[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Fasteignamat íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu heldur áfram að hækka. Dæmi eru um rúmlega 14% hækkanir milli ára. Þetta má lesa úr nýju fasteignamati á vef Þjóðskrár Íslands.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fasteignamat íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu heldur áfram að hækka. Dæmi eru um rúmlega 14% hækkanir milli ára.

Þetta má lesa úr nýju fasteignamati á vef Þjóðskrár Íslands. Nýja matið fyrir árið 2019 verður formlega kynnt á blaðamannafundi í dag en hægt er á vef stofnunarinnar að sjá hver hækkun matsins fyrir hverja fasteign verður.

Til að fá vísbendingu um hækkanir milli ára var 31 eign valin af handahófi. Þær skiptast milli sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Að meðaltali hækkaði fasteignamat eignanna um rúm 10% milli ára. Valdar voru íbúðir í fjölbýli og sérbýli. Eignirnar eru frá því að vera nýjar yfir í að vera áratuga gamlar.

Hefur hækkað um fjórðung

Til samanburðar hækkaði fasteignamat á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu um 17,5% í fyrra og um 15,4% í fjölbýli. Utan höfuðborgarsvæðisins hækkaði sérbýli um 12,2% og fjölbýli um 13,7%. Samanlagt hækkar fasteignamat fyrir árin 2018 og 2019 því að líkindum um að minnsta kosti fjórðung. Til dæmis samsvara 15% og 14% hækkanir þessi tvö ár um 30% hækkun.

Þessar breytingar munu birtast í fasteignagjöldum. Þau eru enda reiknuð sem hlutfall af fasteignmati.

Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkaði um 13,8% í fyrra og var 7.288 milljarðar króna. Miðað við áðurnefndar hækkanir á eignum sem valdar voru af handahófi er heildarmatið orðið rúmlega 8.000 milljarðar í fasteignamati 2019. Þá að því gefnu að atvinnuhúsnæði hafi hækkað jafn mikið og íbúðirnar. Til samanburðar var heildarmat fasteigna á Íslandi 5.755 milljarðar 2016. Væntanleg hækkun fasteignamats 2016-2019 á nafnvirði samsvarar um 6,4 milljónum á hvern íbúa í landinu.