Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Áhugaverðar nýjungar gætu verið handan við hornið í umbúðaheiminum og gert útflutning íslenskra sjávarafurða mun umhverfisvænni.
Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri Odda, er vel að sér um þróunina: „Það sem við sjáum gerast er að margir framleiðendur og kaupendur umbúða eru að reyna að færa sig frá plastpakkningum og langar að finna aðrar lausnir en frauðplastsumbúðir til að flytja ferskan fisk með flugi,“ segir hann og minnir á þá umræðu sem hefur átt sér stað undanfarin misseri um plastmengun í hafi.
„Samstarfsaðilar okkar eru langt komnir við að þróa nýjar tegundir pakkninga, gerðar úr bylgjupappír, sem gætu leyst frauðplastskassana af hólmi. Þessi vara er í prófunum hjá okkur um þessar mundir og við erum bjartsýn á að þessar nýju umbúðir muni gera frauðplastskassana óþarfa.“
Þurfa átta sinnum minna pláss
Helsti kostur frauðplastsaskja er að þær eru vatnsþéttar og einangra vel og halda því fiskinum köldum þótt hann sé sendur með flug- eða sjóleiðina langt út í heim. Vandinn við frauðplastið er hins vegar að það er erfitt að endurnýja, leysist seint og illa upp í náttúrunni og er fyrirferðarmikið í flutningum. „Nýju bylgjupappírskassarnir eru þannig hannaðir að þeir eru samanbrjótanlegir og taka því mun minna pláss þegar þeir eru fluttir milli staða. Má reikna með að einn gámur af þessari nýju kynslóð kassa geti rúmað jafnmörg box og átta gámar af frauðplastsöskjum, og að auki er hráefnið í bylgjukössunum endurvinnanlegt eftir notkun sem stuðlar að bættri umgengni við umhverfið.“Þó svo að nýju pakkningarnar lofi góðu segir Kristján að það muni þurfa samstillt átak hjá fiskútflytjendum og viðskiptavinum þeirra erlendis til þess að taka í notkun nýja gerð af umbúðum. „Frauðplastið hefur verið staðallinn í svo langan tíma og í grein eins og sjávarútvegi, þar sem gæði og ferskleiki skipta höfuðmáli, þarf öll virðiskeðjan að samþykkja nýjar lausnir,“ segir hann. „Eru líkur á því að frauðplastið verði bannað á næstu misserum og því mikilvægt að finna umbúðalausn sem er umhverfisvænni en frauðplastkassinn.“
Meira vöruúrval
Miklar breytingar hafa orðið á starfsemi Odda en fyrr á árinu var ákveðið að loka bylgju- og plastverksmiðjum fyrirtækisins hér á landi. Kristján segir rekstrarumhverfi fyrirtækisins hafa þróast þannig að ekki var lengur hagkvæmt að vera með framleiðsluna á Íslandi. Oddi búi eftir sem áður að mikilli þekkingu á markaðinum, sem og stórum hópi öflugra birgja, og geti boðið umbúðalausnir sem henta öllum þörfum íslenskra viðskiptavina. „Breytingarnar hafa gengið vel fyrir sig og gera okkur fært að bjóða miklu breiðara úrval en áður,“ útskýrir hann og bætir við að Oddi er ekki hættur allri innlendri framleiðslu og verður almenn prentun og öskjuframleiðsla efld á næstu misserum.Oddi selur allt frá svokölluðum tröllakössum niður í smæstu neytendapakkningar og segir Kristján að miklu skipti að velja pakkningar sem hæfa hverri vöru. Umbúðir sem eru vandlega hannaðar og af réttri stærð og lögun fá vöruna til að skera sig úr fjöldanum og nýta betur pláss í hillum, brettum og gámum. „Starfsmenn okkar búa yfir mikilli sérfræðiþekkingu þegar kemur að vali á efni og umbúðum og vilja vinna náið með hönnun viðskiptavina okkar til að gera sem bestar pakkningar. Þarf að horfa á alla virðiskeðjuna, og ef svo ber undir hvernig heilu vörulínurnar spila saman, og ná þannig fram meiri hagkvæmni í pakkningunum,“ segir Kristján. „Viðskiptavinir okkar leggja líka vaxandi áherslu á að nota ekki umbúðir að óþörfu, bæði til að draga úr kostnaði og minnka umhverfisáhrif, og margar leiðir sem hægt er að fara án þess að fórna gæðum umbúðanna eða útliti og vernda innihaldið áfram fyrir hnjaski og skemmdum.“
Umbúðaheimurinn breytist hratt og segir Kristján að fyrirtæki ættu að ræða reglulega við sérfræðingana í greininni um nýjar lausnir og ný efni. „Við sjáum t.d. um þessar mundir ný og umhverfisvænni og fjölhæfari hráefni vera að koma fram á sjónarsviðið.“