Handbolti
Ívar Benediktsson
iben@mbl.is
Rétt vika er þangað til íslenska karlalandsliðið í handknattleik mætir landsliði Litháens í fyrri viðureign þeirra um keppnisrétt á heimsmeistaramótinu sem fram fer í janúar á næsta ári. Undirbúningur hefur staðið yfir síðan 23. maí og verður hvergi slegið af, að sögn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar landsliðsþjálfara, fyrr en að loknum síðari leik þjóðanna sem fram fer í Laugardalshöll 13. júní.
„Ég valdi 30 manna hóp fyrir æfingatörnina til þess að hafa nægan mannskap frá upphafi því leikmenn eru ekki allir lausir frá félagsliðum sínum á sama tíma,“ sagði Guðmundur Þórður við Morgunblaðið í gær. „Menn hafa verið að tínast heim síðustu daga og þess vegna hafa nokkrir af þeim sem byrjuðu orðið að draga sig í hlé. Enn eiga nokkrir eftir að bætast í hópinn. Þeir síðustu mæta til æfinga á sunnudaginn. Það eru þeir fimm sem leika í Þýskalandi auk Janusar Daða Smárasonar hjá Aalborg,“ sagði Guðmundur, sem hefur lagt megináherslu á varnaræfingar fram til þessa en reiknar með að færa sig meira út í sóknarleikinn á næstu dögum.
„Þegar allir hafa skilað sér á mánudagsmorgun þá reikna ég með að þurfa tvo daga til þess að ákveða hvaða sextán leikmenn ég fer með út til Vilníus í viðureignina við Litháen en íslenska liðið fer út á fimmtudagsmorgun, daginn fyrir viðureignina. Þegar flest var voru 23 á æfingu en ég miðaði við að vera með í kringum 20 á hverri æfingu. Það þarf að púsla mörgu saman á stuttum tíma um leið og það er ljóst að við erum að ganga í gegnum kynslóðaskipti. Smátt og smátt fækkar þeim eldri í hópnum. Meðan kynslóðaskiptin standa yfir erum við í krítískri stöðu sem lið,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson.