Rjúpa Stofnsveifla íslenska rjúpnastofnsins hefur breyst og nú er styttra á milli toppanna í sveiflunni en áður. Nú líða um fimm ár á milli þeirra.
Rjúpa Stofnsveifla íslenska rjúpnastofnsins hefur breyst og nú er styttra á milli toppanna í sveiflunni en áður. Nú líða um fimm ár á milli þeirra. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Rjúpum hefur fjölgað mikið um allt land, nema á Suðurlandi, Suðausturlandi og Austurlandi, samkvæmt rjúpnatalningum á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Rjúpum hefur fjölgað mikið um allt land, nema á Suðurlandi, Suðausturlandi og Austurlandi, samkvæmt rjúpnatalningum á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Miðað við ástand rjúpnastofnsins frá síðustu aldamótum er fjöldi rjúpna nú í meðallagi eða yfir meðallagi í öllum landshlutum, samkvæmt tilkynningu frá Náttúrufræðistofnun.

Rjúpu fjölgaði víðast hvar 2017 til 2018 og var aukningin mjög áberandi á Vestfjörðum og Norðvesturlandi. Í Þingeyjarsýslum var þéttleiki karra í vor sá þriðji mesti frá því að talningar byrjuðu árið 1981. Hins vegar var kyrrstaða eða fækkun á Suðurlandi, Suðausturlandi og Austurlandi.

Stofnstærðarsveiflan breytt

Rjúpur voru taldar á 33 svæðum í öllum landshlutum. Tíðarfar var mjög óhagstætt og tafði talningar. Alls sáust 1.822 karrar, sem er 1-2% af áætluðum heildarfjölda karra í landinu, samkvæmt stofnstærðarmati. Talningarnar voru gerðar í samvinnu við náttúrustofur, Vatnajökulsþjóðgarð, Skotvís, Fuglarannsóknastöð Suðausturlands og aðra áhugamenn. Um þrjátíu manns tóku þátt í talningunum.

Sveiflur í stærð íslenska rjúpnastofnsins hafa breyst síðan rjúpan var friðuð 2003 og 2004 og veiðin dróst saman frá 2005. Mun styttra er á milli toppa í sveiflunni en áður var. Reglubundnar sveiflur í stofnstærð sem taka 10-12 ár einkenndu íslenska rjúpnastofninn á árum áður. Frá 1998 hafa komið þrír greinilegir toppar í fjölda rjúpna, það er 2005, 2010 og 2015, og voru liðlega fimm ár á milli þeirra. Nú virðist stefna í fjórða toppinn á tiltölulega stuttum tíma. „Ljóst er að róttækar breytingar hafa orðið á stofnvistfræði rjúpunnar eftir 2003 og stofnsveiflan líkt og við þekktum hana er ekki lengur til staðar hvað sem síðar verður,“ segir í tilkynningunni.

Mat á veiðiþoli í ágúst

Veiðiþol rjúpnastofnsins verður metið í kjölfar mælinga á varpárangri rjúpna í sumar. Matið á að liggja fyrir í ágúst. Þá eiga einnig að liggja fyrir útreikningar á afföllum rjúpna 2017-2018 og mat á veiði haustið 2017.