Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is HK er komið með þriggja stiga forskot á toppi Inkasso-deildarinnar í fótbolta eftir 2:1-sigur á Leikni R. í Kórnum í gærkvöldi. Fyrir leik munaði sjö stigum á liðunum og voru þau sitt á hvorum enda töflunnar. Það var hins vegar ljóst að Leiknismenn fengu mikið sjálfstraust með því að vinna granna sína í ÍR í síðustu umferð, því leikurinn var heilt yfir jafn og spennandi. Að lokum var það hins vegar skallamark Hákonar Þórs Sófussonar eftir hornspyrnu undir lokin sem réð úrslitum. Kári Pétursson kom HK yfir með fimmta marki sínu í fimm leikjum en Sólon Breki Leifsson jafnaði fyrir Leikni. Leiknismenn geta tekið eitthvað jákvætt úr þessum leik fyrir komandi leiki, möguleikar liðsins á að halda sér uppi í deildinni verða að teljast ágætir með þessu áframhaldi. HK sýndi í gær að liðið getur unnið leiki án þess að spila sérstaklega vel og er það mikið styrkleikamerki.