Guðrún Elín Klemensdóttir fæddist á Brekku í Svarfaðardal 26. október 1934. Hún lést á Dalbæ, dvalarheimili aldraða á Dalvík, 19. maí 2018.
Foreldrar hennar voru Sigurlaug Halldórsdóttir, f. 2. nóvember 1910, d. 4. desember 1988, og Klemens Vilhjálmsson, f. 3. nóvember 1910, d. 19. júlí 1983. Systir Guðrúnar var Kristín Sigríður Klemensdóttir, f. 5. október 1935, d. 16. janúar 2012. Bróðir Guðrúnar, óskírður, lést tæplega mánaðar gamall árið 1935. Uppeldisbróðir Guðrúnar er Sigurður Marinósson, f. 10. júlí 1945. Hálfsystir Guðrúnar er Ingunn Klemensdóttir, f. 22. nóvember 1929. Sonur Guðrúnar Elínar er Halldór Ingi, f. 18. febrúar 1962, dóttir hans og Unnar Árnadóttur er Elín Inga Halldórsdóttir, f. 8. ágúst 1990, maki Þorgeir Þór Friðgeirsson, f. 14. apríl 1990.
Guðrún Elín gekk í Húsmæðraskólann á Laugalandi og fór síðan í handavinnudeild Kennaraskólans haustið 1957.
Kennsla var aðalstarf Guðrúnar Elínar. Hún kenndi fyrstu árin eftir nám á Ísafirði og Ólafsfirði en lífsstarfið var við Dalvíkurskóla um áratuga skeið. Hún kenndi lengst af handavinnu en síðustu árin einnig stærðfræði og var í sérkennslu. Þegar Guðrún Elín varð áttræð héldu fyrrverandi nemendur hennar sýningu á handavinnu í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Það voru nokkrir samkennarar hennar sem jafnframt höfðu verið nemendur hennar sem söfnuðu saman sýnishornum af handavinnu frá árunum 1962-1972 sem var unnin var af 9-15 ára gömlum stúlkum.
Útför Guðrúnar Elínar fer fram frá Dalvíkurkirkju í dag, 1. júní 2018, og hefst athöfnin klukkan 13.30.
Elsku amma. Það er komið að leiðarlokum.
Þegar kemur að því að skrifa kveðjuorðin hrannast minningarnar upp í huganum. Samverustundirnar í Brekku, sundferðirnar, berjaferðirnar og bíltúrarnir.
Eftir að ég flutti að norðan urðu samverustundirnar eðlilega færri en símtölin þeim mun fleiri því ekki vildir þú missa sambandið við ömmuskjóðuna þína. Þú fylgdist vel með því sem ég tók mér fyrir hendur hvort sem það var nám eða starf. Þú reyndir hvað þú gast að fá mig til að prjóna eða sauma. Það sem ég átti að skila af mér í saumum í skólanum kláraðir þú vanalega. Alltaf fékk ég að ráða hvað var í matinn og yfirleitt hringdir þú kvöldið áður en ég kom í heimsókn og spurðir hvað mig langaði í.
Þú varst ekki vön að láta hafa mikið fyrir þér, og þannig ákvaðst þú að hafa það síðasta spölinn.
Elsku amma, ég vona að þér líði vel núna, ég sé ykkur Göggu sitja saman yfir kaffi og rjómapönnukökum í blómabrekkunni.
Þú ljós, sem ávallt lýsa vildir mér,
þú logar enn,
í gegnum bárur, brim og voðasker.
nú birtir senn.
Og ég finn aftur andans fögru dyr
og engla þá, sem barn ég þekkti fyr.
(Matthías Jochumsson)
Þín
Elín Inga.
Gunnella, eins og hún var ætíð kölluð, átti ekki langt að sækja handavinnuáhugann. Amma okkar á Bakka var einstök prjónakona og dætur hennar flestar hannyrðakonur og handavinnukennarar. Gunnella var með eindæmum öguð, iðjusöm og vandvirk, enda varð hún fremst meðal jafningja á lokaprófinu sem handavinnukennari, sem og áður í Húsmæðraskólanum á Laugalandi.
Í minningunni finnst mér að á heimili foreldra minna í Skipasundi hafi meira eða minna komið og eða dvalið glæsilegar og lífsglaðar frænkur úr Svarfaðardal og Ólafsfirði. Gunnella dvaldi hjá okkur í tvo vetur meðan hún nam kennslufræði handmennta í borginni. Þetta var á unglingsárum mínum og deildum við Gunnella herbergi. Engin frænka varð mér því eins nákomin og hún mótaði mig á margan hátt. Sennilega hefur unglingurinn ekki alltaf verið móttækilegur fyrir góðum ráðum, en þau síuðust inn. Ég leit mjög upp til hennar og dáði hana sem og fleiri frænkur mínar og mikið fannst mér eftirsóknarvert ef ég gæti orðið „eins og þær“ þegar ég yrði stór.
Gunnella kenndi fyrstu árin eftir nám á Ísafirði og Ólafsfirði, en lífsstarfið var á Dalvík og kenndi hún þar um áratugaskeið. Í heiðursskyni við hana áttræða héldu fyrrverandi nemendur hennar sýningu á vönduðum handavinnugripum í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík, sem þeir höfðu unnið undir handleiðslu hennar. Kennari getur tæpast fengið betri vitnisburð frá nemendum sínum.
Dætur mínar héldu mikið upp á Gunnellu, en hún tók að sér að gæta þeirra fyrir foreldrana í nokkra daga upp úr 1980. Í mörg ár fékk ég að heyra hvað hún hefði eldað góða eggjaköku, hvaða bækur hún hafði lesið fyrir þær o.s.frv. Þær eiga líka fallega handavinnu frá henni – útsaumaðar jólamyndir sem og heklaðar jólabjöllur sem halda áfram að ylja og gleðja. Ekki má gleyma bútasaumnum. Gunnellu var mikils virði félagsskapur kvenna um bútasaum. Listfengi hennar og vandvirkni naut sín afar vel við að setja saman litríka fleti í borðdúk eða rúmteppi.
Ein mesta hamingjan í lífi frænku var þegar hún eignaðist Halldór Inga. Mér er fyrir minni hvað ég hreifst af honum þar sem hann stóð tveggja ára gamall á hlaðinu í Brekku með útsýninu fagra yfir fjöll og grundir, svo glaðbeittur og myndarlegur. Hann var hvers manns hugljúfi og mikið eftirlæti enda fyrsta barnabarn þeirra Laugu og Klemensar. Sagan endurtók sig síðan með barnabarn Gunnellu. Elín Inga var sólargeislinn í lífi ömmu sinnar og var mjög kært með þeim – allt til hinstu stundar. Innilegustu samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Gunnellu.
Sigrún Magnúsdóttir.
Handavinna var hennar kennslugrein og hún var einkar vandvirk. Allt varð að vera óaðfinnanlegt í frágangi. Hún saumaði oft föt á okkur systkini, einkum spariföt, grænu flauelsfötin á Temma, smáköflóttu svunturnar og bláu kjólana á okkur systur. Fermingarfötin. Stúdentsfötin. Eitt sinn neitaði Temmi að fara í spariföt þar sem honum þótti buxurnar í styttra lagi og þótt veislugestir væru teknir að streyma að vílaði hún það ekki fyrir sér að spretta upp saumum, síkka og sauma aftur svo barnið væri sómasamlega klætt í sjötugsafmæli afa síns og ömmu.
Á seinni árum gat hún frekar sinnt því sem henni þótti skemmtilegra, ekki síst bútasaumi og eigum við öll falleg rúmteppi, dúka, pottaleppa og annað eftir hana.
Gagga var greind og stærðfræði lá vel fyrir henni eins og afa okkar og pabba hennar. Eflaust hefði hún getað farið lengra á menntabrautinni ef aðstæður hefðu verið aðrar. Kvenna af hennar kynslóð beið oft að beygja sig undir skyldur sem aðrir ætluðu þeim og ekki allra að taka því án eftirsjár. Göggu þótti lífið stundum mótdrægt, var gagnrýnin og lét ekki teyma sig neitt í umræðum. En unga kynslóðin, þriðja kynslóðin, í fjölskyldunni var utan þeirrar gagnrýni. Elín Inga, sonardóttir hennar, var augasteinn alla tíð. Ömmubörn systur hennar voru líka hennar ömmubörn, þar gat hún sýnt væntumþykju og kærleik sem hún bjó yfir en sparaði stundum gagnvart öðrum. Jafnvel á síðustu ævidögunum þegar orkan var horfin og minnið að hverfa, dásamaði hún myndir eftir þær Gullbrekkusystur sem skreyttu veggina í herberginu hennar á Dalbæ.
Eflaust höfum við ekki gert okkur fyllilega grein fyrir því hversu missir hennar var mikill þegar móðir okkar dó fyrir sex árum. Þær systur hittust nánast á hverjum degi og töluðu saman í síma oft á dag. Síðustu dagana í þessu lífi leitaði hún systur sinnar og talaði um hana. Þær hafa nú náð saman aftur og munu hvíla hlið við hlið í kirkjugarðinum á Tjörn, við fuglasönginn í Svarfaðardalnum undir háum fjöllunum.
Halldóri og Elínu Ingu vottum við okkar dýpstu samúð við fráfall móður og ömmu. Hafðu kæra þökk fyrir allt, kæra Gagga okkar.
Guðrún Þóra, Sigurlaug Anna, Steinunn Elva,
Klemenz Bjarki.