Fátt kom á óvart í umræðum á Alþingi í gær um veiðigjöld. Því miður kom ekki einu sinni á óvart að stjórnarandstaðan skyldi grípa til málþófs og ræða klukkustundum saman um fundarstjórn og lengd þingfundar í tengslum við þetta mál. Jafnvel það að þingmaður Pírata kvartaði undan því að meirihluti þingsins vildi fá að ráða því hvað væri rætt og afgreitt kom ekki á óvart. Þingmenn Pírata og álíka þingmenn telja yfirleitt að besta leiðin til að efla Alþingi og auka lýðræði sé að þeir sjálfir geti með upphlaupum og málþófi hindrað meirihlutann í að koma málum sínum fram.
Tækist stjórnarandstöðunni á þingi að hindra afgreiðslu frumvarps meirihluta atvinnuveganefndar um veiðigjöld yrði það til þess að veiðigjöld féllu niður í haust því að lagaheimild skortir fyrir álagningu veiðigjalda eftir yfirstandandi fiskveiði. Það er væntanlega ekki niðurstaðan sem minnihlutinn á Alþingi er að sækjast eftir. Margir í þeim röðum vilja hærra veiðigjald ef marka má opinberar umræður um þessi mál. Sá hópur þingmanna lætur sig engu varða hvernig gengur í sjávarútveginum hverju sinni, heldur vill hann hækka álögurnar hvernig sem horfir í greininni.
Frá því að núgildandi lög um veiðigjöld voru lögð á hefur verið bent á að þau eru sligandi há og geta hrakið fyrirtæki út úr greininni, einkum minni fyrirtæki. Og staðreyndin er sú að þetta hefur því miður ræst, um það eru mörg dæmi. Það hefur einnig verið bent á að útreikningar veiðigjaldanna eru afar óheppilegir og hafa í för með sér að greidd eru veiðigjöld miðað við afkomu greinarinnar nokkrum árum fyrr. Engri atvinnugrein er bjóðandi upp á slíka skattheimtu.
Afleiðingin af þessu er orðin sú að veiðigjöldin eru orðin verulegt vandamál fyrir rekstur sjávarútvegsfyrirtækja og þar með ógna þau einnig byggðunum hringinn um landið og þeim fyrirtækjum sem treysta á að veita sjávarútveginum þjónustu. Þau eru fjölmörg.
Á þessu er því miður lítill skilningur meðal margra þeirra sem hæst láta um sjávarútvegsmál og tala nú sumir þindarlaust á þingi. En það er lítið gagnrýnt í frumvarpi atvinnuveganefndar sem þó mætti helst sæta gagnrýni, en það er að í frumvarpinu er, þrátt fyrir að reynt sé að mæta erfiðum aðstæðum í sjávarútvegi, gert ráð fyrir of háum veiðigjöldum. Þegar metin er versnandi afkoma í greininni ættu veiðigjöldin að vera ríflega milljarði króna lægri en frumvarpið gerir ráð fyrir. Útreikningar sýna að miðað við fyrri forsendur og útreikninga miðað við nýjustu upplýsingar um afkomu, ættu veiðigjöld að vera 7,2 milljarðar króna í ár. Þetta er um það bil sú fjárhæð sem gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun, 7 milljarðar króna, en frumvarp atvinnuveganefndar gerir ráð fyrir 8,3 milljörðum króna.
Það er því fjarstæðukennt þegar frumvarpið er gagnrýnt á þeirri forsendu að með því verði lagðir of lágir skattar á sjávarútveginn.