Uppselt er á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Listahátíð í Reykjavík í kvöld þegar hljómsveitin flytur sinfóníu nr. 2 eftir Gustav Mahler, sem einnig er nefnd Upprisusinfónían, undir stjórn Osmos Vänskäs, heiðursstjórnanda SÍ. Enginn þarf þó að missa af tónleikunum þar sem þeir verða sendir út í beinu myndstreymi á sinfonia.is og á facebooksíðu hljómsveitarinnar.
Söngkonurnar Christiane Karg og Sasha Cooke koma fram á tónleikunum ásamt Mótettukór Hallgrímskirkju undir stjórn Osmos Vänskäs, sem þykir einn fremsti Mahler-túlkandi samtímans. Hljóðritanir hans á verkum meistarans með Minnesota-hljómsveitinni hafa fengið frábæra dóma og nýjasti hljómdiskur hans, með fimmtu sinfóníu Mahlers, var nýverið tilnefndur til Grammy-verðlauna. Karg hefur um árabil vakið aðdáun fyrir silkimjúka og tæra sópranrödd sína og er fastagestur við Covent Garden- og La Scala-óperuhúsin. Cooke sérhæfir sig í flutningi á tónlist Mahlers og hefur hlotið Grammy-verðlaun fyrir túlkun sína á verkum hans.
Tónleikarnir hefjast kl. 19.30 og tekur flutningurinn um 90 mínútur. Vinafélag SÍ býður upp á tónleikakynningu í Hörpuhorni kl. 18.20. Umsjón hefur Árni Heimir Ingólfsson, listrænn ráðgjafi SÍ.