Árni Reynir Hálfdanarson fæddist í Reykjavík 11. janúar 1931. Hann lést á Landspítala Fossvogi 13. maí 2018.

Foreldrar hans voru séra Hálfdan Helgason og Lára Skúladóttir Norðdahl. Systkini Árna Reynis eru a) Jón Helgi Hálfdanarson, f. 21. desember 1933, d. 1. maí 2017. Eftirlifandi kona hans er Jóna Einarsdóttir. b) Marta María Hálfdanardóttir, f. 3. apríl 1935. Eiginmaður hennar er Poul E. Pedersen.

Árni Reynir kvæntist Ingibjörgu Ólafsdóttur 6. mars 1954. Hún var fædd 20. janúar 1935, d. 6. júlí 1991. Fyrsta barn Árna Reynis er Margrét Reynisdóttir. Móðir hennar er Sigríður D. Árnadóttir. Börn Margrétar eru Sigríður Lára og Harpa. Börn Árna Reynis og Ingibjargar eru: 1) Katrín, maki Stefán Rafnar Jóhannsson. Börn þeirra eru Ingibjörg Katrín, Jóhanna Ágústa og Stefán Hjálmtýr. 2) Lára Árnadóttir. Börn hennar eru Árni Reynir og Guðrún Lára. 3) Ólafur Helgi, maki Stefanía Knútsdóttir. Börn þeirra eru Brynjar, Ingibjörg og Jón Bjarni. 4) Þórhildur Annie, maki Gustavo Dorati og börn þeirra eru Anna María og Alexander. Börn Gus af fyrra sambandi eru Savannah og Gustavo. 5) Jón Hálfdan, maki Guðný Þóra Friðriksdóttir. Börn þeirra eru Árný Rut, Dagný Brá og Friðrik Anton. 6) Hrafnhildur, maki Hannibal H. Guðmundsson. Börn þeirra eru Alexander Hrafn og Guðmundur Jón.

Árni Reynir gekk í skólann á Brúarlandi í Mosfellssveit, lauk gagnfræðaprófi í Menntaskólanum í Reykjavík 1948, vélvirkjanámi í Vélsmiðjunni Hamri hf. 1955, vélstjóraprófi í Vélskólanum í Reykjavík 1956 og rafmagnsdeild 1957, sveinsprófi lauk hann í vélvirkjun 1958. Hann var um tíma 2. vélstjóri hjá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar og 1. vélstjóri hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur. Hann vann við skipasmíði í Bátalóni í Hafnarfirði á árunum 1969-1974 og hjá Slökkviliði Keflavíkurflugvallar frá 1974 til 1991 er hann lenti í bílslysi og varð að hætta störfum.

Hann hefur setið í stjórn Bridgefélags Hafnarfjarðar og knattspyrnudeildar íþróttafélagsins Hauka.

Útför Árna Reynis fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, 1. júní 2018, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku pabbi er látinn. Eitthvað svo endanlegt en huggunin er að hann er kominn í faðm mömmu sem lést langt fyrir aldur fram 56 ára gömul sumarið 1991.

Pabbi var mín fyrirmynd í svo mörgu. Hann kenndi okkur systkinunum góð gildi í lífinu sem ég hef reynt að tileinka mér, kærleiksríkur, raunsær og réttsýnn svo eftir var tekið.

Hann ætti að fá orðu fyrir æðruleysi eftir að hann lenti í bílslysi fjórum mánuðum eftir að mamma lést og var í dái heilar þrjár vikur. Ég hef alltaf verið þess fullviss að það sem bjargaði honum var hvað hann var vel gefinn og ósérhlífinn.

Árið eftir slysið var hann á Grensási en hafði ekki getu til að sjá um sig og Hrafnhildi systur sem þá var aðeins 16 ára gömul. Missir hennar var svo mikill þar sem að hún bjó í foreldrahúsum og pabbi var henni allt, hjálpaði hann henni við lærdóminn og var alltaf til staðar.

Hann var 62 ára gamall þegar hann fór á Hrafnistu í Hafnarfirði og höfðu vistmennirnir þar orð á því hvað þessi ungi maður væri að gera þarna. En þar leið honum alla tíð vel, tók þátt í kórastarfi, hannyrðum og málaði myndir.

Æðruleysið er það sem hefur fylgt honum alla tíð og var hann sáttur við sitt hlutskipti eins langt og það náði.

Hann ætlaði að ná sér að fullu. Hann fór allar helgar í Suðurbæjarlaugina gangandi og synti, tók Mullersæfingar í útiklefanum, fór í pottana og gekk til baka á Hrafnistu.

Aðra daga fór hann í Sundhöll Hafnarfjarðar og var honum vel tekið alls staðar þar sem hann kom.

Fyrir u.þ.b. tíu árum hætti hann allt í einu að fara í sund og þegar ég spurði hann hverju sætti þá sagði hann að hann væri búinn að sjá það að hann næði sér ekki betur og ætlaði bara fara njóta þess að horfa á sjónvarpið!

Aldurinn færðist yfir og áfram var það æðruleysið sem fylgdi honum í það æviskeið.

Síðustu árin fórum við oft í ísbíltúr og keyrðum um Hafnarfjörð og heimsóttum stundum ættingja og vini.

Í einni slíkri ferð spurði ég hann hvort við ættum að heimsækja tiltekinn vin þá sagði hann: „Lára mín! Mér er alveg sama hvert við förum, ég er bara ánægður að fá að vera með þér.“

Þegar ég hef farið í gegnum erfið tímabil hefur mér þótt gott að koma til hans og segja honum undan og ofan af hlutunum. Hann kom alltaf með réttu rökin og föðurlega tilsögn með kærleik og virðingu.

Tími er til, að tilsá og plæja

tími er til, að gráta og hlæja

Tími er til að tala og þegja

tími er til, að fæðast og deyja.

Vort líf er eins og lukkuspil

lán og sorg eru á völtum fæti.

Það hverfur frá og færist til

hjá fæstum á það stöðugt sæti.

(Lára Skúladóttir)

Guð verndi þig og blessi, elsku pabbi minn!

Þín dóttir,

Lára.

Elsku afi minn.

Mér líður vel að vita af þér hjá ömmu og ég vona að þið tvö eigið eftir að vaka yfir pabba, systkinum hans og fjölskyldum þeirra.

Ég fæddist á afmælisdegi þínum hinn 11. janúar 1989 og var einnig skírð í höfuðið á þér.

Það sýnir mér hversu mikilvægur þú hefur verið pabba og mömmu og mér fannst við alltaf hafa sérstaka tengingu vegna þessa.

Það var sárt að þekkja þig aldrei eins og þú varst fyrir slysið og ömmu sömuleiðis.

Ég hef stundum hugsað til þess hversu gott það hefði verið að strjúka til ykkar þegar pabbi og mamma voru leiðinleg.

Afi minn, góða ferð til ömmu.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni.

Sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson frá Presthólum)

Árný Rut Jónsdóttir.

Elskulegur bróðir minn, Árni Reynir, er látinn, horfinn okkur öllum, sem nú stöndum sameinuð – syrgjum, söknum og tökumst á við tómarúmið.

Eldri bróðir minn agaði litlu systur, sem lagðir við hlustir.

Óspar á réttsýnina. Örlátur á þakklæti til þess góða í lífinu. Skoðanafastur. Mótlæti mætt með æðruleysi. Söngelskur, listfengur.

Gleðinnar maður á gleðistundum. Mikill gæfumaður.

Lítið ljóð ort af móður okkar Láru Skúladóttur til elsta barns síns Árna Reynis:

Blessaður byrgðu þig niður,

brjóst mitt er svæfillinn þinn,

ég hugfangin horfi á fríða

hjartkæra barnungann minn.

Þú ert svo lítill og ljúfur,

ljósgult er höfuðskrúð þitt,

svefn dregst á dökkbláu augun,

dýrasta blómkornið mitt.

Loks er ég legg þig svo niður,

og lít hve þinn svipur er hýr

það er(u) ekki skuggar né skúrir,

sem skínandi sakleysið býr.

(1931, LS)

Hvíl í friði, elsku bróðir.

Marta María

Hálfdanardóttir.