Kvennalandsliðið í handknattleik heldur til Danmerkur í dag hvar það mætir danska landsliðinu á morgun í lokaleik sínum í 5. riðli undankeppni Evrópumeistaramótsins. Íslenska liðið rekur lestina í riðlinum með eitt stig en danska liðið trónir á toppnum með fullt hús stiga, tíu, eftir fimm leiki.
Eftir leikinn við Dani mætir íslenska landsliðið japanska landsliðinu í vináttuleikjum í Svendborg á mánudag og þriðjudag. Þrjár breytingar verða á íslenska landsliðinu í leikjunum við Japan frá viðureigninni við Dani, að sögn Axels Stefánssonar landsliðsþjálfara. Karen Knútsdóttir, Ragnheiður Júlíusdóttir og Steinunn Björnsdóttir taka ekki þátt í leikjunum við japanska landsliðið. Í þeirra stað koma Andrea Jacobsen, Stefanía Theodórsdóttir og Elín Jóna Þorsteinsdóttir inn í hópinn. Landsliðið kemur heim á miðvikudaginn og fer þá í frí frá æfingum. iben@mbl.is