[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Það verð sem fjárfestum og almenningi býðst nú að kaupa hluti í Arion banka á er talsvert lægra miðað við eigið fé en rætt var um þegar forsvarsmenn Kaupþings áttu í viðræðum við íslenska lífeyrissjóði um mögulega aðkomu þeirra að bankanum. Samkvæmt nýrri lýsingu sem gefin hefur verið út í aðdraganda frumútboðs á bréfum í bankanum verða hlutir í honum seldir á bilinu 0,6 til 0,7 sinnum bókfært virði eigin fjár bankans. Í fyrrnefndum viðræðum við sjóðina var gengið út frá því að hlutirnir myndu skipta um hendur á margfaldaranum 0,8 en við þau mörk lá einnig forkaupsréttur ríkisins að hlutum í bankanum. Sá forkaupsréttur var í gildi allt frá því að ríkissjóður kom að stofnun Arion banka á rústum Kaupþings banka undir lok árs 2008.

Þann 12. febrúar í fyrra var gengið frá kaupum fjögurra erlendra fjárfesta á 29% hlut í Arion banka. Þar voru á ferðinni vogunarsjóðirnir Och-Ziff Capital, Taconic Capital, Attestor Capital og fjárfestingarbankinn Goldman Sachs. Kaupverðið reyndist 48,8 milljarðar króna og miðað við stöðu eigin fjár bankans á þeim tíma gengu kaupin því í gegn nálægt margfaldaranum 0,8.

Tveir seljendur

Þeir aðilar í hópi eigenda Kaupþings sem nú hyggjast losa um hlut sinn eru annars vegar Kaupskil og hins vegar Trinity Investment Designated Activity Company. Hinu síðarnefnda er stýrt af Attestor Capital LLP. Heildareign þessara aðila í bankanum í dag nemur rétt ríflega 68%.

Samkvæmt lýsingunni er gengið út frá því að hver hlutur í bankanum seljist á 68 til 79 krónur á hlut. Útistandandi hlutir í bankanum, þegar eigin hlutir hans hafa verið dregnir frá, eru samtals liðlega 1,8 milljarðar hluta. Því er bankinn samkvæmt útboðinu metinn að lágmarki á 123 milljarða króna en að hámarki á 143 milljarða.

Grunnstærð útboðsins er að lágmarki 452,5 milljónir hluta, sem jafngildir fjórðungshlut í bankanum. Hins vegar er mögulegt að stækka grunnstærð útboðsins í allt að 724 milljónir hluta. Þá hafa seljendur einnig heimild til að fjölga þeim hlutum sem til sölu eru um tæplega 67,9 milljónir og upp í 108,6 milljónir hluta, að því gefnu að það geti mætt mögulegri umframeftirspurn. Verði sú eftirspurn að veruleika nemur heildarvirði útboðsins þá á bilinu 35,4 milljörðum króna og upp í 41,1 milljarð króna.

Seljendur skuldbinda sig til þess að halda í eftirstandandi hlut sinn í bankanum í að minnsta kosti 6 mánuði. Þá verður Kaupþingi, sem á Kaupskil, gert kleift að halda á hlut sínum í bankanum með beinum hætti og án milligöngu Kaupskila.

Skuldbinda sig til þátttöku

Tveir erlendir fjárfestar hafa skuldbundið sig til þátttöku í útboðinu. Hafa þeir lýst því yfir að þeir hyggist kaupa 20% af þeim hlutum sem að lágmarki verða boðnir til sölu. Eru þeir með þátttökunni skilgreindir sem svokallaðir hornsteinsfjárfestar (e. conerstone investors). Skuldbinding Lansdown nemur 38 milljónum bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 4 milljarða króna og nemur skuldbinding Milton 22,5 milljónum dala, jafnvirði tæplega 2,4 milljarða króna.

Stefnt er að því að endanlegt útboðsgengi liggi fyrir föstudaginn 15. júní næstkomandi eða tveimur dögum eftir að sjálfu útboðinu lýkur gagnvart almennum fjárfestum. Fagfjárfestar munu hins vegar hafa frest allt fram til 14. júní til að tilkynna um þátttöku sína.

Sama dag og útboðsgengið verður tilkynnt verður bankinn tekinn til skráningar. Hún verður tvíhliða, þ.e. bæði í Kauphöll Íslands og Kauphöllinni í Stokkhólmi (Nasdaq Stockholm). Að lokinni skráningu verður Arion banki fyrstur íslensku viðskiptabankanna til að fara á markað í kjölfar bankahrunsins 2008.

Kaupaukagreiðsla

Sem stendur á Arion banki 9,5% hlut í sjálfum sér. Samkvæmt þeirri lýsingu sem nú hefur verið gefin út í tengslum við frumútboðið stefnir bankinn á að ógilda þessa hluti að stórum hluta og færa með því niður hlutafé bankans. Hins vegar verður ákveðinn hluti þess nýttur sem kaupaukagreiðsla til starfsfólks bankans. Mun sú greiðsla nema allt að mánaðarlaunum starfsfólks en þó ekki verða hærri en ein milljón króna. Gengið er út frá því að kaupaukinn nemi í heildina 675 milljónum króna.