Ágúst Ásgeirsson
agas@mbl.is
Íslenski sjávarklasinn er drifkraftur nýrra hugmynda og stuðlar að öflugu samstarfi fyrirtækja og frumkvöðla í sjávarútvegi og haftengdri starfsemi. Með sterkari tengingum og samvinnu opnast ný tækifæri til nýsköpunar og atvinnusóknar til framtíðar.“ Þetta er megininntakið í samtali við Bertu Daníelsdóttur, framkvæmdastjóra sjávarklasans, sem hún sér sem gott tæki til framfara og aukinnar verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi.
Af nógu er að taka þegar leitað er eftir fréttum hjá Bertu af því sem helst væri verið að sýsla með hjá sjávarklasanum. „Það sem efst er á baugi hjá okkur núna er að „JA Iceland“ frumkvöðlakeppni framhaldsskóla er nýlokið, en hún hvetur ungt fólk til að ná árangri í hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi. Í henni tóku allir framhaldsskólar á Íslandi þátt. Krakkarnir þurftu að vinna frumkvöðlahugmynd, þurftu að skapa vöru úr því og semja viðskiptaáætlun. Árangurinn var svo sýndur í Smáralind og niðurstöður kynntar, en við tókum þátt í þessu í ár og í fyrra með því að hitta krakkana og taka sæti í dómnefnd. Fengum við þannig að hitta hátt í þrjúhundruð framhaldsskólanema alls staðar af landinu. Þær hugmyndir sem tengdust haftengdri nýsköpun efndum við til sýningar á hérna í Húsi sjávarklasans. Er sýningin enn opin gestum og gangandi. Þar kemur fram afskaplega skemmtilegt hugvit hjá unga fólkinu. Þorið, hugvitið og dugnaðurinn var einstakur og klárlega má segja, að framtíðin er bara björt með þessu unga fólki.“
Berta segir að auk þessarar keppni sé sjávarklasinn stöðugt að vinna með ungum frumkvöðlum í nýjum hugmyndum.
Móta stefnu í flutningamálum
„Annað sem við höfum verið að vinna hörðum höndum að er stefnumótun í flutningamálum fyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi. Í sjávarklasanum er starfandi svonefndur flutningahópur þar sem flutningafyrirtæki bæði á láði og á legi eiga aðild að. Við héldum nýlega stefnumótunarfund með Sigurði Inga Jóhannssyni samgönguráðherra en þangað var boðið fulltrúum flutningafyrirtækja, en flutningarnir skipta okkur gríðarlegu máli. Fiskurinn sem fer um vegi landsins eða siglt er eða flogið meðfrá landinu er gífurlega verðmætur, en það er augljóst öllum, að vegakerfið á Íslandi er alls ekki nógu gott.Í fluginu hefur Ísland lengi verið miðstöð loftflutninga, bæði til austurs og vesturs. Það er hins vegar að breytast með nýjum og mun langdrægari flugvélum. Við þessu verðum við að bregðast og tryggja að Ísland verði áfram þessi millilendingarstaður þegar horft er til vöruflutninga. Í því efni hefur Isavia verið að skoða ýmsa möguleika varðandi Keflavíkurflugvöll. Við þurfum alltaf að vera að horfa á endingu vörunnar og þá skipta örar flugferðir okkur öllu máli og gott aðgengi að þjónustunni. Á það bæði við hvort sem um flutninga með flugi eða skipum er að ræða.
Ráðist gegn kolefnasporum
Það þarf líka að skoða kolefnasporin og hvernig við spörum þau í flutningum sjávarafurða á leið úr landi á markaði erlendis. Það er alltaf hægt að bæta sig og það er að gerast með nýjum tækjakosti. Nýju þoturnar eru allt önnur tæki en þær sem eru 25-30 ára gamlar. Munurinn er eins og í bifreiðum, þar hafa vistvænir bílar verið að mæta til leiks og dísilbílar eru á útleið. Tæknin er að hjálpa okkur og það er komin miklu meiri græn hugsun í fyrirtækjum í dag en var fyrir svona tíu til fimmtán árum. Meðan veiðarnar eru sjálfbærar eins og við Íslandsstrendur þá er það hluti af heildinni að sýna fram á að við erum að spara kolefnasporin í flutningunum. Um þetta eru fyrirtækin farin að hugsa. Sýnileiki hins vistvæna skiptir máli og allt þarf að hanga saman, enda gríðarlega öflugt markaðsvopn að geta sýnt fram á að verið sé að lækka kolefnasporin og veiðarnar séu sjálfbærar. Það auðveldar mjög sölu hinnar fersku vöru sem býður upp á rekjanleika á öllum þáttum veiða og vinnslu. Í vaxandi mæli gera neytendur um allar jarðir auknar kröfur til matvæla. Þeir vilja vita meira um það sem er í pakkningunum, hvernig það er unnið, hvernig því er komið á land og svo framvegis. Við þessu eru íslensk fyrirtæki að bregðast.“
Fyrirmynd annarra
Berta segir að Íslendingar séu um margt fyrirmynd annarra þjóða hvað veiðar og vinnslu varðar. „Það er bara þannig að það sem íslenskur sjávarútvegur gerir elta hvítfiskframleiðendur í öðrum löndum, til dæmis í Bretlandi. Þeir elta Ísland og við erum alltaf svolítið leiðandi í breytingum. Samþykki Íslendingar nýjar aðferðir í veiðum og vinnslu telja aðrir sig búna fá samþykki fyrir því að fara sömu leið eða svipaða.“Í þeirri umbyltingu sem átt hefur sér stað í veiðum og vinnslu sjávarafurða undanfarin ár hafa sprottið upp öflug fyrirtæki sem framleiða tækjabúnað er fleygt hefur verðmætasköpuninni fram. Orðstír þeirra hefur borist út fyrir landsteina og eru þessi fyrirtæki orðin þekkt á alþjóðavísu. Nefnir Berta til dæmis tæknifyrirtækin Marel, Völku, Hampiðjuna og Skagann 3X til marks um það. „Þetta eru fyrirtæki sem selja búnað sinn um allan heim. Erlendir aðilar hafa oft samband og spyrja hvar þeir geti séð tækin í notkun. Yfirleitt er nú byrjað á því að selja þau hér á landi og þá koma þeir og kíkja í stóru húsin hér. Þeir leita til Íslands og ég held það sé styrkur fyrir tæknifyrirtæki að vera íslensk að uppruna. Heimamarkaðurinn er sterkur og Íslendingar eru kröfuharðir þegar kemur að tækni og nýjungum.“
Aukin alþjóðleg samvinna
Berta segir alþjóðlega starfsemi klasans alltaf að aukast. „Það er mikill og vaxandi áhugi á okkur, sérstaklega frá Bandaríkjunum en Evrópulöndin er farin að hafa mun meira samband en áður. Þar vilja menn heyra í okkur og hitta. Sérstaklega sýna menn því áhuga hvernig okkur tekst að nýta fiskinn allt að 100% en við erum enn undir 80% þó að svo einstaka hús sé að ná 100%. Hvernig Íslendingar nýta þorskinn mun betur en aðrar þjóðir. Bandaríkin hafa sýnt okkur áhuga í töluverðan tíma og þá bæði frá austur- og vesturströndinni. Þar er Þór Sigfússon, stofnandi sjávarklasans og stjórnarformaður, nýbúinn að vera á ferðalagi. Í Portland í Oregon-ríki var honum boðið að fjalla um þessa nýtingu en þar eru ungir frumkvöðlar sem vilja feta sig sömu leið og Íslendingar. Vilja þeir nýta fiskinn betur, jafnvel í heilsubótar- og tískuvörur. Þeir eru afar áhugasamir og hafa leitað mjög til okkar eftir aðstoð.Þessi erlenda starfsemi okkar er öflugust í Bandaríkjunum en við erum einnig í Båtsfjörd í Noregi og í Alaska. Þá erum við að starta samstarfi við aðila í Indónesíu. Í síðustu viku var ég að tala á samnorrænni ráðstefnu um áhrif tækni á störf framtíðarinnar, við vorum líka í Helsinki í Finnlandi og þessa dagana er einn fulltrúi staddur í Eistlandi og einnig að fjalla um fullnýtinguna sem hefur heppnast svo vel hjá okkur. Í síðustu viku fékk ég boð um að tala á ráðstefnu í Portúgal annars vegar og hins vegar í gamla sovétlýðveldinu Georgíu í september nk. Þannig að áhuginn er mikill á að heyra hvernig Íslendingar eru að vinna sjávarafurðir. Og verðmætasköpunin liggur ekki lengur bara í hnakkastykkinu og flakinu eins og áður. Aukaafurðirnar eru orðnar gífurlega verðmætar. Þó er enn í dag verið að farga þeim í mörgum löndum meðan við erum að búa til peninga úr þeim á Íslandi. Það þykir eftirtektarvert og úti í heimi er tekið eftir þessum árangri okkur.“
Viðvarandi þróunarstarf
Berta segir viðverandi þróunarstarf ástundað og nýjungar komi því stöðugt fram. „Það sem við erum að gera núna með til dæmis með Mathöllina á Hlemmi og núna Granda mathöllina, sem við vorum að opna, er ein leið til að auka frumkvöðlastarfið og nýsköpunina. Í mathöllinni á Granda erum við með einn vagn þar sem frumkvöðlar geta komið með vörurnar sínar og verið í til dæmis mánuð eða svo. Þá hefur vantað vettvang til að kynna vörurnar sínar; til að athuga hvort markaður sé fyrir þær. Þetta erum við að gera í samstarfi við Matarauð Íslands og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Þar geta frumkvöðlar spreytt sig og selt vörurnar sínar án þess að þurfa fara út í stórar fjárfestingar eða binda sig einhvers staðar. Í Granda mathöll verðum við auk þess með sérstakar hillur þar sem frumkvöðlarnir sem eru hér í húsinu hjá okkur geta selt sínar vörur gestum og gangandi.“Í samtalinu hafði ég orð á því við Bertu að hún virtist blússandi bjartsýn á framtíð íslensks sjávaraútvegs. „Ég er alltaf bjartsýn, það eru bara bjartir tímar framundan og við þurfum bara að halda góðum damp í siglingunni. Í lok samtalsins nefnir hún eina nýjung sem verið er að undirbúa í Sjávarklasanum.
Taka í notkun viðskiptahraðal
„Við erum að fara af stað með svonefndan viðskiptahraðal í haust. Hann gengur undir vinnuheitinu „til sjávar og sveita“ og er unninn í samstarfi við Icelandic Startups fyrirtækið. Þetta hefur verið reynt fyrir til dæmis ferðaiðnaðinn og tæknifyrirtæki, en núna ætlum við að taka matvælin inn í hraðalinn. Þá koma ungir frumkvöðlar með sýna hugmynd og farið er í gegnum 10 vikna prógramm þar sem þeim er hjálpað við að vinna betur úr hugmyndinni, gera ítarlegri markaðsáætlanir, viðskiptaáætlanir, jafnvel hvernig koma megi framleiðsluferli af stað. Hugmyndirnar eru yfirleitt misjafnlega á veg komnar. Hraðallinn tekur alveg utan um málið og eftir tíu vikur eru viðkomandi komnir vel á skrið. Þá fá þeir aðstoð leiðbeinenda úr viðskiptaheiminum, sem styðja við bakið á frumkvöðlunum og hjálpa þeim að feta sín fyrstu spor. Samstarfið við viðskiptalífið hefur verið afbragðs gott. Á þeim vettvangi hefur ætíð verið tekið á móti frumkvöðlunum fagnandi. Allir hafa verið búnir og boðnir að aðstoða, kannski þyrftum við bara fleiri fjárfesta til liðs við þetta.“