Ítölsku ríkisstjórninni var breytt eftir mótmæli valdaelítunnar í ESB

Þriðja stærsta hagkerfi evrusvæðisins gæti þrátt fyrir allt fengið að mynda ríkisstjórn sem hefur efasemdir um evruna. Forseti Ítalíu hafði, eftir mikla andstöðu í Brussel og Berlín, hafnað fjármálaráðherraefni flokkanna sem sigruðu í ítölsku þingkosningunum og mynda meirihluta á þingi. Fjármálaráðherraefnið þótti of gagnrýnið á evruna til að hægt væri að leyfa lýðræðinu að hafa sinn gang.

Í gærkvöld var greint frá því að meirihlutaflokkarnir hefðu ákveðið að gefa eftir og velja nýtt fjármálaráðherraefni. Þetta var gert undir hótunum um utanþingsstjórn þóknanlega ESB og nýjar kosningar til að lagfæra þær sem elítan í ESB taldi hafa gefið ranga niðurstöðu.

Þegar þetta er skrifað er búist við að ný stjórn á Ítalíu taki við í dag, föstudag. Sú stjórn verður ekki eins og meirihlutinn á ítalska þinginu vildi helst hafa hana, en hún gæti engu að síður ruggað báti Evrópusambandsins og evrunnar verulega. Fróðlegt verður að sjá hver næstu viðbrögð elítunnar í Brussel og áhangenda hennar verða ef ríkisstjórnin fylgir þeim málum eftir sem ítalskir kjósendur ætlast til.