Ingibjörg Sæunn Jóhannsdóttir fæddist í Háakoti í Fljótum 1.6. 1918. Foreldrar hennar voru Jóhann Benediktsson og k.h., Sigríður Jónsdóttir, bændur að Háakoti og síðast að Minni-Grindli í Fljótum.

Ingibjörg Sæunn Jóhannsdóttir fæddist í Háakoti í Fljótum 1.6. 1918. Foreldrar hennar voru Jóhann Benediktsson og k.h., Sigríður Jónsdóttir, bændur að Háakoti og síðast að Minni-Grindli í Fljótum.

Jóhann var sonur Benedikts Stefánssonar, bónda í Neðra-Haganesi, og Ingibjargar Pétursdóttur frá Sléttu, en Sigríður var dóttir Jóns Ingimundarsonar, bónda í Höfn, og Guðrúnar Björnsdóttur frá Spáná.

Ingibjörg var fimmta í röð 12 systkina sem náðu fullorðinsaldri.

Ingibjörg giftist vorið 1941 Hermanni Guðmundssyni, frá Blesastöðum á Skeiðum, sem lést 1981. Foreldrar hans voru Kristín Jónsdóttir frá Vorsabæ á Skeiðum, og Guðmundur Magnússon frá Votumýri á Skeiðum.

Börn Ingibjargar og Hermanns eru Sigurður, byggingameistari, nú á Selfossi; Kristín, bóndakona á Skeiðháholti á Skeiðum; Guðrún, bóndakona í Galtarfelli í Hrunamannahreppi; Sigríður Margrét, félagsfræðingur, lengi hjá Reykjavíkurborg, nú í Kópavogi, og Hildur, sem hefur verið forstöðumaður elliheimilisins á Blesastöðum.

Ingibjörg og Hermann stofnuðu nýbýlið Blesastaði II vorið 1941 og bjuggu þar æ síðan. Ingibjörg lauk prófi frá Ljósmæðraskóla Íslands árið 1945. Hún var ljósmóðir í Skeiðahreppi um áratuga skeið og oft í nágrannasveitum í forföllum.

Ingibjörg og Hermann ráku stórbú og tóku auk þess börn og unglinga til dvalar.

Fjórum árum eftir lát Hermanns seldi Ingibjörg jörðina og byggði Dvalarheimilið á Blesastöðum fyrir aldraða, á landspildu sem hún hélt eftir af jörðinni. Hún starfrækti síðan elliheimilið þar fram til 1995, er Hildur, dóttir hennar, tók við heimilinu en hún hefur starfrækt það síðan.

Ingibjörg var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að félagsmálum.

Ingibjörg lést 28.10. 2007.