Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir
ÍR-ingarnir Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Tiana Ósk Whitworth náðu í fyrrakvöld lágmörkum í 100 metra hlaupi fyrir HM U20 ára í frjálsíþróttum. Kepptu þær á vormóti HSK og hafði Guðbjörg betur.

ÍR-ingarnir Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Tiana Ósk Whitworth náðu í fyrrakvöld lágmörkum í 100 metra hlaupi fyrir HM U20 ára í frjálsíþróttum. Kepptu þær á vormóti HSK og hafði Guðbjörg betur. Hljóp hún á 11,68 sekúndum og setti stúlknamet í þremur aldursflokkum en Tiana á 11,72 sekúndum og baráttan var því hörð í hlaupinu. Lágmarkið fyrir HM U20 er 11,80 sekúndur en mótið verður haldið í Tampere í Finnlandi í júlí.

Guðbjörg var aðeins 5/100 frá Íslandsmeti Sunnu Gestsdóttur í greininni en Sunna hljóp 100 metrana á 11,63 sekúndum árið 2004. Árangur Guðbjargar er sá næstbesti frá upphafi en hún hafði áður best hlaupið vegalengdina á 11,99 sekúndum og var í þrettánda sæti á afrekaskránni. Tiana er í þriðja sæti á afrekaskránni í 100 m hlaupi kvenna en hún átti best áður 11,77 sekúndur og var í öðru sæti fyrir hlaupið í fyrrakvöld.