Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Sjómannadagurinn er einn af hápunktum ársins á Ólafsfirði og tjalda heimamenn öllu til. Frá aldamótum hefur Sjómannafélag Ólafsfjarðar skipulagt hátíðahöldin og séð til þess að með hverju árinu verður dagskráin veglegri og enginn skortur á afþreyingu fyrir fólk á öllum aldri.
Ægir Ólafsson er formaður sjómannafélagsins og segir hann að gleðin muni að þessu sinni hefjast strax á föstudeginum. „Föstudagurinn byrjar á beinni útsendingu morgunþáttarins FM95BLÖ úr samkomuhúsinu okkar Tjarnarborg og yfir daginn mun Kaffi Klara bjóða upp á sjómannadags-tapas. Á föstudagskvöldið kl. 20 verður síðan stórviðburður í Tjarnarborg þegar grínhópurinn Mið-Ísland flytur sýninguna Á tæpasta vaði. Rúsínan í pylsuendanum er svo pöbb-kviss á veitingahúsinu Höllinni, sem hefst kl. 23,“ útskýrir Ægir.
Dorgað og djöflast
Dagskráin heldur áfram snemma á laugardag með Sjómannavalsinum, sem er árlegt golfmót bæjarins. „Dorgveiðikeppni fyrir börnin hefst kl. 10 við höfnina. Dorgið þykir alltaf skemmtilegur viðburður og er vel sóttur, en sjómannafélagið sér um að útvega öllum börnunum björgunarvesti,“ segir Ægir.Því næst hefst kvennahlaup, kl. 11, og er lagt af stað frá íþróttahúsinu á Ólafsfirði. „Í framhaldinu býður Ramminn upp á skemmtisiglingu frá vesturbænum, eins og við hér í Fjallabyggð köllum Siglufjörð. Siglingin hefst kl. 11.30 og endar í höfninni á Ólafsfirði þar sem öllum verður boðið upp á grillaðar pylsur og pepsí.“
Ein af þeim hefðum sem tengjast sjómannadeginum á Ólafsfirði er keppnin um Alfreðsstöngina. Sá hreppir stöngina sem stendur sig best í alls kyns aflraunum en stöngin er veglegur verðlaunagripur og var fyrst veitt fyrir rösklega sex áratugum. „Eftir kappróður sjómanna við höfnina kl. 13 á laugardag hefst keppnin um Alfreðsstöngina kl. 14. Keppendur spreyta sig í björgunarsundi, stakkasundi, róðri, knattspyrnu og reiptogi og eftir ákveðinni formúlu er reiknað út hver fær stöngina.“
Athygli vekur að sumar keppnisgreinarnar eru einstaklingskeppni á meðan aðrar etja kempunum saman í líðum. „Í knattspyrnunni fá meðlimir beggja liða stig, þó að fleiri stig fáist fyrir að sigra og gildir það sama um reiptogið og róðurinn. Flest stig eru hins vegar gefin fyrir björgunarsundið.“
Stöngin má ekki fara úr kaupstaðnum
Saga Alfreðsstangarinnar hefur verið nokkuð vel varðveitt og upplýsir Ægir að það hafi verið Rögnvaldur Möller og Guðmundur L. Þorsteinsson sem gáfu stöngina á sínum tíma, en báðir eru þeir fallnir frá. „Í bókum félagsins hefur þessi gjöf verið skráð hinn 5. júní 1955 og einnig skjalfest að verðlaunagripurinn verði gefinn þeim sem vinnur þrekraunakeppnina eftir tilteknum reglum. Stendur raunar skýrum stöfum að stöngina megi ekki flytja út úr Ólafsfjarðarkaupstað en ég held að það sé búið að brjóta þá reglu a.m.k. einu sinni því íbúi á Siglufirði vann keppnina fyrir nokkrum árum.“Ekki er með öllu ljóst hvaðan Alfreðsstöngin fékk nafnið. „Sennilegasta skýringin er sú að maður að nafni Alfreð hafi smíðað stöngina, en hún er engin smásmíði; gerð úr þungri koparfánastöng sem situr á skipsskrúfu.“
Skotfimi og knattspyrna
Enn eru viðburðir laugardagsins ekki allir upptaldir og má m.a. bæta við að gestir geta gætt sér á sjávarréttasúpu og hlustað á harmonikuleik, fylgst með móti í leirdúfuskotfimi sem Skotfélag Ólafsfjarðar stendur fyrir og hvatt sitt lið í knattspyrnuleik kl. 19.30.„Útiskemmtun við Tjarnarborg hefst kl. 21 og ætla m.a. Ingó Veðurguð, Auddi og Steindi að troða upp, en kl. 23 skemmtir Ingó gestum á Höllinni og heldur uppi fjörinu fram á nótt,“ segir Ægir.
Á sjómannadaginn sjálfan, sunnudaginn 3. júní, er byrjað með skrúðgöngu frá hafnarvoginni að Ólafsfjarðarkirkju þar sem haldin verður hátíðarmessa og sjómenn heiðraðir. „Fjölskylduskemmtun hefst í Tjarnarborg kl. 13.30 og aftur skemmtir Ingó Veðurguð ásamt Aroni Hannesi, Audda og Steinda. Hoppkastalar verða á svæðinu og stanslaust fjör og slysavarnadeild kvenna efnir til kaffisölu í Tjarnarborg.“
Sjómenn halda árshátíð í Tjarnarborg kl. 19 um kvöldið og er viðburðurinn öllum opinn. Sóli Hólm er veislustjóri og auk þess að gæða sér á kræsingum frá Bautanum á Akureyri og njóta skemmtiatriða fá gestir að sjá hver fær Alfreðsstöngina fyrir afrek helgarinnar. „Hljómsveitin Í svörtum fötum treður síðan upp í lok dags og má reikna með að þeim takist að trylla gesti.“