Agnes Bragadóttir
agnes@mbl.is
Coripharma og hópur fjárfesta keyptu í gær lyfjaverksmiðju Actavis í Hafnarfirði og húsnæði fyrirtækisins við Reykjavíkurveg 76 af Teva Pharmaceutical Industries. Skrifað var undir samninginn í gær.
Ákveðinn hópur fyrrverandi lykilstarfsmanna og stjórnenda Actavis hefur undanfarin tvö ár unnið að því að fá fjárfesta að borðinu til þess að gera kaupin möguleg og hefja rekstur lyfjaverksmiðjunnar á ný. Bjarni K. Þorvarðarson rafmagnsverkfræðingur verður forstjóri Coripharma, sem þegar hefur ráðið 10 manns til starfa. Bjarni segir í samtali við Morgunblaðið í dag að innan þriggja mánaða verði starfsmenn orðnir 40 talsins og fyrirtækið stefni að því að innan tveggja ára verði starfsmannafjöldi orðinn 300 manns.
Stærstu fjárfestarnir í Coripharma eru Framtakssjóður, í stýringu Íslenskra verðbréfa, Bjarni, VÍS, Hof og tveir fyrrverandi forstjórar Actavis og Delta. Auk þess fjárfesta áðurnefndir lykilstarfsmenn í félaginu. Kaupverðið er trúnaðarmál.
Torfi Rafn Halldórsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Coripharma, segir að í upphafi verði aðaláherslan lögð á að framleiða samheitalyf undir merkjum annarra lyfjafyrirtækja – svokölluð verktakaframleiðsla – og viðræður séu þegar hafnar við nokkur fyrirtæki. Stefnt verði að því að afgreiða fyrstu lyfin frá Coripharma á fyrsta ársfjórðungi 2019. Torfi segir mikil tækifæri á verktökumarkaðnum sem Coripharma byrji á, en hann velti 5 milljörðum bandaríkjadala og sé spáð 50% vexti á nokkrum árum. „Þegar við svo fullnýtum aðstöðuna og förum í eigin þróun verðum við með framleiðslugetu fyrir markað sem er ennþá umfangsmeiri, eða um 50 sinnum stærri en verktökuframleiðslan,“ segir Torfi.