Áfangi Dagur gerði sér lítið fyrir og fékk hæstu einkunn í MBA-námi frá Columbia Business School.
Áfangi Dagur gerði sér lítið fyrir og fékk hæstu einkunn í MBA-námi frá Columbia Business School. — Aðsend
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Dagur Eyjólfsson útskrifaðist nýlega úr MBA-námi, meistaranámi í viðskiptastjórnun, frá Columbia Business School. Hann útskrifaðist með hæstu einkunn í sínum bekk.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Dagur Eyjólfsson útskrifaðist nýlega úr MBA-námi, meistaranámi í viðskiptastjórnun, frá Columbia Business School. Hann útskrifaðist með hæstu einkunn í sínum bekk. Fyrir árangurinn fékk Dagur Nahum Melumad Memorial-heiðursverðlaunin sem veitt eru þeim sem sýna framúrskarandi árangur og hafa mikilvæg áhrif á samfélagið í Columbia. Columbia Business school er í New York.

Langþráður draumur

Dagur hafði lengi stefnt á MBA-nám í New York.

„Mig hefur lengi langað til að læra í New York og ég hef alltaf ætlað í viðskiptanám. Ég byrjaði nánast í grunnskóla að leggja stund á viðskiptafræði og svo tók við viðskiptafræðibraut í Verzló. Þegar ég útskrifaðist þaðan lá leiðin til Suður-Karólínu þar sem ég lagði stund á viðskiptafræði og útskrifaðist með hæstu einkunn.“

Öflugt tengslanet

Dagur segir MBA-námið hafa opnað sér mörg tækifæri. „Tengslanetið sem maður fær í gegnum svona nám er alveg ótrúlegt, það mun alveg örugglega hjálpa mér í framtíðinni og er í raun farið að hjálpa mér nú þegar.“

Fyrir ári stofnaði Dagur fjárfestingasjóð í New York ásamt skólafélaga sínum og þeim þriðja, sem áður vann sem stjórnandi vogunarsjóða á Wall Street, fjármálagötunni miklu.

Óalgengt að fólk stofni sjóði

„Það er mjög algengt að fólk sem fer í gegnum MBA-nám fari að vinna hjá fjárfestingasjóðum, oftar en ekki hjá einhverjum stórum sjóðum. Það er þó sjaldgæft að fólk stofni sína eigin sjóði.“

Acro, fjárfestingarsjóðurinn sem Dagur og félagar stofnuðu, sérhæfir sig í að kaupa lítil fyrirtæki og reka þau. Einnig kaupir fjárfestingarsjóðurinn fyrirtæki af fólki sem vill fara á eftirlaun.

Tvísýnt um framtíðarbúsetu

„Það er mikil eftirspurn eftir þessari þjónustu og þetta gengur mjög vel,“ segir Dagur.

Hjá Acro sinnir hann mikilvægri skipulagningu og leiðir rekstrarframfarir ásamt öðru.

Áður starfaði Dagur sem fjármálastjóri hönnunarverslunarinnar Epal, sem rekin er hérlendis. Spurður hvort hann sjái fyrir sér að flytjast aftur til Íslands segist Dagur ekki viss. „Við verðum bara að sjá til með það.“