Sjómannadagurinn er haldinn sérstaklega hátíðlegur í Grindavík enda eru bæjarbúar stoltir af sjávarútveginum. „Við eigum að innprenta unga fólkinu okkar stolt og virðingu fyrir þessum hetjum hafsins í nútíð og fortíð,“ segir Björg Erlingsdóttir, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs, en hún hefur framkvæmd hátíðarinnar með höndum.
Jón Agnar Ólason
jonagnar@mbl.is
Á sjómannadaginn er að vanda mikil dagskrá í tilefni dagsins enda sjávarútvegur, sjómenn og fjölskyldur þeirra Grindvíkingum kær.
„Dagskráin hefst á sjómannadagsmessu í Grindavíkurkirkju, kór Grindavíkurkirkju leiðir sönginn undir stjórn Elínar Rutar Káradóttur organista og sr. Elínborg Gísladóttir þjónar fyrir altari. Ræðumaður er Leifur Guðjónsson og sjómannshjónin Ásdís Ester Kristinsdóttir og Kristmundur Óli Jónsson lesa ritningarlestur,“ segir Björg um dagskrána í ár.
Forsætisráðherra ávarpar og kraftajötnar takast á
„Eftir messu fer heiðrun sjómanna fram í kirkjunni og að því loknu verður gengið að minnisvarðanum Von og lagður blómsveigur til minningar um þá sem hafa drukknað. Lúðrasveit verkalýðsins mun taka þátt í athöfninni og frá minnismerkinu heldur fólk að Kvikunni þar sem hátíðahöld í tilefni sjómannadagsins fara fram. Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, flytur ræðu og setur daginn formlega.“Sjómannadagurinn er mjög hátíðlegur í Grindavík að sögn Bjargar og í tilefni dagsins verður sjómannakaffi í Gjánni þar sem Hérastubbur bakari stendur fyrir myndarlegri kaffisölu. „Ágóðinn af kaffisölunni rennur til tveggja ungra bakara og konditora sem eru á leið á heimsmeistaramót ungra konditora í München í september,“ útskýrir hún. „Að hátíðardagskrá lokinni tekur við fjölskylduskemmtun á hátíðarsviðinu þar sem þær Skoppa og Skrítla stíga á svið, Íþróttaálfurinn, Solla stirða og Siggi sæti heimsækja gesti og leikhópurinn Lotta lætur ekki sitt eftir liggja.“
Á Sjóaranum síkáta má svo búast við hrikalegum átökum þegar kraftakarlar keppa í keppninni „Sterkasti maður á Íslandi – The Viking Challenge“ í myllugöngu, drumbalyftu, uxagöngu og trukkadrætti. Við bryggjuna geta ungir og aldnir svo skoðað fiskasafn Sjóarans síkáta þar sem finna má marga af helstu nytjafiskum sem veiðast við Ísland. Furðufiskar sem veiðst hafa á grindvískum bátum verða einnig til sýnis.
Að sögn Bjargar verður mikið um tónlist í kirkjunni í sjómannadagsmessunni, í Kvikunni verða ljósmyndasýning og myndlistarsýning auk þess sem gestir geta skoðað Saltfisksetrið. „Börn á öllum aldri finna eitt og annað við sitt hæfi, fjölbreytt skemmtiatriði verða á sviðinu og leiktæki sem Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur býður gestum að prófa.“
Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um dagskrána á vefsvæðinu www.grindavik.is/sjoarinnsikati.
Þegar talið berst að mikilvægi sjómannadagsins í Grindavík minnir Björg á að sjómenn og fjölskyldur þeirra hafa í gegnum söguna fært miklar fórnir um leið og þeir hafa fært landi og þjóð bjargir sem hafa haldið lífinu í landsmönnum og skapað það samfélag sem við eigum í dag. „Verðmætasköpun sjávarútvegs verður til með mikilli vinnu sjómanna og það er mjög mikilvægt að við sýnum þessum aðilum virðingu, munum eftir mikilvægi þeirra í verðmætasköpun þjóðarinnar og uppbyggingu innviða. Án sjómanna og þeirra fórna sem þeir hafa fært byggjum við ekki við það blómlega samfélag sem við búum við í dag. Við eigum að vera stolt af sjávarútveginum og innprenta unga fólkinu okkar stolt og virðingu fyrir þessum hetjum hafsins í nútíð og fortíð.“
Sjálf ætlar Björg ekki að missa af skemmtuninni enda þótt ærinn starfi sé að skipuleggja jafn viðamikinn viðburð.
„Þar sem ég sé um að skipuleggja þessa miklu hátíð sem sjómannadagurinn og Sjóarinn síkáti eru ætla ég að vera í Grindavík enda hvergi betra að upplifa samspil sjávarútvegs og samfélags en einmitt við höfnina þar og ég geri mitt besta til þess að heimsækja alla þá viðburði sem í boði verða.“