Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa raðgreint erfðamengi úr tönnum 25 einstaklinga frá landnámsöld. Niðurstöðurnar birtust í vísindatímaritinu Science í gær. Þær varpa nýju ljósi á fólkið sem nam land á Íslandi fyrir meira en 1.100 árum.
Með samanburði við arfgerðir úr núlifandi íbúum Íslands, Bretlandseyja, Skandinavíu og annarra Evrópulanda var í fyrsta sinn hægt að meta beint uppruna einstaklinga frá landnámsöld. Niðurstöðurnar sýna að í landnámshópnum voru sumir af norrænum uppruna, aðrir af keltneskum og enn aðrir af blönduðum uppruna. Líklegt er að slík blöndun hafi átt sér stað á Bretlandseyjum. Alls var norrænn uppruni einstaklinganna frá landnámsöld um 57%, en er 70% í núlifandi Íslendingum. Ein möguleg skýring á þessum mun er að við upphaf Íslandsbyggðar hafi fólk af keltneskum uppruna eignast færri börn en fólk af norrænum uppruna, líklega vegna þrælahalds og stéttaskiptingar. Einnig gæti blöndun við Dani á síðustu öldum haft áhrif. 2