Ég valdi greinilega rétta tímann til að skreppa í tveggja vikna frí til útlanda. Þegar ég kom heim í byrjun vikunnar blasti við mér frétt þess efnis að úrkomumet væri fallið í maí enda þótt nokkrir dagar væru enn eftir af mánuðinum.
Elín Margrét Böðvarsdóttir, fréttakona Stöðvar 2, tók að vonum strauið upp á Veðurstofu til að bera tíðindin undir Harald Ólafsson veðurfræðing (hefur líklega fengið ábendingu frá hinum þráðbeina kollega sínum Jóhanni K. Jóhannssyni) og viti menn, Haraldur sem finnur úrkomu alls staðar, meira að segja slagveðursrigningu í hanskahólfum bifreiða, komst að þeirri niðurstöðu að metið væri málum blandið; mögulega hefði rignt meira í maí 1989, þegar gamla metið var sett. Hvernig í ósköpunum má það vera?
Jú, Kári gamli var víst í umtalsvert meiri jötunmóð fyrir 29 árum með þeim afleiðingum að einhver hluti úrkomunnar fauk á haf út áður en mæligræjur Veðurstofunnar, sem að sögn Haraldar eru ekki nægilega fullkomnar, náðu í skottið á henni. Og drukknaði þar innan um sogrör og almennar plastumbúðir – og sjálfsagt eina og eina bröndu.
Það rigndi með öðrum orðum lárétt en ekki lóðrétt í maí 1989. Magnað!
Orri Páll Ormarsson