Teitur Gissurarson
teitur@mbl.is
Iða Marsibil Jónsdóttir er ein af mörgum Bílddælingum sem hafa flutt aftur á æskuslóðirnar eftir að fiskeldi hófst á staðnum. Hún segir uppbyggingu iðnaðarins vera fagnaðarefni fyrir Bílddælinga og aðra íbúa á svæðinu en mikil uppbygging hafi átt sér þar stað á seinustu árum.
Iða, sem starfar nú sem skrifstofustjóri hjá Arnarlaxi hf., er fædd og uppalin á Bíldudal en fluttist búferlum til að sækja skóla og vinnu. „Ég útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Bifröst 2006 og gegndi starfi skrifstofustjóra hjá Gló þegar ég bjó í Reykjavík,“ segir Iða í samtali við Morgunblaðið. Forsvarsmenn Arnarlax höfðu samband við Iðu í lok árs 2013 og ræddu við hana um mögulegt starf við launagreiðslur og bókhald. „Á þessum tíma er þetta ævintýri að byrja. Það voru þrír starfsmenn hjá fyrirtækinu þá,“ segir Iða en í dag eru starfsmenn Arnarlax orðnir um 120 talsins.
Áður skorti tækifærin
Iða segist strax hafa verið mjög hrifin af þeirri hugmynd að starfa fyrir fyrirtækið og flytja aftur á Bíldudal. „Ég varð strax svolítið spennt vegna þess að það höfðu ekki verið nein tækifæri til þess að geta sest hér að til frambúðar með starfsöryggi og annað slíkt í huga,“ segir hún.Eftir nokkrar viðræður um vorið heimsótti Iða fyrirtækið og eftir það varð ekki aftur snúið. „Ég fluttist einfaldlega aftur heim strax í júní og sé ekki eftir því í dag,“ segir Iða. Þegar hún flutti aftur heim var lítið um vænlegan húsakost á svæðinu. Það endaði með því að heimför Iðu fékk bókstaflegri merkingu þegar hún flutti í húsið sem foreldrar hennar höfðu sjálf byggt seint á sjöunda áratug síðustu aldar. „Ég reif þar allt út og er búin að koma mér svona líka ágætlega fyrir,“ segir Iða.
Um 100 manns starfa fyrir Arnarlax á starfsstöð fyrirtækisins í Bíldudal en einnig starfar fólk á vegum fyrirtækisins við seiðaeftirlit bæði í Tálknafirði og á Þorlákshöfn. Iða segir uppbyggingu á Bíldudal vera skýra stefnu fyrirtækisins en fyrirtækið rekur einnig litla starfsstöð í Reykjavík. Eins og gefur að skilja hefur íbúum á svæðinu fjölgað samhliða stækkun fyrirtækisins, sem Iða segir mikil gleðitíðindi. „Það hefur til að mynda tvöfaldast fjöldinn hérna í grunnskólanum,“ segir hún en bætir þó við: „Það eru auðvitað örlitlir vaxtarverkir sem fylgja svona örri fjölgun, bæði hjá fyrirtækinu og samfélaginu, en það reyna bara allir að leggjast á eitt um að vaxa og dafna.“