Listasafn Reykjanesbæjar fagnar 15 ára afmæli í ár og opnar af því tilefni þrjár sýningar í Duus-safnahúsum kl. 18 í dag. Verkin á sýningunum eru öll í eigu safnsins og af margvíslegu tagi. Þar gefur að líta olíuverk, vatnslitamyndir, skúlptúra og grafík eftir ýmsa listamenn en þó fyrst og fremst samtímamenn. Tæplega 60 listamenn eiga verk á sýningunum.
Í Listasalnum er uppistaðan olíuverk og skúlptúrar, í Bíósalnum eru mannamyndir teknar sérstaklega fyrir á sýningunni Fígúrum og í Stofunni er fjöldi vatnslitamynda, sem fjölskylda málarans og heimamanneskjunnar Ástu Árnadóttur færði safninu að gjöf. Sýningarstjóri er Inga Þórey Jóhannsdóttir. Sýningarnar eru sumarsýningar safnsins og opnar til 19. ágúst.