Fjölsnærður Lismore er listamaður, fatahönnuður, stílisti, rithöfundur og baráttumaður.
Fjölsnærður Lismore er listamaður, fatahönnuður, stílisti, rithöfundur og baráttumaður.
Sýning breska listamannsins og hönnuðarins Daniels Lismores, Be yourself, everyone else is already taken , eða Vertu þú sjálfur, allir aðrir eru fráteknir, verður opnuð í Hörpu á morgun kl.

Sýning breska listamannsins og hönnuðarins Daniels Lismores, Be yourself, everyone else is already taken , eða Vertu þú sjálfur, allir aðrir eru fráteknir, verður opnuð í Hörpu á morgun kl. 18 og er hún á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík sem hófst í gær og stendur til 17. júní.

Lismore er listamaður, fatahönnuður, stílisti, rithöfundur og baráttumaður, búsettur í London, að því er fram kemur á vef hátíðarinnar, og hefur tímaritið Vogue útnefnt hann sem sérviskulegast klædda mann Englands. Hann er þekktur fyrir íburðarmikinn og yfirgengilegan klæðnað sem sameinar á stórkostlegan máta hátísku og hans eigin hönnun, notuð efni, fundna hluti, hringabrynjur, skartgripi ólíkra menningarhópa, hattagerðarlist og margt fleira, eins og það er orðað á hátíðarvefnum. Segir þar að útkoman sé „ein allsherjar tjáning óheflaðrar skapandi orku“.

Um sýninguna segir að á henni bjóðist gestum að „sökkva sér niður í hinn einstaka heim Daniels Lismores – að lifa sem list“ og að hann hafi skapað skúlptúra í fullri stærð og sótt innblástur til barnæsku sinnar og kínverskra leirhermanna. „Hver skúlptúr er skrýddur alklæðnaði sem Lismore hefur sjálfur klæðst á þýðingarmiklum augnablikum í lífi sínu,“ segir um verkin. Á sunnudaginn kl. 21 mun Lismore fjalla um listsköpun sína, uppruna og leið inn í listina í Klúbbi Listahátíðar í Hafnarhúsi.