Sigurmyndina tók Jón Steinar Sæmundsson af Hraunsvík GK 75 að koma inn til Grindavíkur úr netaróðri í janúar. Jón, sem vinnur hjá Vísi hf.

Sigurmyndina tók Jón Steinar Sæmundsson af Hraunsvík GK 75 að koma inn til Grindavíkur úr netaróðri í janúar. Jón, sem vinnur hjá Vísi hf., er iðinn við að taka myndir af skipum og heldur úti Facebook-síðunni Báta- og bryggjubrölt þar sem hann birtir myndirnar.

Greinilegt er að hann er lunkinn með myndavélina því Jón hefur tvisvar áður tekið þátt í ljósmyndakeppni Sjómannadagsblaðs Morgunblaðsins og sigraði í annað skiptið en lenti í öðru sæti hitt skiptið.

Dómnefnd var skipuð þeim Einari Fal Ingólfssyni, Jóni Agnari Ólasyni og Kristni Magnússyni, og vakti ljósmyndin athygli þeirra allra. Ljósmyndaranum hefur tekist að leysa það vel af hendi að fanga sígilt myndefni á filmu. Báturinn nýtur sín vel, umlukinn kröftum náttúrunnar, og ljósið er fallegt.

Myndin varð ekki til fyrirhafnarlaust og segir Jón að hann hafi þurft að fylgjast með bátnum vel á hálfan þriðja klukkutíma. „Hann átti í erfiðleikum með að komast inn í höfnina og sneri við í tvígang og sennilega tók ég um 3-400 myndir á meðan. Er báturinn kominn á stað í höfninni þar sem sjórinn er orðinn tiltölulega sléttur en brimið er í forgrunni og bakgrunni og aðdráttarlinsan lætur það virðast nær bátnum. ai@mbl.is