Stefnt er að því að leggja fram frumvarp að nýjum lögum um veiðigjöld við upphaf þings í haust, en frumvarpi því sem lagt var fram á þingi í vikunni er ætlað að brúa bilið til áramóta.

Stefnt er að því að leggja fram frumvarp að nýjum lögum um veiðigjöld við upphaf þings í haust, en frumvarpi því sem lagt var fram á þingi í vikunni er ætlað að brúa bilið til áramóta. Að óbreyttu er ekki heimild í gildandi lögum um veiðigjald til álagningar veiðigjalds á landaðan afla í botnfiskstofnum eftir upphaf næsta fiskveiðiárs, 1. september, en lögin falla úr gildi um næstu áramót.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins er reiknað með ýmsum endurbótum í nýju frumvarpi og verður m.a. reynt að komast eins nálægt í tíma raunverulegri afkomu útgerðarfyrirtækja og kostur er. Gögn sem lögð hafa verið til grundvallar við ákvörðun veiðigjalds hafa verið 2-3 ára gömul og kerfið of seint að mæla sveiflur eins og nú hefur berlega komið í ljós. Reynt verður að stytta þennan tíma um allt að einu ári.

Framvegis verða veiðigjöld miðuð við almanaksárið en ekki fiskveiðiár frá 1. september til 31. ágúst. Fyrsta skrefið í þeirri breytingu er stigið með frumvarpinu í vikunni.