Jón Þórarinn Sveinsson fæddist 11. apríl 1925. Hann lést 18. maí 2018.
Útför Jóns fór fram 31. maí 2018.
Í dag kveðjum við félagar í Rótarýklúbbnum Görðum félaga okkar og vin Jón Sveinsson. Jón var einn þeirra er stofnuðu klúbbinn 6. desember 1965 og var síðar gerður að heiðursfélaga. Meðan heilsan leyfði var Jón virkur í starfi klúbbsins og gegndi m.a. forsetaembættinu. Hann lét til sín taka á fundum og gekk í störf klúbbsins af þeim einlæga áhuga og dugnaði sem einkenndu hann.
Jón Sveinsson var athafnamaður sem ekki fór troðnar slóðir. Ungur fór hann til Danmerkur þar sem hann nam tæknifræði og var einn af fyrstu Íslendingunum sem luku slíku námi.
Árið 1961 stofnaði Jón það fyrirtæki sem hann var lengst af kenndur við, Skipasmíðastöðina Stálvík í Arnarnesvogi. Þegar lagt var af stað töldu margir að slíkt fyrirtæki ætti litla möguleika í samkeppni við erlenda skipasmíðarisa en þegar upp var staðið er á því enginn vafi að Stálvík markaði spor í atvinnusögu Íslands. Þar var smíðaður fjöldi skipa og meðal þeirra fyrsti skuttogarinn sem var smíðaður hérlendis. Jón lagði gjörva hönd að mörgum nýjungum í smíði skipa í Stálvík og má þar sérstaklega nefna hönnun sem varð til þess að Stálvíkurskipin eyddu mun minna eldsneyti en önnur togskip.
Um tíma var Stálvík stærsta fyrirtækið í Garðabæ og þar og í fyrirtækjum sem voru í tengslum við nýsmíðar þess störfuðu á fjórða hundrað manns. Þótt róðurinn væri stundum erfiður og krefjandi lét það Jóni Sveinssyni vel að standa í stafni og stöðugt hugsaði hann um hvað væri hægt að aðhafast til þess að ná sem bestri útkomu bæði hjá fyrirtækinu og þeim aðilum sem það var að vinna fyrir. Auðvitað varð það honum áfall þegar svo fór að lokum að stjórnvaldsaðgerðir gerðu rekstur fyrirtækis hans næstum ómögulegan.
Það gustaði oft um Jón Sveinsson og það gustaði af honum. Hann var baráttumaður sem þótti í senn framsýnn og réttsýnn en lét ekki hlut sinn ef því var að skipta. Hann var líka félagsmálamaður og auk starfa fyrir Rótarýhreyfinguna, má nefna að hann var um árabil formaður Tæknifræðingafélagsins, var um tíma í bæjarstjórn Garðabæjar og forseti bæjarstjórnar eitt kjörtímabil.
Með Jóni Sveinssyni er genginn maður sem var á margan hátt á undan sinni samtíð. Maður sem trúði því einlæglega að Íslendingar gætu staðið á eigin fótum í atvinnulífinu og framleitt það sem þyrfti til þess að hægt væri að nýta hin dýrmætu fiskimið við landið sem allra best. Þegar slagurinn stóð sem hæst var hann kannski ekki alltaf metinn að verðleikum en sagan mun dæma verk hans þannig að hann hafi verið brautryðjandi sem markaði umtalsverð spor. Við Rótarýfélagar söknum vinar í stað. Manns sem heilsaði félögum sínum með bros á vör og vingjarnlegu fasi, lagði alltaf gott til málanna og var reiðubúinn ef til hans var leitað. Við sendum aðstandendum Jóns Sveinssonar hugheilar samúðarkveðjur. Við munum heiðra og varðveita minningu hans.
Jón Benediktsson,
forseti Rótarýklúbbsins Görðum.
Árin liðu og „saumavélin“ braggaðist og varð Bjalla og við Jón ákváðum að heimsækja vin okkar úr Villunni, Guðmund Eggertsson, sem var búsettur á Bjargi í Borgarnesi. Guðmundur varð brautryðjandi eins og Jón. Hann færði Íslandi sameindaerfðafræði og varð fyrsti prófessor okkar í líffræði, en þá í heyskap með fjölskyldu sinni. Jóni sýndist ráð að vélvæða hirðinguna og að ekkert vantaði nema trausta tengingu til að breyta Bjöllu í dráttarvél. Hana fann Jón á verkstæði í Borgarnesi. Bjallan blómstraði í nýju hlutverki og margir sem óku um veginn þennan dag hægðu á sér í túnfætinum og undruðust. Ekki grunaði þau að stálskip biðu handan við hornið.
Jóhann Axelsson.