Miðjan Andrea Mist Pálsdóttir er í stóru hlutverki á miðjunni hjá Íslandsmeisturum Þórs/KA. Hún hefur leikið 58 af síðustu 59 leikjum liðsins í deildinni.
Miðjan Andrea Mist Pálsdóttir er í stóru hlutverki á miðjunni hjá Íslandsmeisturum Þórs/KA. Hún hefur leikið 58 af síðustu 59 leikjum liðsins í deildinni. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
5. umferð Guðjón Þór Ólafsson gudjon@mbl.is Andrea Mist Pálsdóttir var allt í öllu á miðjunni hjá Þór/KA þegar liðið vann 4:1 sigur á FH í Kaplakrika sunnudaginn var.

5. umferð

Guðjón Þór Ólafsson

gudjon@mbl.is

Andrea Mist Pálsdóttir var allt í öllu á miðjunni hjá Þór/KA þegar liðið vann 4:1 sigur á FH í Kaplakrika sunnudaginn var. Andrea skoraði fjórða og síðasta mark norðanstúlkna sem eru efstar í Pepsi-deild kvenna með fullt hús stiga eftir fimm leiki. Andrea er sá leikmaður sem Morgunblaðið fjallar um eftir 5. umferð Pepsi-deildar kvenna en hún fékk 2 M fyrir frammistöðu sína gegn FH.

Andrea segir að þrátt fyrir góða byrjun sé enn rúm til bætingar. „Þó að við höfum unnið alla leikina þá vantar ennþá aðeins upp á spilamennskuna. Við höfum samt verið að skora mikið af mörkum og halda hreinu í flestum leikjum. Við vorum búnar að setja okkur markmið að vinna hvern einasta leik og það hefur gengið upp hingað til. Samt er alltaf eitthvað sem má bæta.“

Stórleikir fram undan

Í fjórum af næstu fimm leikjum mun Þór/KA mæta Breiðablik, Val og Stjörnunni tvisvar. Þetta eru liðin sem koma til með að veita þeim hvað mesta keppni í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn og segist Andrea vera viðbúin hörkuleikjum:

„Þetta verða erfiðir leikir. Og það er alltaf mikil barátta í þessum leikjum. Þetta þarf að vera svona vinnusigur í þessum leikjum. Maður þarf að hlaupa úr sér lungun.“

Sterk innkoma Donna

Andrea kemur úr mjög sigursælum árgangi hjá Þór/KA sem varð bæði Íslands- og bikarmeistari í tvígang í 2. flokki. Meistaraflokksliðið í dag er að góðum hluta byggt á þessum sama kjarna og segir Andrea að þetta sé þéttur og samheldinn hópur. Andrea segir að Donni, þjálfari meistaraflokks Þór/KA, hafi komið gríðarlega sterkur inn þegar hann tók við liðinu í fyrra og sett skýr markmið.

„Við vorum allar á sömu blaðsíðu og sem skilaði 2. flokki Íslandsmeistaratitli, bikarmeistaratitli og svo auðvitað meistaraflokkstitli. Þetta er auðvitað ekki bara honum að þakka en hann lét okkur allar vera á sömu blaðsíðu sem skilaði okkur öllum þessum titlum.“

Ætlar að koma sér í landsliðshópinn

Í vetur fékk Andrea nasaþefinn af landsliðinu þegar hún spilaði sinn fyrsta A-landsleik í vináttuleik gegn Noregi á La Manga. Hún var einnig valin í landsliðshópinn sem fór á Algarve-bikarinn í Portúgal og lék þar einn leik. Andrea segir að þessi landsliðsverkefni hafi gefið henni mikið sjálfstraust inn í tímabilið.

„Þetta fær mig til þess að hafa meiri trú á mér. Ég var að berjast um stöðu við Söru Björk og Gunnhildi sem eru bestu leikmenn landsliðsins. Þannig að það er gott að vita að maður er á réttri leið. Ég held náttúrlega áfram og stefni á að spila fleiri A-landsliðsleiki. Ég ætla að byggja mig upp í sumar til þess að koma mér inn í þennan hóp. En það er erfitt og maður verður að vera þolinmóður.“

Vill skora fleiri mörk

Mark Andreu gegn FH var hennar annað mark á meistaraflokksferlinum. Andrea ætlar að bæta úr því og hefur sett sér háleit markmið í sumar hvað varðar markaskorun:

„Ég ætla að skora 8 mörk í sumar. En það er bara markmið. En ég fer bara í hvern leik og gef 100% og sé til hverju það skilar liðinu.

Markmiðið að komast í atvinnumennsku

Þegar Andrea er spurð út í framtíðina segir hún markmiðið vera að komast út í atvinnumennsku: „Draumurinn væri að komast til Svíþjóðar eða Þýskalands. Við erum náttúrlega að fara að spila í meistaradeildinni með Þór/KA alveg þangað til í haust. Þannig að ég ætla að klára það verkefni og sjá svo til hvað verður í boði.“