Álag Sjófatnaður er í senn hlífðar- og öryggisbúnaður. Því þarf að huga að ýmsu við hönnun.
Álag Sjófatnaður er í senn hlífðar- og öryggisbúnaður. Því þarf að huga að ýmsu við hönnun. — Ljósmynd/66norður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Töluverð þróun hefur orðið í gerð sjófatnaðar síðastliðin ár. Ábendingar sjómanna hafa áhrif á fatnaðinn.

Teitur Gissurarson

teitur@mbl.is

Allt frá landnámsöld og fram á tuttugustu öldina þurftu Íslendingar að reiða sig á brækur úr kálfskinni og stakka úr sauðskinni þegar haldið var til sjós. Mikil þróun varð þó í sjóklæðagerð á Íslandi á síðustu öld, ekki síst fyrir tilstilli Hans Kristjánssonar, sem stofnsetti Sjóklæðagerð Íslands í bakhúsi við Laugaveg árið 1926. Í dag hefur hinum síðu sauðskinnsstökkum verið skipt út fyrir stakka og buxur úr gerviefnablöndum sem ógerningur er að bera fram og öryggisskór með sýkladrepandi sóla og tá úr fíberplasti hafa leyst hina sérstöku leðurskó fortíðar af hólmi. Bakhúsið á Laugavegi hefur vikið fyrir verksmiðju í Lettlandi.

Elín Tinna Logadóttir, sölu- og rekstrarstjóri fyrirtækja- og heildsölusviðs hjá 66°norður, sagði okkur frá sjóklæðaframleiðslu fyrirtækisins og nýjungum í þeim iðnaði.

„66°norður, sem hét áður Sjóklæðagerðin, hefur alltaf lagt mikla áherslu á að þróa og bjóða vörur sem standast kröfur íslenskra sjómanna,“ segir Elín og bendir á að þægindi og öryggi þurfi þar að vinna saman. Spurð hvort sjófatnaður hafi nokkuð breyst á síðustu áratugum segir Elín að lögð hafi verið áhersla á sterkara og kuldaþolnara efni en áður og bætir við: „Að ógleymdu þægilegra sniði.“

Jafnframt segir hún að aukinni tæknivæðingu fylgi nýjar áskoranir og nefnir í því samhengi nýja vasa á sjóbuxum. „Við bættum til að mynda innanávasa í sjóbuxurnar okkar sem henta vel fyrir snjallsíma og þess háttar.“

Sjómenn óhræddir við að láta í sér heyra

Elín segir sjómenn og einyrkja góða viðskiptavini og gleðiefni að þeir séu óhræddir við að láta í ljós skoðanir síðan á fatnaðinum. „Þeir eru óhræddir við að láta okkur heyra það ef þeir eru ekki sáttir,“ segir Elín. „Það skiptir okkur miklu máli að hlusta á sjómennina sjálfa og þeirra innlegg er ómetanlegt við þróun og útfærslu,“ bætir hún við.

Elín segir stærstu viðskiptavini 66°norður vera dreifingaraðila sem sjá um að þjónusta viðskiptavini og fyrirtæki um landið allt. Hún bendir þó á að það komi auðvitað fyrir að aðrir en sjómenn kaupi sér sjófatnað og nefnir í því samhengi Þjóðhátíð í Eyjum. „Það er svo árleg hefð að sala á sjófatnaði nær ákveðnum hápunkti í lok júlí/byrjun ágúst þegar undirbúningur fyrir Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum stendur sem hæst,“ segir hún en eins og margir vita er sjófatnaður í öllum regnbogans litum af mörgum talinn einkennisbúningur þjóðhátíðarfara.

Hafa sjókonur áhrif?

Spurð hvort aukið kynjajafnrétti á vinnumarkaði og aukinn hlutur kvenna á sjó hafi í för með sér einhverjar breytingar fyrir sjófatnað segist Elín helst sjá breytingu í stærðarvali. „Sjófatnaðurinn okkar hentar báðum kynjum og sjáum við þar mest breytingu í stærðarvali. Við sjáum þó meiri flóru í vali á innanundirfatnaðinum sem notaður er á sjó og í frystihúsunum en hann er fáanlegur í dömu- og herrasniði,“ segir Elín.

„Allur sjófatnaður frá 66°norður er framleiddur í okkar eigin verksmiðjum í Lettlandi undir ströngum gæðakröfum og hefur það verið þannig síðastliðin 18 ár,“ segir Elín og bætir við: „Fyrirtækið hefur átt góða og trygga viðskiptavini á sjófatamarkaðinum í áratugi og okkur þykir mikilvægt að halda vel utan um þann markað.“