Nína Guðrún Geirsdóttir
ninag@mbl.is
Margir muna eflaust eftir því þegar fyrsta bílnum var ekið af vinstri vegarhelmingi yfir á þann hægri 26. maí 1968. Þar fór Valgarð Briem, þáverandi formaður framkvæmdanefndar. Valgarð var mættur aftur í gær á Skúlagötu í Reykjavík og ók sama bílnum af vinstri vegarhelmingi yfir á þann hægri, líkt og hann gerði á sama stað fyrir hálfri öld.
Bíllinn, sem er af gerðinni Plymouth Valiant, var settur í stand fyrir tilefnið og fór kraftur hans ekki framhjá viðstöddum, góð áminning um hversu hljóðlátir bílar eru í dag. Til að undirstrika breytta tíma ók 17 ára starfsmaður Samgöngustofu nýlegri Tesla-rafbifreið á eftir Valgarð með Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra sem farþega. Reiðhjól með vagn í eftirdragi rak lestina til að undirstrika enn frekar fjölbreytta flóru samgangna í dag.
Mikilvæg fræðsla
Mikil fræðsla og kynning á öryggi í samgöngum átti sér stað í aðdraganda H-dagsins fyrir fimmtíu árum og var þá nokkuð ný af nálinni. Einar Magnús Magnússon, sérfræðingur í öryggis- og fræðsludeild Samgöngustofu, telur að fræðslan og átakið í kringum H-daginn hafi skipt sköpum fyrir landslag öryggismála í landinu.„Árangurinn sem náðist í kringum H-daginn var ótrúlegur og það er því lag að líta á afmælið sem leið til að votta þeim frumkvöðlum sem stóðu þar að baki virðingu og þakka það góða starf sem þeir unnu í þágu umferðaröryggis.“
Sigurður Ingi Jóhannsson segir einnig að H-dagurinn hafi verið vendipunktur í öryggisstarfi og fræðslu.
„Það er gott að minnast þess ótrúlega árangurs sem H-dagurinn uppskar, en tíðni umferðarslysa snarminnkaði 1968 og árið þar á eftir. Þetta sýnir að með öflugri fræðslu og kynningu er hægt að draga verulega úr slysum. Í dag á þetta ennþá við, það er alltaf hægt að gera betur og minna meira á öryggi í umferðinni.“