Kristjáni þykir leiðinlegt til þess að hugsa að víða um land hefur dregið verulega úr hátíðahöldum á sjómannadaginn. „Það er engin ástæða til annars en að hefja sjómannadaginn til vegs og virðingar á ný,“ segir hann og bendir á að verðmætasköpun greinarinnar hefur komið þjóðfélaginu öllu vel. Hann segir sjávarútveginn hafa stuðlað að vexti stoðgreina sem í dag hafa á að skipa öflugum tækni- og iðnfyrirtækjum sem hafa gert íslenskt hugvit að dýrmætri útflutningsvöru. „Sjávarútvegurinn, sjómenn, fiskverkafólk, útgerðarmenn – þau eiga öll hlutdeild í þeim lífsgæðum sem nútíma-Íslendingurinn býr við í dag. Við ættum að sýna þessu ágæta fólki þann sóma að heiðra það einu sinni á ári.“
Vekur Kristján sérstaka athygli á því að margar aðrar þjóðir eiga ekki því láni að fagna að eiga kröftugan sjávarútveg sem einn af burðarstólpum atvinnulífsins. „Sjávarútvegurinn á Íslandi greiðir verulegar fjárhæðir til samfélagsins, og er það ólíkt sjávarútveginum í flestum öðrum ríkjum þar sem stjórnvöld þurfa að greiða með atvinnugreininni.“