Anna Guðný Jóhannsdóttir fæddist á Hrauni, Borgarfirði eystra, 31. júlí 1928. Hún lést 23. maí á hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu.

Foreldrar hennar voru þau Jóhann Helgason, f. 30. desember 1891 í Njarðvík, bóndi á Ósi, Borgarfirði eystra, og kona hans Bergrún Árnadóttir, f. 3. október 1896 í Brúnavík.

Anna giftist Áskeli Torfa Bjarnasyni, f. 14. september 1926, hinn 23. maí 1953. Hann var sonur Bjarna Bjarnasonar, f. 23. apríl 1889, d. 29. ágúst 1952, og Önnu Guðrúnar Áskelsdóttur, f. 7. mars 1896, d. 24. febrúar 1977. Anna Guðný átti þá dótturina Bergrúnu Jóhönnu Borgfjörð, f. 27. júlí 1948, d. 4. desember 2012. Eftirlifandi maki Jóhönnu er Ásgeir Arngrímsson, f. 3. apríl 1949, bóndi í Brekkubæ, Borgarfirði eystra. Börn Önnu og Áskels eru: Árni, f. 6. febrúar 1953, maki Jóhanna Marín Jónsdóttir. Bjarni, f. 25. október 1954, maki Ingibjörg H. Sigurðardóttir. Guðmundur Sveinn, f. 13. október 1956, maki Þóra Bjarnadóttir. Guðni Torfi, f. 6. apríl 1959, sambýliskona Júlíana Hilmisdóttir. Gestur, f. 6. júní 1961, maki Sigríður Kjartansdóttir.

Þau Áskell kynntust á Borgarfirði þar sem Áskell hafði komið vestan af Ströndum til að stunda sjóróðra. Þau fluttu til Vestmannaeyja 1955 og bjuggu þar í 10 ár. Árið 1965 fluttu þau til Þorlákshafnar, þar sem þau áttu heima í tæp 50 ár. Síðustu árin áttu þau heima á hjúkrunarheimilinu Lundi, Hellu og þar lést Áskell hinn 24. febrúar 2017.

Útför Önnu Guðnýjar fer fram frá Þorlákskirkju í dag, 1. júní 2018, kl. 14.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar við minnumst tengdamóður okkar eru orð eins og „kraftur og dugnaður“. Anna gerði ekkert með hangandi hendi og skipti þá ekki máli hvort það voru heimilisstörfin eða garðvinnan. Hún vann utan heimilisins í mörg ár, bæði í fiski og og við þrif en aldrei kom það niður á heimilinu þar var alltaf allt „spikk og span“, heimilislegt og notalegt að koma í heimsókn.

Hún hringdi oft í okkur og bauð í kaffi. Þá var búið að baka stóran stafla af heimsins bestu pönnukökum eða lummum, krakkarnir fóru í heita pottinn og við hin spjölluðum. Yndislegar og ómetanlegar stundir sem ylja að leiðarlokum.

Við fórum oft saman í verslunarferðir til Reykjavíkur eða á Selfoss, t.d. á vorin og fyrir jólin, því Önnu fannst mikið atriði að eiga fín föt. Í einni slíkri ferð var búið að sýna henni nokkrar flíkur sem kom til greina að kaupa. Henni leist vel á, gekk hreint til verka eins og alltaf og keypti þær bara allar! Í annarri innkaupaferð, sem við rifjum oft upp okkur til skemmtunar, var hún komin vel yfir áttrætt. Hana vantaði buxur og afgreiðslustúlkan fann einar til sem henni fannst að myndu ganga. Anna var nú ekki sammála því og afþakkaði því þær væru allt of kerlingalegar! Hún var alltaf svo hreinskilin þessi elska.

Þótt Anna hafi alla tíð verið hrein og bein og sagt það sem henni fannst þá var hún um leið svo hlý og umhyggjusöm. Það sýndi sig best í því hve barnabörnin sóttu mikið til ömmu og afa.

Hún var tilfinningarík en sýndi það ekki mikið út á við. Hún vildi horfa fram á veginn en ekki velta sér upp úr hinu liðna. Hún stóð af sér storma í lífsins ólgusjó með miklu æðruleysi, vissi að sumum hlutum var ekki hægt að breyta og hélt áfram með lífsgleðina að vopni. Hún var sterk en samt svo hlý og góð.

Það er ekki hægt að skrifa um Önnu án þess að nefna Ása og þeirra hjónaband, því það var einstakt.

Þau voru í raun mjög háð hvort öðru. Það sýndi sig síðastliðið ár, eftir að Ási kvaddi okkur, en Önnu reyndist erfitt að sætta sig við að hann væri farinn. Hún ímyndaði sér að hann væri á sjónum og kæmi bráðum heim. Samrýndari hjón eru vandfundin og voru þau ávallt eins og kærustupar í tilhugalífinu. Þau voru kímin og kát og leið svo vel saman.

Síðustu fimm árin bjuggu þau á Dvalarheimilinu Lundi á Hellu. Þar var mjög vel hugsað um þau og heimilið yndislegt eins og Anna sagði alltaf: „Þær eru svo góðar við okkur“.

Alveg fram að síðustu stundu talaði hún um að fara heim. Nú er hún komin heim til hans Ása síns og táknrænt að dánardag hennar bar upp á 65 ára brúðkaupsafmæli þeirra.

Okkar langar að þakka starfsfólkinu á Egilsbraut 9 og Dvalarheimilinu Lundi fyrir umönnunina, einstaklega góða vináttu og hlýhug í þeirra garð.

Blessuð sé minning þín, elsku Anna.

Þínar tengdadætur,

Sigríður og Þóra.

Elsku fallega og kraftmikla amma mín.

Þær eru dýrmætar minningarnar sem ég á með þér. Ég sótti mikið í að vera hjá ykkur afa og brölluðum við margt saman á Reykjabrautinni. Þar bakaði ég með ykkur kleinur og góðu randalínuna þína og vorum við mikið úti í garði að huga að blómunum þínum og fuglunum hans afa.

Þú áttir svo fallegan garð. Ég elskaði þegar þú sagðir mér sögur, þá sérstaklega frá gömlu tímunum á Borgarfirði eystra. Þið afi sóttuð mikið í að vera þar, enda dásamlegur staður og gott að vera á Ósi. Olla systir þín var oft með ykkur þar og þótti mér nú stundum nóg um þegar þið voruð að rífast. Vissulega gátuð þið samt alls ekki án hvor annarrar verið. Þessi einstaki systrakærleikur minnir mig oft á okkur Bergrúnu.

Húmorinn hjá ykkur afa var aldrei langt undan og höfðuð þið gaman að lífinu og kunnuð svo sannarlega að njóta þess að vera til. Þú varst oft að hvetja mig til að djamma og skemmta mér meira, enda hélduð þið afi víst bestu partíin og voruð hrókur alls fagnaðar.

Þú taldir verkin aldrei eftir þér og þoldir ekki þá sem latir voru og værukærir. Og mikið er ég sammála þér. Það fór ekki fram hjá neinum ef þér líkaði ekki við fólk, það þurfti oft ekki orð til. Við pabbi erum sögð hafa þetta frá þér. Það er besta hrós sem ég fæ. En þrátt fyrir þessa hreinskilni varst þú á sama tíma svo hlý og góð við þá sem þér þótti vænt um og sýndir það bæði í orðum og gjörðum. Þér þótti afar vænt um fjölskylduna þína og bauðst okkur oft í pönnukökur og lummur. Mikið voru þetta góðar samverustundir.

Þú hafðir alltaf hreint og fínt í kringum þig og fórst alla leið í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur. Þú bakaðir til dæmis 5 kg af kleinum í einu en ekki 1 kg – það tók þú nú ekki að byrja á því. Þú áttir líka sex börn, þar af fimm stráka. Það hefur eflaust oft verið fjör á heimilinu en þú sagðist nú ekki vilja hafa það öðruvísi. Stelpur væru miklu flóknari og oft erfiðari og leiðinlegri en strákar. Það sagðir þú hiklaust við okkur stelpurnar en hreinskilni fór þér vel og varst þú virt fyrir það. Fyrir þremur árum klippti ég hárið mitt upp að eyrum og varst þú fljót að segja hversu búlduleit ég væri með svona hár. Ég var ekki ánægð með þessa athugasemd en hló samt bara að þér. Ég tók reyndar mark á orðum þínum og verið með sítt hár síðan.

Mikið er það ljúfsárt að sjá á eftir þér. Síðan afi fór frá okkur hefur lífið ekki verið eins fyrir þig og þú sættir þig ekki við það að hann væri farinn. Þér þótti betra að hugsa til þess að þú ættir von á honum af sjónum. Þið voruð svo ótrúlega góðir vinir og búin að vera gift í 65 ár. Þér fannst túrinn ansi langur svo ég held að þú hafir ákveðið að mæta honum á miðri leið, á brúðkaupsdaginn sjálfan.

Þín ömmustelpa,

Kristrún.

Elsku amma mín. Mikið dásamlega var ég heppin að fá þig sem ömmu mína. Alveg frá því að þú lést þig hafa það að fljúga með mömmu heim eftir að ég fæddist hefurðu kennt mér svo ótalmargt og ég er svo þakklát fyrir það.

Það var alltaf tilhlökkun þegar þið afi voruð á leiðinni til okkar á Borgarfjörð á sumrin. Hvort sem það var að spjalla saman, bölva henni Revu í Leiðarljósi, fara í stelpuferð með þér og mömmu eða syngjandi kátar í gítarpartíi skemmtum við okkur vel saman. Það var bara svo endalaust mikil gleði og kátína í kringum þig. Við vorum oft sammála um hlutina. Við vorum líka oft gríðarlega ósammála, enda tel ég að mína ákveðni og þrjósku hafi ég fengið í beinan kvenlegg frá ykkur mömmu.

Þú komst alltaf fram við mig sem jafningja og það er nokkuð sem var ómetanlegt. Alltaf gat ég farið til Þorlákshafnar er lífið varð of þreytandi í borginni eftir að ég flutti þangað, hvort sem það var bara til að hvíla mig eða fá kjöt og karrí og spjall. Eftir að mamma lést var huggandi að rúnta til ykkar afa á Hellu og liggja bara aðeins við hliðina á þér og tala um allt og ekkert.

Ég elska þig, elsku amma. Ég veit að mamma og afi hafa tekið þér fagnandi og þið eruð nú saman í gleðisveiflu í sumarlandinu.

Enn er mér í muna

manstu allt var hljótt.

Ein við máttu una

úti þessa nótt.

Yfir hvelfdist húmið

heiðarvötnin blá.

Og hinn blíðasti blær

bar okkur landi frá.

(Magnús Stefánsson og Þórólfur Friðgeirsson)

Þín

Aldís Fjóla.

Elskuleg móðursystir mín, Anna Jóhannsdóttir, er látin.

Anna var mikil uppáhaldsfrænka.

Skemmtileg og alltaf hress.

Hún var uppalin í stórum systkinahópi á Borgarfirði eystra, þangað sem hún sótti alltaf mikið.

Vann alla tíð verkamannavinnu með stóru heimili.

Við unnum saman nokkur sumur á barnaheimili, hjá Ingu systur hennar á Ökrum. Þar kynntist ég verklagni hennar og einstökum dugnaði.

Fyrir mörgum árum heimsóttu þau Ási okkur til Lúxemborgar og dvöldu nokkrar vikur. Þá var ég að kvarta um að sófasettið við sjónvarpið væri orðið ljótt.

Ekkert mál fyrir Önnu, keypt efni og saumað nýtt utan um það í hvelli.

Alltaf gott að koma til hennar og Ása í Þorlákshöfn, sem alltaf var opið fyrir gesti og gangandi.

Anna missti mikið þegar Jóhanna dóttir hennar lést langt fyrir aldur fram og svo lést Ási í fyrra.

Anna dvaldi síðustu árin á dvalarheimili á Hellu, var í fallegri íbúð og vel hugsað um hana. En henni leiddist, var komin alltof langt frá Þorlákshöfn þar sem vinir hennar og hluti af fjölskyldunni búa.

Við Doddi og börnin sendum samúðarkveðjur til strákanna fimm og þeirra fjölskyldna og til Ásgeirs og hans fjölskyldu á Borgarfirði.

Því miður getum við ekki verið við útför Önnu.

Tóta frænka

(Þórhildur Hinriksdóttir).