Yfir sjómannadagshelgina er bærinn allur undirlagður og almenn þátttaka í viðburðum hátíðarinnar. „Þetta er hátíðisdagur fyrir allt samfélagið enda hafa Ólafsfirðingar sterka tengingu við sjávarútveginn,“ segir Ægir. „Undanfarin ár höfum við hvatt bæjarbúa til að skreyta hjá sér hverfin og hafa þeir brugðist við með því að skreyta hátt og lágt þar sem hvert hverfi hefur sinn lit. Húsin og garðarnir ljóma í öllum regnbogans litum, sem setur mjög skemmtilegan svip á bæinn.“
Ægir, sem sjálfur sótti sjóinn í fjóra áratugi, segir viðburðinn líka hafa mikla merkingu fyrir sjómennina sjálfa. „Þetta er okkar stóri hátíðisdagur og oft eini dagurinn að jólunum undanskildum þar sem allir eru í höfn á sama tíma og geta hist til að skrafa og skemmta sér. Sjómannadagurinn er þá ekki bara stanslaus glaumur og gleði heldur tækifæri til að rifja upp liðna tíð og halda á loft minningu þeirra sem eru fallnir frá.“