Flugsýningin í Reykjavík verður haldin á Reykjavíkurflugvelli á morgun, laugardag, og hefst kl. 12. Sýningarsvæðið er bak við Hótel Natura, áður Loftleiðir. Að sögn Matthíasar Sveinbjörnssonar, forseta Flugmálafélagsins, er öllu því besta úr íslenska flugsamfélaginu til tjaldað á sýningunni í ár.
„Sýningin verður með glæsilegasta móti. Tugir flugvéla af öllum stærðum og gerðum taka þátt í lofti og fjöldi véla verður á jörðu niðri sem gestir geta skoðað hátt og lágt. Þotur verða í loftinu, þyrlur, listflugvélar, fisflugvélar, svifflugur, einkavélar, fallhlífarstökkvarar, drónar og svo mætti lengi telja. Þetta verður flugveisla,“ segir Matthías á vef félagsins en meðal gripa á sýningunni verða tvær herflugvélar. Eru gestir hvattir til þess að mæta tímanlega en bílastæði eru við HR og í nágrenni hótelsins.