Birna Hjaltested Geirsdóttir fæddist 11. október 1944. Hún lést 21. maí 2018. Útför Birnu fór fram 31. maí 2018.
Í gær kvöddum við kæra vinkonu okkar, Birnu Geirsdóttur, hinstu kveðju. Hún hefur nú fengið hvíldina eftir að hafa barist hetjulega og af æðruleysi við illkynja sjúkdóm, sem hún greindist með fyrir þremur árum. Í síðasta mánuði áttum við ljúfar stundir með þeim Garðari vestur á Flórída og þó að mjög væri af henni dregið bar hún sig ótrúlega vel þrátt fyrir mikla vanlíðan, sem þessum vágesti fylgir.
Á þessari stundu leita á hugann ljúfar minningar liðinna daga. Þær voru ófáar hestaferðirnar, sem við fórum í með þeim hjónum, ýmist um óbyggðir landsins eða fagrar og blómlegar sveitir sunnan- og vestanlands og naut Birna sín einkar vel á hestbaki enda var hún lagin við hesta. Þá eru óteljandi minningar tengdar Hreðavatni og Snæfellsnesi, en þar fannst henni gott að vera í nánum tengslum við náttúruna.
Birna var ekki bara glæsileg kona heldur var hún einstaklega vel gerð manneskja, vel gefin og glaðvær. Hún var traustur vinur vina sinna og vinmörg. Hún bjó manni sínum og dætrum, Margréti Birnu og Helgu Maríu, glæsilegt heimili og voru þau hjón höfðingjar heim að sækja, og ánægjulegt að njóta einstakrar gestrisni þeirra.
Birna var heimsborgari. Hún ólst að nokkru leyti upp í Svíþjóð þar sem Geir faðir hennar stundaði viðskipti. Hún bjó í nokkur ár í New York þar sem hún starfaði við fyrirsætustörf á sjöunda áratugnum. Hún hafði gaman af því að ferðast um heiminn og þau Garðar fóru alloft í siglingar og slógumst við hjónin tvívegis í för með þeim um Karíbahafið og Eyja- og Miðjarðarhaf. Þar naut Birna sín vel, enda var hún fagurkeri og hafði mikið dálæti á að punta sig upp á kvöldin og njóta síðan ljúffengra veitinga, enda var hún matgæðingur og sjálf listakokkur.
Lengst af okkar búskapartíð vorum við nágrannar í Skerjafirði, aðeins eitt hús milli okkar húsa. Birna var í eðli sínu mikið náttúrubarn og lét sér annt um allt líf í kringum sig. Hún hafði græna fingur og lagði sérstaka rækt við að annast blómin og trjágróðurinn og voru þau hjón oft heilu dagana að dunda sér í garðinum.
Það er skarð fyrir skildi og söknuðurinn mikill, en mestur er missir ástvina Birnu. Við vottum Garðari, Margréti Birnu, Helgu Maríu, fjölskyldum þeirra og öðrum aðstandendum innilega samúð.
Anna og Jón Ingvarsson.
Fyrir mistök birtist þessi minningargrein ekki með öðrum greinum um Birnu í gær. Morgunblaðið biðst velvirðingar á því.