Ég fletti fésbókarsíðu Hólmfríðar Bjartmarsdóttur og rakst á þessa vísu frá 3. maí – og er ekkert ofsögum sagt þar!:
Hlýtt er enn um byggð og ból
og bara ágætt skyggni.
Í Aðaldal er alltaf sól
þó annað slagið rigni.
Annað hljóð var í Pétri Stefánssyni en hann orti á þriðjudagsmorgun um veðrið í Reykjavík:
Fjöldi manna flýr nú brott,
fer til sólarlanda
því maíveðrið er miður gott,
með miklum vætufjanda.
Ingólfur Ómar tekur undir:
Nú er úti regn og rok
rysjótt veðurfarið.
Ég hef fengið upp í kok
af ótíð það get svarið.
Og í gönguför á þriðjudagskvöld herðir Pétur enn á:
Úti er hífandi helvítis rok,
hér get ég varla gengið.
Alveg hef ég upp í kok
af illviðrinu fengið.
Skagfirskir hagyrðingar halda áfram að yrkja í framhaldi af kosningunum. Í framhaldi af vísu Páls Dagbjartssonar sem hér birtist á dögunum, en þar hafði hann óskað sér að Framsóknarflokkurinn fengi frí frá stjórn sveitarfélagsins „fjörutíu næstu árin“. Núna er tilefnið að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa ákveðið að halda áfram meirihlutasamstarfi sínu í Skagafirði. Guðmundur Sveinsson yrkir:
Fagrir dagar færast nær
fljóta víða tárin.
Þá er ljóst að framsókn fær
fjörutíu næstu árin.
Syðra segir Ólafur Stefánsson síðustu forvöð að segja eitthvað um kosningarnar á Ströndum og útkrotaða kjörskrá, því nú hafa fylkingar þar vestra fallist í faðma sbr. Fréttablaðið. Svo beinast augu landsmanna nú að því að fylgjast með bútasaumi Hallgerðar á föllnum meirihluta í borginni við Sundin:
Margs konar ódæmi eiga sér stað
eins þótt menn fari með löndum.
Ekki þó dugir að æðrast við það,
þó ævin verði útkrotað blað,
eins og kjörskrá á Ströndum.
Gunnar J. Straumland yrkir um „valdið“:
Sárlega hefur sannast oft,
er sumum finnst nú miður,
að allt sem leitar upp í loft
á endanum fellur niður.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is