Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Menn úr brúarvinnuflokki frá Vegagerðinni vinna um þessar mundir við að breikka og endurforma brúna yfir Miðfjarðará í Húnaþingi vestra. Útkantarnir á brúnni eru endurbyggðir og bríkur mjókkaðar um 40 cm á hvorri akrein, þannig að akbrautin verður alls 7,80 metra breið. Einnig er brúin meðal annars styrkt með nýjum járnabindingum, steypt er nýtt gólf og nýtt vegrið sett upp.
Eftir þessar framkvæmdir ætti aðkoman að brúnni, sem er 96 metra löng, að verða greiðari og öruggari.
Vatnavextir hafa truflað
„Þetta gengur allt samkvæmt áætlun, en auðvitað hefur rysjótt veðrátta með roki og rigningu ekki verið til neinna bóta. Þá hafa vatnavextir í ánni svolítið truflað okkur,“ sagði Vilhjálmur Arnórsson brúarsmiður í samtali við Morgunblaðið. Í vinnuflokknum sem mætti á staðinn 26. mars eru 4 til 6 menn og áætlað er að þeir ljúki verkinu í byrjun ágúst. Nú þegar er búið að steypa upp nýjan kant á brúna að norðan og nú er unnið að broti á nyrðri akrein; þannig er verkið unnið, skref af skrefi.Meðan á framkvæmdum stendur er umferð yfir brúna, sem er á hringveginum, stýrt með ljósum. Er umferð úr norðri og suðri þá hleypt í gegn sitt á hvað. „Sumir ökumenn pirra sig á þessu, en almennt hefur þetta gengið mjög greiðlega fyrir sig,“ segir Vilhjálmur.
Mörg verkefni í gangi
Af öðrum verkefnum í brúargerð á landinu má nefna breikkun einbreiðra brúa yfir Hólá og Stigá í Öræfum og framkvæmdir þar eru í fullum gangi. Þá er bygging nýrra brúa yfir Hverfisfljót og Brunná á Síðu í Skaftárhreppi og Kvíá í Öræfasveitinni í undirbúningi.