Ellefta heimsmeistaramót karla í knattspyrnu var haldið í Argentínu árið 1978 en ákvörðun þess efnis hafði verið tekin af FIFA strax árið 1966.
Þetta var síðasta sextán liða lokakeppnin og einu liðin utan Evrópu og Ameríku sem komust þangað voru Íran og Túnis.
• Argentínumenn urðu heimsmeistarar í fyrsta skipti en þeir sigruðu Hollendinga 3:1 í framlengdum úrslitaleik að viðstöddum 72 þúsund áhorfendum í Buenos Aires. Mario Kempes gerði tvö marka Argentínu og Daniel Bertoni eitt en Dick Nanninga skoraði mark Hollendinga.
• Argentínumenn urðu að vinna Perú með fjórum mörkum í síðasta leik milliriðils til að komast upp fyrir Brasilíu á markatölu og í úrslitaleikinn. Leikurinn endaði 6:0 og ýmsar sögur fóru af stað um svindl og mútur en engar sannanir fundust fyrir slíku.
• Brasilíumenn fengu bronsverðlaunin eftir 2:1-sigur á Ítölum í Buenos Aires.
• Mario Kempes frá Argentínu varð markakóngur keppninnar með sex mörk og hann var jafnframt valinn besti leikmaðurinn. Kempes var þá 24 ára gamall leikmaður Valencia á Spáni. Hann lék þrisvar á HM og skoraði 20 mörk í 43 landsleikjum fyrir Argentínu.