snáka sem gæludýr? „Startpakkinn kostar töluvert, það er að segja búr, hitagræjur og búrskraut, en viðhald snáka er mjög ódýrt.“

Unnar Karl segist óviss með hvað taki við eftir að námi lýkur en hann vonast þó til að geta fengið vinnu í dýragarði sem hefur gott safn af skriðdýrum. Nefnir hann þá helst London Zoo. „Þar eru þeir meðal annars að rækta bæði skrið- og froskdýr sem eru í útrýmingarhættu. Mig langar helst til þess að sérhæfa mig í snákum og eðlum og þá sérstaklega eitruðum snákum,“ segir Unnar Karl að lokum.