Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Flor de Toloache, fyrsta mariachi-hjómsveit New York sem eingöngu er skipuð konum, heldur tónleika í Silfurbergi í Hörpu á laugardag kl. 20 og eru þeir hluti af dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. Hljómsveitin var stofnuð árið 2008 af Mireyu I. Ramos og var fyrst um sinn tríó en stækkaði svo í fullskipaða mariachi-sveit og leikur hér á landi sem kvartett. Hljómsveitin hlaut bandarísku Latin Grammy-verðlaunin í fyrra fyrir bestu mariachi-plötuna, Las caras lindas , og var það ekki síst sætur sigur vegna þeirrar karlrembu og fordóma sem hljómsveitin hefur mátt þola í gegnum árin, að sögn Ramos, því mariachi-sveitir hafa ávallt verið og eru enn nær eingöngu skipaðar körlum. Auk þess braut hljómsveitin blað í sögu verðlaunanna með því að vera fyrsta kvennasveitin sem hlýtur verðlaun fyrir bestu mariachi-plötuna.
Ólst upp við mariachi
Ramos á ættir að rekja til Mexíkó og Púertó Ríkó og er með mariachi-tónlistina í blóðinu, svo að segja, þar sem mexíkóskur faðir hennar var mariachi-söngvari og rak auk þess veitingastað í Púertó Ríkó þar sem Ramos ólst upp. „Hann söng oft á veitingastaðnum með hljómsveit úr hverfinu,“ rifjar Ramos upp yfir kaffibolla í Hörpu. Þannig hafi hún kynnst mariachi-tónlist og þegar hún flutti til New York gerðist hún mariachi-tónlistarmaður.Ramos syngur og leikur á fiðlu og „guitarrón“, mexíkóskan sex strengja bassa, en önnur hljóðfæri sem hljómveitin leikur á eru „vihuela“, strengjahljóðfæri sem minnir á gítar, trompet og svo önnur fiðla til viðbótar. Meðlimir sveitarinnar eiga ættir að rekja til fjölda landa, m.a. Mexíkó, Dóminíska lýðveldisins, Kúbu, Kólumbíu, Þýskalands, Ítalíu og Bandaríkjanna, og þykir hljómsveitin koma með framsækna, fjölbreytta og ferska nálgun á mexíkóska þjóðlagatónlist, eins og segir á vef Listahátíðar.
Mikil fjölbreytni
Mariachi er rík tónlistarhefð sem á uppruna að rekja til vesturhluta Mexíkó á 19. öld og hún á sér margar undirgreinar, ólíkar flutningsaðferðir, söng- og dansstíla og flytjendur þurfa einnig að fylgja ákveðnum hefðum í klæðaburði. Minnir það á hina ríku flamenco-hefð Spánverja með sinni tónlist og dansi. Tónlistin er þó býsna ólík, eins og gefur að skilja.Ramos segir að greina megi spænsk áhrif í mariachi og jafnvel áhrif frá flamenco. Mariachi-listin sé engu að síður einstök, innan hennar megi finna tónlist frá ólíkum svæðum Mexíkó og þar sem engar trommur eru í mariachi-sveitum séu strengjahljóðfærin notuð til ásláttar. „Og það er alls konar taktur í tónlistinni því hún kemur frá öllum héruðum Mexíkó,“ bendir Ramos á. Því bjóði mariachi upp á marga möguleika. „Það sem við í Flor de Toloache gerum er að blanda saman við þessa hefðbundnu tónlist ólíkum tónlistartegundum, m.a. djassi, salsa og hipphoppi,“ útskýrir hún.
Ramos segir mikla gleði að finna í mariachi-tónlist og ástríðu, hvort sem um er að ræða sorgleg lög eða glaðleg. „Hún er mjög hátíðleg og kraftmikil og þótt þú skiljir ekki textann hreyfir hún við þér, þetta er svo falleg tónlist,“ segir hún.
Karlaheimur
Fötin eru mikilvægur hluti mariachi-hefðarinnar og segir Ramos að hún og samstarfskonur hennar í hljómsveitinni fylgi þeirri hefð upp að vissu marki. „Konur eru oftast í síðum pilsum, samkvæmt hefðinni, með hárið uppsett og annaðhvort stóran sombrero-hatt á höfði eða blóm í hárinu. Við erum í jökkum og buxum en við fórum að klæðast buxum af nauðsyn því í New York er ómögulegt að vera í síðu pilsi ef maður þarf að ferðast með lest milli tónleikastaða. Við vöktum athygli fyrir klæðaburðinn og vorum gagnrýndar harðlega fyrir hann. Karlar ráða enn ríkjum innan þessarar listgreinar og þeir eru afar andsnúnir breytingum,“ segir Ramos.– Þið funduð þá fyrir miklu andstreymi þegar þið voruð að byrja?
„Já og gerum enn,“ svarar Ramos. Formfastir mariachi-listamenn og -unnendur séu ekki hrifnir af því að kvenkyns flytjendur klæðist buxum. „Og við höfum líka fengið að heyra að við séum ekki mariachi-hljómsveit og lítum ekki út fyrir að vera mexíkóskar enda eru flestar okkar það ekki. Það virðist líka vera vandamál,“ segir Ramos og hlær að karlrembunni. Aðalvandamálið virðist vera kynið, að hljómsveitin sé skipuð konum.
– Það hlýtur þá að hafa verið sérstaklega gaman að fá Grammy-verðlaunin og sanna endanlega fyrir þessum karlrembum að þið eruð mariachi-hljómsveit og mikil gæðasveit sem slík?
„Jú, vissulega,“ segir Ramos og brosir breitt og tekur fram að verðlaunin hafi verið mikill heiður fyrir hljómsveitina.
Allur tilfinningaskalinn
Hljómsveitina sem leikur í Hörpu á laugardaginn skipa, auk Ramos, þær Julie Acosta á trompet, Nancy Sanchez sem leikur á vivuela og syngur og Noemi Gasparini sem leikur á fiðlu og syngur. Ramos segir að tónleikagestir fái að taka þátt í tónleikunum og þá m.a. með því að syngja með og að þeir muni kynnast ólíkum stílum mariachi-tónlistar og ýmsum blæbrigðum og blöndum. Leikið verði á allan tilfinningaskalann.– Þeir sem ekki þekkja mariachi-tónlist verða væntanlega margs vísari eftir tónleikana?
„Já, einmitt, og þetta verður mjög áhrifamikið, það myndast mikil orka hjá okkur á sviði sem við viljum deila með öðrum.“