Dead Calm
Dead Calm
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Áttu ekki heimangengt á sjómannadagsskemmtun? Eða máske í svo góðri stemningu að þú vilt meira? Þá er hægastur vandinn að velja sér góða bíómynd sem gerist á hafi úti til að horfa á. Fyrr en varir ertu á rúmsjó og hamingjan veit hvaða ævintýri bíða þín!

Dead Calm (1989)

Þessi ástralska sálfræðispennumynd skaut ungri leikkonu að nafni Nicole Kidman upp á stjörnuhimininn og það réttilega því hún stendur sig með stakri prýði. Hér segir af hjónum (Kidman og Sam Neill) sem leggja í siglingu til að jafna sig eftir áfall í fjölskyldunni. Fyrr en varir sigla þau fram á skútu þar sem allir um borð eru látnir – nema einn. Fljótlega óska hjónin sér að hafa aldrei látið úr höfn því fljótlega upphefst martraðarkennd atburðarás þar sem hjónin þurfa að kljást við snargeðveikan einstakling úti á dauðakyrrum rúmsjó.

Das Boot (1981)

Sagt er að sjómennskan sé ekkert grín, en bíðið bara þangað til þið upplifið vist í kafbáti í seinna stríði – þá fyrst kárnar gamanið. Þessi þýska spennumynd er klassík og gerist í orrustunni um Atlantshafið árið 1942. Fylgst er með áhöfn eins af kafbátunum sem veittust þar að breskum herskipum og hvernig innilokunarkennd, ótti við djúpsprengjur, efi um hugmyndafræði yfirboðaranna og fleira ýtir mönnunum hægt og bítandi að mörkum brjálsemi við ómanneskjulegar aðstæður. Jürgen Prochnow sýnir eftirminnilegan stjörnuleik í hlutverki foringjans um borð.

The Abyss (1989)

Bandaríska leikstjórans James Camerons er helst minnst fyrir Titanic þegar kemur að ævintýrum á hafi úti, en þessari spennumynd með Ed Harris og Mary Elizabeth Mastrantonio er ekki alls varnað þótt misjafna hafi hún hlotið dómana. Tveir vekfræðingar eru fengnir til að leiða vaska sveit hörkutóla sem á að aðstoða sérsveitarmann við að bjarga kjarnorkukafbáti sem sökk í hyldjúpa neðansjávarsprungu. Þegar þangað er komið mæta þeim óvinir úr eigin röðum – sem og öfl sem eru ekki af þessum heimi.

The Life Aquatic with Steve Zissou (2004)

Leikstjórinn Wes Anderson er flestum mönnum flinkari við að setja saman óborganlegan leikhóp og hér er hann samur við sig. Meistari Bill Murray leikur titilpersónuna Steve Zissou, sérlundaðan neðansjávarljósmyndara, sem hóar í vægast sagt sundurleitan hóp til að elta uppi hinn ógnvænlega jagúarhákarl sem hann telur hafa drepið félaga sinn. Hér er að finna ýmsa góðkunningja úr myndum Andersons, svo sem Jeff Goldblum, Willem Dafoe og Owen Wilson.

Kon-Tiki (2012)

Sannsöguleg mynd um ævintýramanninn Thor Heyerdal sem lagði í siglingu árið 1947. Sem er ekki í frásögur færandi nema af því siglingin var yfir Kyrrahafið – tæpir 7.000 kílómetrar á fleka. Þannig freistaði hann þess að sýna fram á að Perúmenn hefðu getað siglt til og þannig fundið Pólýnesíu, löngu fyrir daga Kólumbusar. Þessi magnaða verðlaunamynd gefur áþreifanlega tilfinningu fyrir því hvað það er að reka um á víðfeðmasta hafsvæði veraldar. Fólk með víðáttufælni ætti kannski að skoða aðra kosti hér á síðunni.

Lifeboat (1944)

Þessa spennumynd eftir sjálfan Alfred Hitchcock væri ef til vill ráð að kíkja á í kjölfar Das Boot (sjá hér að framan). Þegar skipi bandamanna er sökkt af þýskum kafbáti – sem sjálfur ferst í kjölfarið – ná nokkrir ólíkir einstaklingar að komast í björgunarbát, fegnir að vera á lífi. Málið vandast heldur þegar þau bjarga svo manni um borð sem reynist vera úr áhöfn þýska kafbátsins sem sökkti skipi þeirra. Hvaða reglur gilda undir þeim kringumstæðum í þeirri afmörkuðu veröld sem björgunarbáturinn er? Þarf fólk að snúa bökum saman í stöðunni eða eru víglínur milli óvinaríkja enn í gildi?

White Squall (1996)

Í þessari mynd eftir goðsögnina Ridley Scott fer hópur unglingsstráka í siglingu undir stjórn Sheldons skipstjóra (Jeff Bridges). Meiningin er að þeir verði að manni í siglingunni og læri eitt og annað um lífið sjálft með því að taka á honum stóra sínum úti á sjó. Skemmst er frá því að segja að þeir lenda í ýmsu og fá meira en nóg fyrir peninginn hvað manndómsvígslu varðar. Sérstaklega er vert að benda á stórfenglega kvikmyndatöku þessarar myndar – hún er hrein snilld.