Ingveldur Geirsdóttir
ingveldur@mbl.is
Fyrirtæki sem er með samning í erlendum gjaldmiðli við greiðsluþjónustufyrirtæki tekur ekki við greiðslum frá innlendum kredit- eða debetkortum. Hjá húsbílaleigunni Kúkú Campers er ekki hægt að greiða fyrir leigu á bíl með íslenskum greiðslukortum. „Við erum með alla verðskrá okkar í evrum og erum með evruposa og það er ekki heimilt að taka við íslenskum kortum í honum,“ segir Viktor Ólafsson, framkvæmdastjóri Kúkú Campers, sem hefur þær upplýsingar frá greiðsluþjónustufyrirtækinu að gjaldeyrishöftunum sé um að kenna.
Sáralítið er um það að Íslendingar panti sér bíl hjá Kúkú Campers að sögn Viktors en þeir sem það gera millifæra inn á bankareikning fyrirtækisins í íslenskum krónum. „Það hefur ekki verið vandamál að geta ekki greitt með íslenskum kortum en það er fyrst og fremst leiðinlegt.“
Fyrirtækið kýs að rukka í evrum frekar en krónum svo ekki sé flökt á verðinu fyrir viðskiptavinina þó það sé flökt á krónunni.
Einn posi fyrir hverja mynt
Pétur Pétursson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs greiðsluþjónustufyrirtækisins Valitors, segir að kaupmenn ráði í hvaða gjaldmiðli þeir gera samninga við Valitor. „Séu þeir með samning í erlendri mynt er samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands óheimilt að taka við innlendum kortum. Við bjóðum upp á samninga í nokkrum myntum og það er hægt að gera samninga í fleiri en einni mynt en hver greiðslulausn, hvort sem það er posi eða veflausn, er sett upp í einni mynt. Þannig að ef viðkomandi er með posa þarf hann að vera með einn posa í hverri mynt,“ segir Pétur en slíkur samningur er dýrari en að vera bara með einn gjaldmiðil. „Í vefverslun er mjög flókið að ætla að vera með greiðslulausn í fleiri en einni mynt. Ég myndi ætla að sá kaupmaður sem er með 99% af viðskiptum erlendis frá horfi til þess að það svari ekki kostnaði að taka inn íslenskar krónur.“
Höftin hefta ekki
Innlendum aðilum getur ekki verið óheimilt að taka við greiðslum með innlendum kortum, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands, íslenska krónan er gjaldmiðill landsins. „Eftir að höft voru afnumin að langmestu leyti takmarka lög nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og reglur nr. 200/2017, um gjaldeyrismál, ekki lengur heimildir innlendra aðila til að kaupa erlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi til að greiða fyrir vöru og þjónustu af öðrum innlendum aðilum. Þá er ljóst að lög og reglur um gjaldeyrismál takmarka ekki heimildir innlendra færsluhirða greiðslukorta til að gera upp við innlenda seljendur í erlendri mynt, óháð búsetu korthafa,“ segir í upplýsingum Seðlabankans en kortafyrirtæki hafa verið að óska eftir við bankann að ferðaþjónustuaðilum verði heimilt að taka einnig við greiðslum í erlendri mynt.Samtök ferðaþjónustunnar líta á það sem þjónustu við viðskiptavininn að bjóða honum upp á stöðugt verðlag í hans eigin mynt frá því að hann bókar og greiðir staðfestingargjald, þar til hann gengur frá lokagreiðslu. Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi samtakanna, segir að oft á tíðum sé verð gefið upp í krónum eða evrum en kúnninn ræður í hvorum gjaldmiðlinum hann greiðir. „En þarf þó fyrst og fremst að hafa kost á að greiða í innlendum gjaldmiðli,“ segir Skapti Örn.