Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
Bandaríkin ættu að draga lærdóm af Írak og láta Sýrland eiga sig. Þetta segir Bashar al-Assad Sýrlandsforseti, en ummælin lét hann falla í viðtali við rússneska ríkisfjölmiðilinn RT . Var Assad með þessu að svara starfsbróður sínum vestanhafs, Donald Trump, sem kallaði forseta Sýrlands „skepnu“ í sjónvarpsávarpi frá Hvíta húsinu þegar Bandaríkin, Bretland og Frakkland hófu sameiginlegar hernaðaraðgerðir gegn stjórnarher Sýrlands í apríl síðastliðnum. Spurður út í álit sitt á orðavali Trumps forseta svaraði Assad: „Þú ert það sem þú segir.“
Assad Sýrlandsforseti hefur fengið mikla hernaðaraðstoð frá Rússlandi frá því í september 2015 auk þess sem hundruð íranskra hermanna berjast með stjórnarhernum. Saman hefur þeim tekist að endurheimta stór landsvæði úr klóm uppreisnarsveita og vígamanna Ríkis íslams. Enn eru þó svæði við landamærin að Írak, Jórdaníu og Tyrklandi sem ekki lúta stjórn Assads. Hið sama á við um stór svæði í norður- og austurhluta landsins þar sem bandarískir sérsveitarmenn hafa skipst á skotum við vígamenn.
Í viðtalinu kom Assad forseti inn á hugsanleg átök sveita hans við hersveitir Bandaríkjanna, yfirgefi þeir ekki Sýrland. Heitir forsetinn því að endurheimta þau svæði sem Bandaríkjamenn hafa haft aðsetur á, annaðhvort með samningaviðræðum við Washington eða með hervaldi.
Sætta sig ekki við erlend öfl
Að sögn Assads hefur ríkisstjórn hans nú „opnað dyr fyrir viðræður“ við bandalag kúrdískra og arabískra hreyfinga, sem nefnast Sýrlensku lýðræðisöflin (SDF). „Þetta er fyrsti kostur. Ef ekki, þá neyðumst við til þess að frelsa þessi svæði með valdi. Það er ekki um neitt annað að ræða, með eða án Bandaríkjamanna,“ sagði Assad og hélt áfram: „Bandaríkjamenn ættu að fara, einhvern veginn munu þeir fara.“Þá sagði Sýrlandsforseti Bandaríkin hafa á sínum tíma ráðist inn í Írak með ólögmætum hætti. „Þá skorti alla lagastoð þegar þeir fóru inn í Írak og sjáðu bara hvað kom fyrir þá. Þeir verða að draga lærdóm af. Írak er engin undantekning og það er Sýrland ekki heldur. Almenningur sættir sig ekki lengur við erlend öfl í þessum heimshluta.“
Trump Bandaríkjaforseti sagðist í apríl sl. vilja kalla herlið sitt sem fyrst heim frá Sýrlandi en hann hét því einnig að skilja eftir sig „sterk og varanleg fótspor“ í landinu.
Flókin stríðsátök
» Átökin í Sýrlandi hófust árið 2011 með mótmælum gegn einræðisstjórn landsins.
» Mestur hluti Sýrlands lýtur yfirráðum stjórnarhersins en á öðrum svæðum eru hersveitir Kúrda, uppreisnarlið sem styður Tyrki, aðrir uppreisnarmenn og íslamskar hreyfingar, m.a. Ríki íslams, samtök íslamista.
» Tölur yfir mannfall eru nokkuð á reiki og erfitt að fá þær staðfestar, en talið er að á milli 350.000 og 500.000 manns hafi fallið frá upphafi átaka.