— Morgunblaðið/Ófeigur
Kári Árnason er aldursforsetinn í íslenska landsliðshópnum sem leikur í lokakeppni HM. Hann er 35 ára, fæddur 13. október 1982 og hóf meistaraflokksferilinn með Víkingi árið 2001.

Kári Árnason er aldursforsetinn í íslenska landsliðshópnum sem leikur í lokakeppni HM. Hann er 35 ára, fæddur 13. október 1982 og hóf meistaraflokksferilinn með Víkingi árið 2001. Hann sneri aftur á heimaslóðirnar í vor eftir 14 ár í atvinnumennsku og mun leika með Víkingum að HM loknu.

Kári lék sinn fyrsta landsleik gegn Ítalíu vorið 2005 og lék sextán leiki fyrstu þrjú árin en var síðan mest lítið í landsliðinu frá 2008 til 2012. Frá því Lars Lagerbäck tók við í ársbyrjun 2012 hefur Kári verið fastamaður í vörn Íslands og einn lykilmanna liðsins.

Hann hefur skorað fjögur mörk í 65 landsleikjum og verið sérstaklega drjúgur við að leggja upp mörk eftir föst leikatriði. Kári er leikjahæstur íslenskra knattspyrnumanna sem enn eru að spila í fremstu röð með 423 deildaleiki á ferlinum.

Kári var í byrjunarliðinu í öllum fimm leikjum Íslands á EM í Frakklandi 2016 og í níu af tíu leikjum liðsins í undankeppni HM 2018.