Jáeindaskanni Skanninn er að stærstum hluta gjöf Íslenskrar erfðagreiningar til þjóðarinnar, heildarkostnaður verkefnisins er 1.038 milljónir kr.
Jáeindaskanni Skanninn er að stærstum hluta gjöf Íslenskrar erfðagreiningar til þjóðarinnar, heildarkostnaður verkefnisins er 1.038 milljónir kr. — Morgunblaðið/Eggert
Búist er við því að jáeindaskanninn á Landspítalanum komist fljótlega í notkun en beðið er eftir leyfi frá Lyfjastofnun fyrir framleiðslu geislavirks efnis á spítalanum.

Búist er við því að jáeindaskanninn á Landspítalanum komist fljótlega í notkun en beðið er eftir leyfi frá Lyfjastofnun fyrir framleiðslu geislavirks efnis á spítalanum.

Um miðjan apríl gerði Lyfjastofnun úttekt á framleiðslu geislavirks efnis, merkiefnis, sem framleiða þarf á spítalanum og er síðan notað við rannsókn á sjúklingum í sjálfum skannanum. Lyfjastofnun skilaði skýrslu um úttektina 30 dögum síðar með athugasemdum um það sem þyrfti lagfæringar við.

Pétur H. Hannesson, yfirlæknir á röntgendeild Landspítalans, segir að samstarf við Lyfjastofnun hafi verið með ágætum og hafi þau fengið upplýsingar fljótlega eftir úttektina um þætti sem betur mættu fara. „Við höfum nú svarað athugasemdum stofnunarinnar. Nokkur atriði eru í vinnslu en við teljum stöðu mála slíka að stofnunin ætti að geta gefið út leyfi fljótlega. Lyfjastofnun hefur gefið út að niðurstaða berist í síðasta lagi 90 dögum frá úttekt,“ segir Pétur.

Öllum undirbúningi við skannann er nú lokið og leyfi Lyfjastofnunar vegna lyfsins er það eina sem stendur eftir. Þetta ferli í kringum jáeindaskannann er í samræmi við það sem þekkist í nágrannalöndunum að sögn Péturs, um er að ræða starfsemi sem er háð mjög ströngum kröfum og gæta verður fyllstu nákvæmni í vinnubrögðum.

ingveldur@mbl.is