Hátíð Það verður nóg um að vera fyrir gesti og gangandi. Dorgveiðikeppni verður haldin á Sementsbryggjunni og fjölskylduskemmtun á hafnarsvæðinu.
Hátíð Það verður nóg um að vera fyrir gesti og gangandi. Dorgveiðikeppni verður haldin á Sementsbryggjunni og fjölskylduskemmtun á hafnarsvæðinu. — Ljósmynd/Aðsend
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Akranesbær mun iða af lífi á sjómannadaginn Heimamenn standa vörð um skemmtilegar hefðir og sýna sínar bestu hliðar.

Teitur Gissurarson

teitur@mbl.is

Skagamenn hafa lengi verið þekktir fyrir að skora mörk, en sjómenn frá Akranesi eru ekki síður frægir fyrir hreysti og dug. Það kemur þess vegna lítið á óvart að sjómannadagurinn eigi sér langa hefð á Akranesi og veki hlýjar minningar í huga heimamanna. Ella María Gunnarsdóttir, forstöðumaður menningar- og safnamála hjá Akraneskaupstað, sagði Morgunblaðinu frá því helsta sem vita þarf ætli maður að halda sjómannadaginn hátíðlegan á Akranesi þetta árið.

Haldið í hefðirnar

„Dagskráin á sjómannadaginn á Akranesi geymir iðulega nokkra liði sem mörgum þykja orðnir ómissandi. Dagurinn hefst á minningarstund við minnismerki um týnda sjómenn í kirkjugarði Akraness og að því loknu fer fram sjómannadagsmessa í Akraneskirkju. Að athöfninni lokinni er blómsveigður lagður að minnismerki sjómanna á Akratorgi,“ segir Ella. „Sjómaðurinn er listaverk eftir Martein Guðmundsson sem var afhjúpað á sjómannadeginum árið 1967. Fyrir utanbæjarfólk er ágætt að vita að styttan stendur við Akratorg í miðbæ Akraness en hún var reist til minningar um drukknaða sjómenn.“

Ný sýning verður opnuð í Akranesvita á sjómannadaginn og frítt verður í vitann á milli tíu og sex. „Sýningin sem um ræðir fjallar um sögu vita á Akranesi og er haldin í tilefni 100 ára afmælis gamla vitans á Suðurflös. Sýningin verður á fyrstu hæðinni svo enginn þarf að hafa áhyggjur af því að klöngrast upp alla stigana,“ segir Ella og hlær. Verður þó önnur sýning á annarri hæð vitans, fyrir áhugasama: „Myndlistarmaðurinn Pétur Bergmann Bertol er með sýningu allan júnímánuð á annarri hæðinni svo hún verður auðvitað opin gestum og gangandi líka.“

Nóg í boði fyrir unga fólkið

Akranesleikarnir 2018, árlegt sundmót Sundfélags Akraness, verða haldnir þessa sömu helgi og má því búast við margmenni og sérstaklega miklu lífi í bænum þetta árið. „Það eru þrjú til fjögur hundruð krakkar að keppa á mótinu og svo bætast þjálfarar og foreldrar þar við,“ segir Ella. „Á síðustu árum hefur mótið ekki verið haldið sömu helgi og sjómannadagurinn svo við búumst við miklu fjöri að þessu sinni.“ Leikarnir verða haldnir í Jaðarsbakkalaug en þar er 25 m útilaug og glænýtt heitupottasvæði sem Ella segir að svíki engan.

Nokkuð hefðbundin fjölskyldudagskrá verður á öðrum stöðum í bænum. „Um eittleytið verður dorgveiðikeppni,“ segir Ella en sú verður haldin á sementsbryggjunni. „Í kjölfarið verður svo fjölskylduskemmtun á hafnarsvæðinu á milli 14 og 16 þar sem hoppukastali, róðrarkeppni, kassaklifur og ýmislegt skemmtilegt verður um að vera.“

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur gjarnan reynt að sækja Akranes heim á þessum degi en skiljanlega er það aldrei öruggt. „Þyrlan hefur komið hérna nokkrum sinnum en í hitteðfyrra þurfti hún að sinna útkalli. Við verðum því bara að vona að hún láti sjá sig,“ segir Ella.

Kökur og kaffi

Fyrir þá sem eru svangir er gott að vita af dásemdarkaffisölunni hjá slysavarnadeildinni Líf sem fer fram í Jónsbúð við Akursbraut og svo er einnig von á sölufólki á hafnarsvæðinu.

„Svo má ekki gleyma dýfingakeppninni!“ segir Ella og heyrist greinilega á henni að viðburðurinn er bæði spennandi og skemmtilegur. Sjóbaðsfélag Akraness stendur fyrir keppninni en félagsfólk í Sjóbaðsfélaginu á það allt sameiginlegt að vera áhugafólk um sjósund á Akranesi. „Keppendurnir fara út á bát og stökkva þar af palli,“ segir Ella en að hennar sögn heppnaðist keppnin afbragðsvel í fyrra. Þá var keppt í tveimur aldursflokkum, 49 ára og yngri og 50 ára og eldri, og má búast við svipuðu sniði í ár. Keppnin mun fara fram um kl. 11 í sjónum við Langasand. Þó að Langisandur hafi í gegnum tíðina verið notaður bæði sem flugbraut og fótboltavöllur er hann fyrir löngu orðinn þekktur fyrir einstaka náttúrufegurð og sem ein besta baðströnd Íslands. Þá er gaman að geta þess að um þessar mundir er verið að reisa þriggja hæða mannvirki við Langasand sem ber heitið Guðlaug. Mannvirkið samanstendur af útsýnispalli, heitri laug og grynnri laug sem nýtur vatns úr yfirfalli efri laugarinnar.

Dagur sem á sér sögu

Sumum þykir sjómannadagurinn að vissu leyti hafa misst þann hátíðleika sem hann hafði áður. Fyrr á tímum var þessi dagur með stærri bæjarhátíðum víða um land en í dag hafa hátíðahöld lagst af á mörgum stöðum. Ella segir sjómannadaginn alltaf hafa skipt sig miklu máli og harmar að hátíðahöld séu sums staðar að minnka. „Þegar ég hóf störf hjá kaupstaðnum fyrir um tveimur og hálfu ári var rætt um að leggja hátíðina af hér. Sem betur fer höfum við fengið styrki frá góðum aðilum til að halda hátíðina og höfum getað haldið henni áfram. Ég fæ nostalgíukast þegar fólk minnist á að hætta þessari hátíð,“ segir hún með bros á vör.