Valgeir Guðmundur Magnússon hjá auglýsingastofunni Pipar/TBWA er fimmtugur í dag. Hann er einn af stofnendum og eigendum fyrirtækisins og var framkvæmdastjóri þess frá upphafi og þar til í fyrra þegar hann gerðist starfandi stjórnarformaður Pipar/TBWA. Núna einbeitir hann sér mikið að fyrirtækinu Ghostlamp.
„Ég þurfti að ferðast mikið til útlanda vegna verkefna minna hjá Ghostlamp svo að ég ákvað að minnka ábyrgðina hjá Pipar. Ghostlamp er áhrifavaldamarkaðstorg og ég er að hjálpa fyrirtækjum um allan heim að búa til áhrifavaldaherferðir á samfélagsmiðlum. Það eru 22 milljónir áhrifavalda á skrá hjá Ghostlamp og við pörum þá saman við herferðir hjá fyrirtækjum og borgum þeim svo í samræmi við hve mikil áhrif þeir hafa haft í herferðinni. Hjá Pipar er ég í skipulagningu og hugmyndavinnu auk þess að vera til taks í stjórnendateyminu.“
Valgeir hefur sent frá sér tvær skáldsögur og er að vinna að sinni þriðju. „Hún er langt komin og það er möguleiki að hún komi út á þessu ári.“ Þar að auki er Valgeir texta- og lagasmiður og átti m.a. textann við lagið Golddigger sem Aron Hannes söng í síðustu undankeppni Eurovision auk textans við jólalag Björgvins Halldórssonar í fyrra, Hjá mér um jólin, en Sveinn Rúnar Sigurðsson samdi bæði þessi lög.
Valgeir er einnig á fullu í íþróttum og keppir í siglingum á skútu og kajak auk þess að vera í badminton. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna og síðasti Íslandsmeistaratitillinn sem kom í hús var fyrir fimm árum þegar Valgeir vann í tvíliðaleik í badminton í A-flokki. „Í þeim flokki eru fallnar stjörnur og unglingalandsliðsmenn.“
Valgeir fær sína nánustu vini í heimsókn í dag en ætlar að halda stærðarinnar veislu helgina á eftir fyrir starfsfólk Pipar/TBWA, Ghostlamp og Fastland sem kona hans á og rekur, en það eru hátt í 100 manns samtals.
Eiginkona Valgeirs er Silja Dögg Ósvaldsdóttir og börn þeirra eru Gunnar Ingi og Hildur Eva.